04.04.1946
Efri deild: 99. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Hermann Jónasson:

Þær brtt., sem hér eru komnar á borðin, þarf ég ekki að verja nema örfáum orðum um, vegna þess að þær eru í aðalatriðum efnislega kunnar hv. d. áður.

Það, sem ég bar fram í n., var það, að það frv., sem ég hafði flutt um sama efni, yrði lagt til grundvallar, en það fékkst ekki samþykkt. Ég hef lýst því yfir hér við 1. umr. þessa máls og bent á það, að mér þykir sá munur, sem gerður er á fríðindum, sem einstaklingar fá samkv. I. kafla þessa frv. og II. kafla, allt of mikill. Enda er það nú komið í ljós, að hv. 4. landsk. flutti einmitt brtt. við II. kafla frv. til þess að gera þessi fríðindi, sem samvinnufélög annarra en verkamanna hafa, einhvers virði, ef svo mætti segja, í það minnsta meiri en þau eru samkv. II. kafla frv., sem hér liggur fyrir, þar sem fríðindin eru ekki önnur en þau, að þeir menn, sem í þeim félögum eru, fá ríkisábyrgð fyrir lánum allt að 80%.

Mér þykir þessi munur, eins og ég hef tekið fram, nokkuð mikill, og eins og hv. 4. landsk. hefur einnig bent á hann og telur, að nauðsyn sé að ráða bót á, svo gífurlegur, að ég tel hann ekki ná neinni átt. Ég viðurkenni að vísu, að það hefur orðið að setja einhvers staðar takmörkin, en að láta það ráða, hvort maður hefur 7 þús. kr. tekjur í það minnsta 3 síðustu árin, að viðlagðri vísitölu, og á þeim tíma, sem hann þarf að byggja, að viðbættum 1000 kr. fyrir hvern ómaga, og ekki yfir 10 þús. kr. eignir, að láta þetta ráða því, hvort hann fær þau fríðindi, sem ræðir um í I. kafla, finnst mér ekki sanngjarnt. Þeir, sem hafa einni kr. meira en 7 þús. kr. tekjur eða einni kr. meira en 10 þús. kr. eignir og hafa ekki orðið svo lánsamir að eignast börn, þeir eru réttlausir samkv. I. kafla frv.

Ég skal viðurkenna, að einhvers staðar varð að setja takmörkin, en að láta muninn vera svona mikinn eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., tel ég, að ekki sé sanngjarnt og að það hefði verið miklu sanngjarnara að haga þessum málum eins og gert er í því frv., sem ég flutti, þar sem er verulegur stigmunur, en ekki eins mikill og gert er hér ráð fyrir. Ég flyt þess vegna brtt. við I. og II. kafla frv., þar sem eru í aðalatriðum tekin upp þau ákvæði, sem voru í frv., sem ég flutti, og sniðin eru eftir þeirri reynslu, sem fengin er bezt á Norðurlöndum um þessi mál, og þar sem horfið er frá því kerfi, sem tekið er upp í það frv., sem nú liggur fyrir frá ríkisstj.

Ég vil svo leyfa mér að gera að till. minni, að III. kaflinn, um íbúðarhúsabyggingar sveitarfélaga, verði algerlega felldur niður, en IV. kafli verði svipaður og gert er ráð fyrir í brtt n., síðan komi kafli, ef mínar. brtt. verða samþ., undir fyrirsögninni „Ýmis ákvæði,“ og þar er svo fyrir mælt, að ef ekkert byggingarfélag er í kaupstað eða kauptúni eða ef byggingarfélag fullnægir ekki húsnæðisþörfinni, þá er sveitar eða bæjarstj. heimilt að ákveða, að sveitar- eða bæjarfélagið skuli sjá um að koma upp íbúðarhúsabyggingum og hafa þá sama rétt og byggingarfélög. Og ég sé ekki, að nein þörf sé á því, ef byggingarfélög fullnægja húsnæðisþörf með byggingum sínum, að setja upp það bákn, sem gert er ráð fyrir að setja upp samkv. III. kafla frv. Það er á allan hátt að mér finnst eðlilegt, að sveitarfélögin og bæjarfélögin geti þá gengið inn í þann rétt, sem byggingarfélögin annars hafa samkv. ákvæðum þessa frv., og það á algerlega að vera fullnægjandi. Síðan er ákvæði um það í minni brtt., að ef mjög fáir einstaklingar búa í þorpi eða byggðarhverfi, en svo fáir, að þeir geta ekki stofnað til félagsskapar með þeirri lágmarkstölu, sem gert er ráð fyrir í frv., þá fá þeir rétt með sérstökum hætti, sem ákveðið er í 12. gr., til þess að njóta þeirra hlunninda, sem ræðir um í lögunum.

Að öðru leyti eru svo niðurlagsákvæði frv. svipuð því frv., sem ég flutti hér, og þó tekin upp ákvæði, sem mér þóttu miður fara í frv., sem dómsmrh. flutti. Ég geri ráð fyrir, þegar greidd, verða atkv. um till., þá sé alveg sýnt, hvora leiðina hv. d. vill fara í þessu máli, og mundi það þá leiða af sjálfu sér, ef svo færi, að þessar brtt. næðu ekki samþykki hv. d., að einn hluti brtt. minna kæmi þá ekki undir atkv., því að það er ekki hægt að ganga frá frv. á þann hátt, sem ég legg til í brtt. mínum, nema með því móti, að þær verði samþ. í aðalatriðum í heild. En það er nú komið í ljós, ef svo færi, að mínar brtt. yrðu felldar, að það er alveg frágangssök að samþ. frv. eins og það liggur fyrir frá n., þó að ég sjái mér ekki fært að ganga inn á brtt. hv. 4. landsk.

Það verður að gera einhverja breyt. á frv. við 3. umr., sem lagar það í það horf. sem ég hef bent á. Og það má jafnframt benda á það, að það er enn þá tilfinnanlegra þetta réttleysi þeirra manna, sem eru í samvinnufélögunum, ef þeir uppfylla ekki þau skilyrði, sem gert er ráð fyrir til þess að fá þessi réttindi samkv. I. kafla frv. En samkv. I. kafla þess er mönnum beinlínis boðið upp á lántöku til húsbygginga, eftir því sem ég bezt veit. Og það er mjög vafasamt, hvort við höfum það mikið peningamagn, að það sé hægt að lána til 75 ára. Og ég tel ákaflega vafasamt, að það sé heppilegt fyrir þá, sem húsin byggja, að taka lengra lán en til 42 ára, sem verið hefur sá lengsti lánstími til bygginga og annars. Og ég álít, að það mætti alveg að skaðlausu stytta lánstímann, og það mundi einstaklingum allt að því eins hagkvæmt, þó að segja megi, að langur lánstími sé til léttis fyrir þá, sem í byggingar vilja ráðast. En það er þá því aðeins rétt að veita slíkan rétt, að það standi ekki í vegi fyrir því, að aðrir fái nokkurn rétt. Ég álít þess vegna sanngjarnt að stytta lánstímann samkv. I. kafla, en bæta kjörin samkv. II. kafla, og á þann hátt hygg ég, að muni verða farið að við 3. umr. þessa máls, þó að ekki næðist samkomulag um það í n. að breyta þessu í þessa átt við þessa umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að láta fleiri orð falla um þessar brtt. mínar.