04.04.1946
Efri deild: 99. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Steingrímur Aðalsteinsson:

Ég ætla að taka það fram þegar í upphafi, að ég mun ekki greiða atkv. gegn frv., þótt brtt. þær, er ég flyt allmargar og ýmsar mikilvægar á þskj. 679, verði felldar. Álít ég, að frv., eins og mæla á með því, yrði mjög verulega til bóta frá því, er nú gildir. Því er það, að ástæða er til að fylgja því fram hér. Á ég einkum við I. kaflann, þ. e. um verkamannabústaði. En þar er um aukin framlög að ræða og svo hitt, að bæði er nú lánstíminn lengdur og lánskjörin gerð betri, rýmkuð mjög. Verður þetta að sjálfsögðu til þess, að starfsemi byggingarfélaga eykst mjög, og bætast mun þá úr húsnæðisleysinu. Þess vegna liggur ljóst fyrir, að þessi aðgerð er nauðsynleg.

En engu síður má segja hið sama um nýmælið í III. kafla l., um aðgerðir bæjarfélaganna til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum og hjálpar fólki vegna fjárhagsörðugleika.

Þótt ég telji, að með frv., eins og það er nú, verði mjög greitt fyrir ýmiss konar starfsemi til að bæta úr húsnæðisskortinum, þá er það þó mín skoðun, að þörf hefði verið róttækari ráðstafana í ýmsum atriðum og átt hefði að tryggja betur, að lán þau fengjust, sem gert er ráð fyrir í frv. Sumar brtt. mínar hníga að því og aðrar að hinu, að gera ráðstafanir til þess að koma upp miðstöðvum fyrir þessa byggingarstarfsemi í því skyni að afla samræmis eftir hentugleikum og lækka kostnaðinn. Þetta vildi ég í öndverðu sagt hafa um frv. almennt, en mun þessu næst víkja að einstökum brtt. mínum á þskj. 679.

1. brtt. er við 3. gr. frv. (um framlög ríkis og bæja til deilda byggingarsjóðs). Í frv. er svo ákveðið, að bæjarfélögin, þar sem þess er talin þörf, leggi í byggingarsjóð 4–6 kr. fyrir hvern íbúa og ríkið leggi jafnháar upphæðir árlega til móts við þau. Í mínum tillögum er fastbundið, að sveitarsjóðir leggi 4 kr., en framlag ríkissjóðs sé tvöfalt meira, eða 8 kr. Ef bæjarfélag færi í hámark, 6 kr., og ríkið legði hið sama, 6 kr., þá yrði upphæðin samanlögð jafnhá þeirri, er yrði skv. brtt. minni, þ. e. 12 kr., en ef bær legði 4 kr., yrði framlag til sjóðsins aðeins 2/3 af því, sem ég geri ráð fyrir í brtt. minni. Hún gengur lengra að nokkru, en að hinu leytinu eru höfð önnur hlutföll um framlög.

Í frv. hv. þm. Str. og hv. 1. þm. Eyf. voru ákvæði mjög svipaðs eðlis um umrædd fjárframlög og í brtt. minni. Þó að líta megi svo á, að fyrst og fremst sé það hagsmunamál hvers bæjarfélags að sjá íbúum sínum fyrir húsnæði, þó hljóta þó skyldur ríkisins að koma vitanlega jafnframt til greina. Oft eru tekjustofnar bæjanna í rýrara lagi, og getur orðið erfitt fyrir sum bæjarfélög að leggja fram fé til sumra þessara hluta. Þótt segja megi, að mikið sé lagt á herðar ríkisins og mörgum þyki nærri gengið gjaldþoli þegnanna, þá hefur þó ríkið betri aðstöðu og fleiri leiðir og fyllri til fjáröflunar. Ber því að telja vel frambærilegt, að ríkið leggi meira af mörkum.

2. brtt. mín er við 4. frvgr. og víkur að, hvort hafa megi fleiri en eitt byggingarfélag á hverjum stað. Eftir 4. frvgr. má aðeins vera eitt félag á hverjum stað. M. ö. o., lán eru aðeins veitt til eins byggingarfeiags í hverjum kaupstað eða kauptúni. Er ekki óeðlilegt að segja, að í fámenni sé eigi ástæða til, að mörg félög séu starfandi. En mér, þykir sem um Reykjavík gegni nokkuð öðru máli og eigi þar því um að gilda önnur ákvæði. Ber tvennt til: Í fyrsta lagi er Rvík fjölmennasti bær á landinu, og svo er nú hitt í öðru lagi, að þegar eru starfandi í Rvík tvö byggingarfélög. Tel ég því, að gera mætti ráð fyrir í Rvík fleiri en einu byggingarfélagi, og finnst mér eðlilegt, að þessum tveim, er þar eru þegar starfandi, sé gert jafnhátt undir höfði af löggjafanum, ekki sízt vegna þess, hve þörfin er hér mikil, svo sem viðurkennt er. Ég ætla eigi að svo komnu að fara út í að ræða það, hvers vegna þessi félög urðu tvö. En ég vænti þess, að vel verði tekið undir þessa brtt. mína, jafnrétti megi ríkja og aðstaða verði gefin til fjáröflunar.

3. brtt. mín er við 6. frvgr. og fjallar um, hvernig byggingarfélög skuli kjósa stjórnir sínar. Eftir frv. skal stj. félags skipuð 5 mönnum þannig að fjóra þeirra kjósa félagsmenn, en þann fimmta skipar félmrh., og er hann formaður stj. Mun það vera rökstutt með því, að eðlilegt sé, þar eð ríkið veiti svo mikla aðstoð, að ríkisvaldið hafi hönd í bagga um skipun formannsins a. m. k. Ráðstöfunarréttur fjárins í byggingarsjóðnum er í höndum sjóðsstj., og hafa því félagsmenn engan yfirráðarétt yfir þeim sjóði, en stj. hans er kjörin af Alþ. M. ö. o., yfirráðaréttur þess fjár er tryggður ríkisvaldinu. Og byggingarfélögin eru aðeins lántakendur. Af undanfarandi má ráða, að til þess er engin ástæða, að ríkið fari að skipta sér neitt af skipun félagsstjórnanna. — Í frv. eru ákvæði um byggingarsamvinnufélögin. Ráða þau sínum stj. sjálf, og finnst mér, að sama ætti að gilda um verkamannabústaðina, þ. e. byggingarfélög þeirra ættu að hafa sömu réttindi. Það er engin ástæða til að tortryggja þau, og á því að láta þeim í té óskoraðan rétt.

Þetta voru brtt. við I. kaflann. Kem ég þá að II. kaflanum.

4. brtt. er við 16. atvgr., c-liðinn. Er þar fjallað um fjárútveganir handa byggingarsamvinnufélögum. Samkv. ákvæðum frv. er gert ráð fyrir, að svo verði, að félagsmenn leggi sjálfir fram 20% í stofnsjóð og tryggi sér þar með rétt til húsnæðis, en hins vegar, að aflað sé fjár með lántöku með ríkisábyrgð. — Í þessu, finnst mér, að sé ekki nægileg trygging fyrir að koma þessari byggingarstarfsemi í framkvæmd. Þyrfti að mínu áliti að tryggja félögunum greiðan aðgang að lánum. — Brtt. mín er því um það, að greitt verði fyrir lánastarfsemi þeirri, er um ræðir í c-lið, þannig að „heimila veðdeild Landsbanka Íslands að lána byggingarsamvinnufélögum allt að 50% af byggingarkostnaði gegn 1. veðrétti, og gefi veðdeildin út nýjan flokk bankavaxtabréfa, allt að 100 millj. kr., í þessum tilgangi.“

Í viðbót sé svo stofnaður sérstakur sjóður, er lánaði gegn 2. veðrétti, svo að nema mætti allt að 80% á móti 20% frá einstaklingum. Ríkinu skuli heimilt að leggja fram 15 millj. kr. — Ef stofnféð væri ekki nóg, þá mætti gefa út vaxtabréf og veita ríkisábyrgð fyrir þeim. Eins og ég sagði, ætti þessi sjóður að veita lán gegn öðrum veðrétti, og stæði hlutaðeigandi kaupstaður og kauptún í bakábyrgð fyrir lánunum. Skyldi sjóður þessi vera undir stj. nýbyggingarráðs. Lánin skyldu veitt til allt að 35 ára til vel gerðra steinhúsa, en 25 ára til góðra timburhúsa, og vextir af þeim 2%. Ef eftirspurnin eftir lánum þessum væri meiri en veðdeildin og sjóðir byggingarsamvinnufélaganna gætu fullnægt, þá yrði ákvæði um, að fjmrh. væri heimilt að ábyrgjast lán fyrir hönd ríkissjóðs allt að 80%. En þannig er líka ráð fyrir gert í frv. — Það var að nokkru leyti viðurkennt í n., að gera yrði sérstakar ráðstafanir til að útvega lánsfé, auka lánsmöguleikana. N. varð þó ósammála um brtt. mínar og vildi hvorki bera þær fram né gera aðrar slíkar sjálf. Hef ég talið ástæðu til að leggja fram þessar brtt. mínar, þó að ekki fengist samkomulag í n., og vil ég leggja það undir, dóm hv. d., hvort hún vill gera slíkar ráðstafanir eða aðrar, er gangi í svipaða átt.

Í samræmi við till. um stofnun þessa sjóðs flyt ég líka 5. brtt. um, að nýjar gr. komi inn í frv. um myndun sjóðsins og starfsemi hans. En þær hanga saman við, hvernig fer, um afgreiðslu annarra brtt. minna.

Við III. kafla frv. flyt ég ekki neinar sérstakar brtt. Honum hefur verið breytt nokkuð af n., eins og hv. frsm. gat um, og get ég sætt mig við hann í slíku ástandi, þótt að vísu sé dregið nokkuð úr skyldum ríkisins við bæjarfélögin, þ. e. framlögum þess, og ríkisábyrgðin numin brott. Þetta getur að vísu torveldað sumum bæjarfélögum að hagnýta sér þennan kafla til fjáröflunar. En þetta er gert til samkomulags, og þykir mér svo eigi ástæða til að fjalla frekar um þetta.

Þá er IV. kafli frv. Á honum hafa verið gerðar veigamiklar breyt. í n., sem ég greiddi atkv. á móti og mun einnig greiða atkv. á móti hér í hv. d. Hins vegar varð ekkert samkomulag um þá brtt., sem ég flutti í n. og flyt nú einnig hér, um það, að í staðinn fyrir IV. kafla komi fyrirmæli um að setja á fót sérstaka stofnun, er nefnist Byggingarstofnun ríkisins, sem ætti að vera eins konar miðstöð fyrir alla íbúðarhúsabyggingu og framkvæmdi alla byggingarstarfsemi þar, sem veitt er opinber aðstoð eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Það var að vísu viðurkennt í n., að ýmislegt af því, sem þessar brtt. fjalla um, væri athyglisvert, en hins vegar þótti það of viðamikið til þess, að nm. vildu fallast á að taka það inn í frv. Og sumir nm. létu þess enda getið, og ég býst við, að hv. 6. þm. Reykv. hafi einkum átt við það, þegar hann lýsti því áðan, að ef sumar af þeim brtt., sem fyrir liggja, væru samþ., mundi það geta orðið til þess, að hann gæti ekki fylgt frv. Og ég býst við, að m. a. hafi hann átt við þennan kafla frv., um Byggingarstofnun ríkisins. En þrátt fyrir þessar undirtektir hef ég samt talið rétt að láta þetta koma hér fram, þannig að fram gætu farið umr. um það og ef til vill athugun á því, hvort ástæða væri til þess að koma á fót nú eða síðar slíkri stofnun sem þessari.

Ég skal reyna að verða ekki allt of langorður um þessar brtt., þó að þær séu nokkuð víðtækar, en drepa aðeins á helztu atriði, sem þessari stofnun væri ætlað að hafa með höndum. Það er þá fyrst og fremst, að henni er ætlað að starfrækja teiknistofu, að svo miklu leyti sem hægt væri að koma við, og gerðar þar teikningar að þeim byggingum, sem reistar væru með þeirri opinberu aðstoð, sem frv. gerir ráð fyrir, og að þessar teikningar yrðu látnar í té byggingarfélögum og öðrum aðilum, sem að þessum byggingum stæðu, ókeypis og jafnframt því yrði gert að skilyrði fyrir aðstoð samkv. l., að ef þessi teiknistofa Byggingarstofnunar ríkisins hefði ekki gert teikningarnar, þá yrði hún í það minnsta að samþ. þær, áður en lán yrði veitt eða ríkisábyrgð fyrir láni. Þetta ákvæði er hugsað til þess að gera byggingarnar bæði samræmdar og til þess að tryggja, að þær væru á allan hátt sem bezt úr garði gerðar, því að þessi stofnun ætti, eins og segir í 2. gr., að kynna sér allar tæknilegar nýjungar á sviði byggingarmála og gera tilraunir um notagildi þeirra nýjunga, sem hún kæmist á snoðir um, t. d. erlendis frá, með tilliti til íslenzkra staðhátta, og síðan veita fræðslu um þau efni, eftir því sem kostur væri á. Þetta hvort tveggja, teikningarnar og þessi upplýsingastarfsemi, sem þessi stofnun hefði þá með höndum, ætti að miða að því að gera byggingarnar sem mest samræmdar, að vísu ekki allar í sama mót, en að þar verði samræmt sem bezt Það, sem tilraunir hafa sýnt bæði hér og erlendis, að gefizt hefur vel, og samræma það við íslenzka staðhætti.

Þá er einnig í þessum kafla um framkvæmd bygginganna og gert ráð fyrir, að þessi stofnun taki beinlínis að sér framkvæmd bygginganna fyrir byggingarfélög og bæjarfélög og aðra aðila, sem nefndir eru í frv. og veitt hefur verið lán eða ríkisábyrgð samkv. l. þessum. Og enn fremur, ef skilyrði væru fyrir hendi, væri henni leyfilegt að taka að sér aðrar þær byggingar sem á döfinni væru á hverjum tíma.

Það er náttúrlega augljóst mál, að þetta væri geysilegt verkefni fyrir eina stofnun, og yrði það umfangsmikið í framkvæmdinni. En ef slík stofnun væri á annað borð komin á laggirnar og hefði skilyrði til þess að hagnýta sér alla þá beztu tækni, sem fyrir hendi væri á hverjum tíma, og framkvæmdi í miklu stærri stíl og með samfélagslegum aðgerðum á stórum svæðum og enda fyrir landið allt, þá ættu að vera möguleikar til þess að gera byggingarnar ekki aðeins vandaðri, heldur einnig framkvæma það með minni tilkostnaði en þegar einn og einn einstaklingur er að byggja fyrir sig sitt hús og jafnvel þó að byggingarfélög séu á smærri stöðum, sem eru að byggja út af fyrir sig og verða að fá til þess lán, að svo miklu leyti sem kostur er en eru þó, a. m. k. þegar einstaklingar eiga hlut að máli, of smáir og smærri en slík stofnun hefði óskað að vera.

Í 4. lagi er þessari stofnun ætlað að hafa íhlutun um ráðstöfun byggingarefnis, meðan það ástand er, að skortur er á byggingarefni og e. t. v. skortur á vinnuafli til byggingarstarfseminnar. Þá er ætlazt til þess að setja þessar hömlur á notkun byggingarefnis, og er þessari stofnun einnig ætlað að hafa á hendi úthlutun innflutningsleyfa og ákvörðun um það, til hvaða bygginga væri notað það byggingarefni, sem flutt er inn á hverjum tíma. Og til undirbúnings þessu er ætlazt til þess, að Byggingarstofnun ríkisins annist skýrslusöfnun í félagi við nýbyggingarráð um það, hverra bygginga væri óskað á hverjum tíma, bæði að því er snertir íbúðabyggingar og einnig aðra byggingarþörf landsmanna, og að á grundvelli þeirrar skýrslusöfnunar væri framkvæmd sú úthlutun á byggingarefni, sem talin væri nauðsynleg vegna hins takmarkaða innflutnings. Enn fremur heyrði það undir þessa stofnun, í umboði ríkisvaldsins að sjálfsögðu, ef svo mikill hörgull væri á byggingarefni, að talið væri nauðsynlegt að stöðva einhverjar byggingar, sem taldar væru minna nauðsynlegar, og að setja sömuleiðis takmarkanir fyrir því, þegar skortur er á byggingarefni, að ekki væru byggðar óhóflega stórar íbúðir, heldur yrðu hinar minni íbúðir látnar sitja fyrir, og þá helzt fyrir húsnæðislaust fólk, sem engar óhóflegar íbúðir, ætti.

Og í 5. lagi er svo einnig gert ráð fyrir því, að Byggingarstofnun ríkisins taki beinlínis að sér innkaup byggingarefnis og útvegun, bæði í þær byggingar, sem hún hefði með að gera sjálf, og til annarra.

Þetta eru aðalatriðin í þeim verksviðum, sem Byggingarstofnun ríkisins er ætlað að hafa samkvæmt þessari breyt. Ég hirði ekki um að fara að rekja frekar ýmis minni atriði og önnur ákvæði, sem þýðingu hafa í sambandi við þetta, en ég mundi gera það að sjálfsögðu síðar, ef umr. yrðu um það að setja slíka stofnun á fót. Eins og ég tók fram þegar í upphafi, mun ég, hvaða örlög sem þessar brtt. mínar fá, eftir sem áður fylgja meginefni frv., því að þótt ég telji þær ráðstafanir; sem ráðgerðar eru, ekki ganga nógu langt og ekki vera nógu róttækar og ekki tryggja nógu vel, að þær verði framkvæmdar með tilliti til þess að útrýma húsnæðisleysi, sem fólk á við að búa, þá tel ég þær umbætur, sem í frv. felast, það veigamiklar, að það sé vel þess vert og sjálfsagt að fylgja þeim fram.