10.04.1946
Neðri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

144. mál, Austurvegur

Jörundur Brynjólfsson:

Ég vil þakka hv. samgmn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli, og þarf ég ekki mörgum orðum um það að fara, því að ég get tekið undir það, sem hv. 10. landsk., frsm. n., lét hér ummælt um þetta mál. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hve mikil nauðsyn er á þessari samgöngubót og hve mikill hluti þjóðarinnar á hér hlut að máli. Og þar að auki getur ekki heitið, að þetta mál sé neinn nýr gestur hér á Alþ., svo að engin ástæða er til að fjölyrða mjög um þetta.

Ég flutti hér á þingi fyrir áramót brtt. við fjárl. um fjárframlög til þessarar vegargerðar, fyrstu greiðslu af sex. Sú brtt. var felld, eins og kunnugt er, og mun hafa verið álitið, að fjármunir væru ekki nógir fyrir til að samþ. slíka greiðslu. Mér þótti þetta miklu miður, vegna þess að þótt hér sé um nokkuð stóra upphæð að ræða, þá var hún, miðuð við þann mælikvarða, sem nú er á fjármunum hjá okkur, ekki svo ýkja há þegar tekið er tillit til þess, hve mikið nauðsynjamál er hér á ferð og hve mikinn hluta þjóðarinnar það snertir, hve gagnlegt og nauðsynlegt það er, bæði fyrir fólk hér vestan Hellisheiðar og eins fyrir þá, sem búa fyrir austan fjall. Ég sé nú á flutningi þessa máls í Ed., að nokkrir þeirra, sem greiddu atkv. gegn till. minni, hafa þö viðurkennt nauðsyn málsins með því að flytja þetta frv., og er það vitanlega góðra gjalda vert. Sá eini ljóður finnst mér þó á því, að þeir ráðh., sem málið heyrir undir, eru heldur andvígir þessu, og get ég að vísu talið það nokkurt vorkunnarmál, eins og ástatt er. Mér er sagt, að hæstv. fjmrh. hafi haft þau ummæli í Ed., að hann mundi ekki notfæra sér þessa heimild til lántöku. Og hæstv. samgmrh. mun einnig þar og að nokkru leyti hér hafa látið í ljós, að hann væri mjög ófús að framkvæma þetta verk með þessu móti, með lántöku. Þetta er í sjálfu sér ekkert furðulegt. Jafnmiklar lántökur og nú liggja fyrir þessu þingi, þá er það ekkert undarlegt, þó að ráðh., sem annast eiga framkvæmdir þessar og — að því leyti, sem hægt er að telja til ábyrgðar — eiga að bera ábyrgð á fjármálum landsins, kinoki sér við að bæta nú við lántökum ofan á það, sem fyrir er. Hins vegar get ég ekki á það fallizt, sem sumir halda fram, að komið geti fram hliðstæð dæmi um framkvæmdir í vegamálum hér á landi og menn geti með jafngóðum rökum talið, að taka beri lán til slíkra framkvæmda annars staðar. Því að enda þótt ég viðurkenni, að því fólki, sem þarna á hlut að máli, sé mikil nauðsyn á að fá bættar leiðir og lagða vegi, þá snertir það samt sem áður hvergi hér á landi jafnmikinn fjölda fólks né varðar jafnmiklu um bjargræði og fjárhagslega afkomu, svo að hérna stendur að þessu leyti öðruvísi á. Og þótt ég á engan hátt vilji leggja stein í götu þeirra, sem vilja umbætur í öðrum landshlutum — því að það er síður en svo, ég viðurkenni nauðsyn þeirra og vildi gjarna greiða götu slíkra umbótamanna —, þá verður þó að meta, hvar þörfin er mest, þar sem fjöldi fólks á bjargræði sitt undir því, að samgöngurnar geti haldizt, og fjöldi manna á jafnframt fjárhagslega afkomu sína undir því, hvernig um slíkar samgöngur fer. Ég vil því mega vona, hvað sem öðru líður, að þetta mál verði framkvæmt eins örugglega og ötullega og frekast eru tök til. Mér skildist á hæstv. samgmrh. hann vilja af sinni hálfu greiða fyrir því, að málið komist í framkvæmd, og það er vitaskuld höfuðatriði, þó að annars sé tryggt að fara þá leið, sem frv. að þessu leyti gerir ráð fyrir, að taka lán til framkvæmdanna.

Ég hef látið mér detta í hug aðra leið til að framkvæma þetta mál, þegar það brást, að Alþ. samþ. till. mína, sem ég bar fram hér á þinginu fyrir áramótin, upp á það að geta flýtt fyrir þessum framkvæmdum. Ég hef átt tal um það við hæstv. samgmrh. og mun nú ræða um það við hann nánar. Ég veit ekki, hvað um þessa leið kann að verða sagt, en ég ætla að nefna það við hann, og vel má eiga von á því, að við gætum borið saman ráð okkar og fundið leið til þess að tryggja öruggan framgang málsins með öðru móti en aðeins lántöku.

Ég skil vel, að hæstv. ráðh. vilji hafa nokkuð rýmri tíma með framkvæmdirnar, þó að það geti ekki skipt höfuðmáli, og skoða ég það frekar sem varúðarráðstöfun, að hann tiltekur 8 ár, heldur en að það eigi beinlínis að seinka framkvæmdum. Þannig vil ég skilja þessa brtt., og með þeim skilningi mun ég greiða henni atkv. mitt.

Hæstv. samgmrh. minntist á Krýsuvíkurveginn, og ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að þegar um snjóalög er að ræða, verður sú leið þrautalendingin milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur. Og þó að hinn nýgerði vegur verði að sjálfsögðu hærri, þá er samt engum vafa bundið, að á snjóavetrum verður hann gersamlega ófær bifreiðum. Það þýðir ekkert að blekkja sig með því, að hann verði alltaf fær, og þá er Krýsuvíkurvegurinn eina leiðin, sem alltaf verður snjólétt. Þess vegna ætti .að snúa sér að því að fullgera Krýsuvíkurleiðina sem fyrst, enda ætti það ekki að þurfa að taka mjög langan tíma.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en vona, að deildin taki málinu vel og það verði fljótlega afgreitt.