13.04.1946
Neðri deild: 109. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (2319)

149. mál, virkjun Sogsins

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. þreytist aldrei á að tala um áróður. Nú er hann kominn austur yfir Þjórsá og næst kemst hann kannske austur að Jökulsá. Ég hef fyrir mitt leyti ekki orðið var við neinn áróður í þessu máli, en Rangæingar eru þannig settir, að þeir taka á móti því, sem fram kemur og þeir halda, að sé til bóta. En hitt sagði ég áðan, að það sló óhug á marga menn, sem vildu vona, að hægt væri að byggja eitthvað á þessu. Ég var austur í Þykkvabæ, þegar þessi skrumauglýsing kom í útvarpi og blöðum, og það var sama daginn og ráðh. skrifaði n. bréf um þetta efni. Sveitamennirnir eru nú þannig gerðir, að þeir leggja meira upp úr athöfnum en auglýsingum, ef þeir hafa í huga að framkvæma eitthvað til hagsbóta fyrir sig eða aðra. Þeir eru ekki vanir að hlaupa með það í útvarp og blöð, þó að þeir framkvæmi eitthvað. En þetta er kannske bara gamaldags hugsunarháttur þeirra, sem í sveitunum búa. En svo stóð nú á, að kosningar stóðu fyrir dyrum, og sumir líta þannig á, sem tala við mig, að einhver kosningaáróður kunni nú að hafa verið í þessari auglýsingu. Þetta sögðu þeir við mig. Vonandi er ekki að ásaka hæstv. ráðh., því að hann segist ekkert vera bendlaður við þetta, og þykir mér vænt um það, af því að ég hef ekki orðið var við svona skrumauglýsingar hjá honum um sig eða sín verk. Hver þetta hefur gert, veit ég ekki. Samþm. minn sést ekki hér í dag. Ég hefði þó gjarnan viljað spyrja hann, en varla hefur hann þó gert það. En þá er eftir að vita, hver það hefur gert. Ég held a. m. k., að það hafi verið gert hæstv. ráðh. til lofs og dýrðar og kannske einhverjum fleirum. En sem sagt, ég læt það engin áhrif hafa á mig eða mín afskipti af þessu máli. Mér er nokkurn veginn sama um þessa auglýsingu, sérstaklega ef hún yrði ekki til þess að draga úr vonum þeirra manna; sem þrá, að eitthvað verði úr því, að þeir fái rafmagn.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. En dálítið er það undarlegt með þessa 5% álagningu. Það voru 10% í fyrsta frv., sem lá fyrir þinginu, og einn þm. sagði mér það, sem mjög stendur nærri Reykjavík, að þetta væri alltaf hægt að lagfæra, því að Reykjavík væri svo sterk, að hún gæti hækkað þessa prósentu þegar henni sýndist, og þá má búast við, að þetta geti komizt upp í að verða eins konar heildsöluálagning.