13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

149. mál, virkjun Sogsins

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins hvað viðkemur ræðu hv. þm. V.-Sk. að benda á, að brtt. mín er aðeins sú að kippa til baka breyt. Ed., og frekari breyt. gerði hv. Ed. ekki á frv. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að fara að rökræða hér þetta mál, það gerði ég við fyrri umr., en ég ætla nú samt að leyfa mér að senda hv. 11. landsk. nokkur orð. — Á ræðu hans var það helzt að heyra, að meiri hl. iðnn. ætti að ráða því, hvaða bein væru hér á borð borin í þessari hv. d. Ég vil nú benda þessum hv. þm. á það, að hann hefur ekki meiri rétt hér en aðrir þdm. Þau eru jafngild atkv. þdm., þótt þeir eigi ekki sæti í iðnn. Þessi hv. þm. var samþykkur minni hl. á sínum tíma og vonandi, að þm. standi við samþykkt sína við 3. umr. Það er bókstaflega furðulegt af þessum hv. þm. að leggja á það áherzlu að gera ríkinu erfitt fyrir til þess að ganga til verks með þessa virkjun. Það er óþarfi af þessum hv. þm. að láta ljós sitt frekar skína í þessu máli. Hann er búinn að sýna svo oft vilja sinn og villir ekki á sér heimildir. Það liggur bert fyrir af frammistöðu þessa hv. þm., að hann vill torvelda, að ríkið taki þátt í þessu. Um annan tilgang er ekki að ræða hjá honum, þessum hv. þm.

Ég hef ekki skap í mér til þess að eyða fleiri orðum að þessum hv. þm. Sjálfur er hann búinn að túlka vilja sinn og er illt, að þessi ungi maður skuli vilja hindra það, að almenningur í landinu eigi kost á því að fá raforku. Allt tal þessa hv. þm. er í þessa átt. Maður skyldi ætla, að þessi maður væri frá steinöld, að ég tali nú ekki um hug almennings í landinu, sem hefur byggt vonir í sambandi við þetta rafmagn.

Ég mun nú ekki að sinni fjölyrða um þetta frekar, en ég gat ekki annað en sent honum kveðju, og má hún fylgja honum sem skuggi í þessu framfaramáli.