15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þeir. hv. nm. félmn., sem hafa flutt hér brtt., hafa gert grein fyrir brtt. sínum, og mun ég nú minnast á þær nokkrum orðum, sérstaklega frá mínum sjónarhól, og vænti, að það geti orðið að nokkru leyti fyrir hönd hinna þriggja nm., sem enga brtt. flytja. Hv. 11. landsk. flytur brtt. á þskj. 824. Fyrri brtt. fjallar um það að skylda Landsbankann til þess að kaupa skuldabréf fyrir byggingarsjóð verkamanna allt að 20 millj. kr. Það er í samræmi við frv., sem var flutt áður hér í hv. d. af 8. þm. Reykv. og 1. landsk. Ég hef nokkuð um það rætt, þegar það var hér til meðferðar, og lýsti ég því yfir fyrir mitt leyti, að ég teldi nauðsyn til þess að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem tryggðu, að byggingarsjóður verkamanna gæti fengið nægt fé til þess að geta fullnægt þeirri eðlilegu eftirspurn, sem væri eftir lánum til verkamannabústaða. Hins vegar var þá, eins og nú, nokkur ágreiningur. um það, hvort hægt væri án frekari athugunar að skylda þjóðbankann til þess að lána allt að 20 millj. kr. Svo stendur á, að formaður byggingarsjóðs verkamanna, sem einnig er bankastjóri, er erlendis og mun hafa verið farinn af landi burt, þegar málið kom til umr. eftir frv. hv. 8. þm. Reykv. Ég fyrir mitt leyti hefði gjarnan kosið þetta og verið til umræðna um það atriði. En ég treysti því, að ef svo færi fyrir brtt. hv. 11. landsk., að hún yrði felld, að hæstv. ríkisstjórn leitaði þá samkomulags við þjóðbankann um það, hvort ekki væri unnt, að hann legði eitthvað verulegt af mörkum af sínu fé til þess að kaupa skuldabréf byggingarsjóðs verkamanna. Ég mun eindregið óska eftir, að tilraun verði gerð um slíkt samkomulag við Landsbankann, því að ég er í nokkrum vafa um það, hvort hægt sé að fara skyldulánsleiðina án þess að reyna samkomulag, ofan á þessar 100 millj. kr., sem Landsbankinn leggur af mörkum til stofnlánasjóðs sjávarútvegsins. En ekki skal standa á mér að stuðla að því, að sjóðurinn nái samkomulagi við Landsbankann eða aðrar stofnanir til þess að tryggja, að nægilegt lánsfé fáist í byggingarsjóð verkamanna. — Um síðari brtt. á þskj. 824 er það að segja, að það er fyrst og fremst við hana að athuga, að ég hygg, að að forminu til séu 3 byggingarfélög starfandi hér í Reykjavík, en ekki 2. Það er fyrst Byggingarfélag verkamanna, eina félagið, sem rekur hér byggingarstarfsemi nú, enda má ekki nema eitt félag á hverjum stað reka slíka starfsemi eftir þeim l., sem nú gilda, í öðru lagi Byggingarfélag alþýðu og í þriðja lagi mun hafa verið stofnað byggingarfélag verkamanna, sem kennir sig við sjálfstæði sérstaklega. Ég sé því ekki betur en það sé hæpið að slá því föstu, að í Reykjavík séu aðeins 2 byggingarfélög. En ég vil álíta, að almennt sé fengin reynsla fyrir því, að heppilegast sé að hafa ekki nema eitt byggingarfélag á hverjum stað. Ég álít það sé ekki til framdráttar hagsmunum verkamanna, að hafa þau fleiri. Ég hygg, að Byggingarfélag verkamanna, sem starfar í Reykjavík, hafi byggt svo mikið sem frekast var unnt að fá lán til að byggja hér í Reykjavík, og það mundi ekkert hafa bætt úr, þótt annað byggingarfélag væri í bænum. Ég vil og geta þess, að Byggingarfélag alþýðu vildi ekki á sínum tíma, þegar l. um verkamannabústaði var breytt, fullnægja þeim fyrirmælum, sem þar voru sett um stjórn byggingarfélaga, og hlaut því það félag að fara út úr byggingarstarfseminni. Í annan stað hygg ég þetta félag vera meira til á pappírnum og sem byggingarfélag fortíðarinnar heldur en raunverulegt byggingarfélag nú. Ég hygg, að allur fjöldinn í þessu félagi sé menn, sem hafi fengið íbúðir. Og mér er kunnugt um, að þetta félag hefur ekki haldið aðalfund um 2–3 ára skeið, og ber það ekki vott um sérstaklega mikinn áhuga þeirra, sem stjórna félaginu. Ég held þess vegna, að ekki sé til bóta frá því; sem nú er, að samþ. þessa brtt. hv. 11. landsk. Vil ég fyrir mitt leyti lýsa yfir andstöðu minni við hana með þeim rökum, sem ég nú hef gert grein fyrir.

Þá skal ég víkja að hv. 2. þm. N.-M. En í ræðu hans og nál. bar mjög mikið á þeim vandlætingartón, sem tíðum heyrist úr hans horni hvað viðkemur störfum Alþ. og nefnda. Hann fann að því, að bæði í brtt. og nál. væru prentvillur. Og það má vel vera. En ég hygg prentvillurnar séu ekki hvað sízt í hans eigin brtt., og hef ég ekki neina vissu fyrir því, hvort um prentvillur er að ræða eða villur úr handriti hv. 2. þm. N.-M., því að brtt. hv. þm. eru nákvæmlega þær sömu og bornar voru fram í Ed. af hv. þm. Str., og þskj. það, sem brtt. hv. þm. Str. voru á, hefur verið lagt til grundvallar, og má mikið vera, ef vandvirkni hv. 2. þm. N.-M. hefur náð svo langt, að hann muni hafa lagað Nd. í stað Ed. Gæti því vel verið, að það sé hans sök, að brtt. hans líta svo út. Ég játa það, að hv. 2. þm. N.-M. er mjög áhugasamur þm. og stundar sína þingmennsku með mestu samvizkusemi, þótt honum sé áfátt um vísindalega nákvæmni í meðferð mála, og því ekki sérstök ástæða fyrir hann að setja sig upp á háan hest hvað snertir frágang þingskjala og þess háttar. Um meðferð félmn. á þessu málefni er það að segja, að fundur var boðaður af hv. þm. Ak. strax þegar, málið var tilbúið til athugunar frá Ed. Það var reynt að flýta fyrir málinu og kallaður saman fundur meðan á þingfundi stóð, en hv. 2. þm. N.-M. neitaði að mæta á þeim fundi. Málið var þó nokkuð rætt og fundur haldinn. Ákveðið var að halda næsta fund í gær. Allir hv. nm. mættu stundvíslega, og um málið var rætt eftir því, sem álitið var þörf fyrir, eins og venjulega er gert hér á Alþ. Mér er kunnugt um það, að allir hv. þm. höfðu rækilega fylgzt með þessu máli frá því það var lagt fyrir Alþ. Um það var rætt í n., hvort gera skyldi á frv. stórvægilegar breytingar frá því, sem gengið hafði verið frá því í Ed., eða samþ. frv. lítið breytt eða óbreytt. Meiri hl. var þeirrar skoðunar, að það gæti sett málið í hættu að fara að. umturna því nú. Ég veit, að hv. 2. þm. N.-M. er svo þingvanur maður, að hann veit, að það er siður á þinginu og hann verður svo að vera, að þegar maður vill ná samkomulagi um mál, þá verður hver og einn að slá af frá sinni hálfu og koma til móts við þá, sem hafa ólíkar skoðanir. Mér er það mjög minnisstætt, þegar við alþýðuflokksmenn vorum á Alþ. 1946 með alþýðutryggingafrv., þá þurftum við mjög að semja við framsóknarmenn. Við hefðum kosið að flytja við það brtt„ ef við hefðum álitið það nokkra von, að slíkar brtt. hefðu náð fram að ganga. Nú er það svo, að um málið hefur orðið samkomulag í Ed., að minnsta kosti í höfuðatriðum, milli þeirra flokka, sem styðja núverandi ríkisstjórn. Það má því búast við, að Ed. væri ófús að ganga inn á breyt. á frv., sem gerðar væru í Nd. Þetta er því meira til að koma á framfæri sínum brtt. með því að flytja þær hér nú heldur en ætlazt til að fá þær samþ. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga, hver þm. hefur rétt til að láta sínar brtt. koma til úrskurðar í þeirri d., sem hann situr í. En hv. 2. þm. N.-M. hefur nú flutt nákvæmlega sömu brtt. og hv. þm. Str. flutti í Ed. Þessar brtt. voru felldar af miklum meiri hluta Ed., og ég býst við, að svo muni enn fara. Þar að auki er ég andstæður í höfuðatriðum þeim brtt., sem hv. 2. þm. N.-M. flytur. Önnur brtt. hv. 11. landsk. á þskj. 824 var einnig felld í Ed. með öllum atkv. gegn 3. Ég geri ráð fyrir, að þótt svo ólíklega vildi til, að meiri hluti þessarar hv. d. vildi samþ. brtt. nr. 2. á þskj. 824, þá yrði það aðeins til þess að þvæla málinu gagnslaust milli deilda.

En svo skal ég víkja örfáum almennum orðum að brtt. hv. 2. þm. N.-M. á þskj. 823: Þar er gert ráð fyrir, að byggingarsjóður sé einn, hvort sem talað er um byggingarfélag eða byggingarsamvinnufélag. Ég held, að það væri ekki breyt. til bóta, þó að þetta væri sameinað í eitt, og held einnig, að það sé nokkuð eðlilegt að gera þann greinarmun, sem gerður er nú í löggjöfinni um þessi efni. Í löggjöfinni um verkamannabústaði er byggt á því, að þeir, sem njóta hlunnindanna, séu yfirleitt fátækari og umkomulausari stéttir þjóðfélagsins, hinir tiltölulega lágt launuðu, verkamenn og sjómenn. Í löggjöfinni um samvinnubyggingar er aftur á móti gert ráð fyrir, að það geti verið um að ræða allt að því efnaða menn, sem eru í þeim félagsskap, en njóti þessara hlunninda til þess að greiða fyrir byggingum til handa sér og félagsmönnum sínum og hafi ríkisábyrgð á hluta af byggingarkostnaðinum. Ég álít, að rétt sé og eðlilegt að hafa þetta aðgreint. Þar að auki er þess að geta, að endur fyrir löngu hefur verið myndaður mjög myndarlegur sjóður, byggingarsjóður verkamanna, sem er myndaður eftir reglum löggjafarinnar um verkamannabústaði. Ég álít, að það væri óréttlátt að fara að setja undir fyrirgreiðslu þessa sjóðs byggingar, sem væru nokkurs annars eðlis en byggingar verkamannabústaða. Ég held þessar brtt. hv. 2. þm. N.-M. horfi ekki til bóta, fyrir utan það, að þær eiga greinilega ekki fylgi að fagna í Ed., og mundi það því tefja fyrir málinu að samþ. þær hér í d. og þvæla málinu á milli deilda. Ég fyrir mitt leyti, og ég held ég tali þá fyrir munn allra hv. nm. í heilbr.- og félmn. nema . hv. 2. þm. N.-M., get ekki fylgt þessum brtt. á þskj. 823 og vil mega vænta þess, að d. geti orðið meiri hluta n. sammála um það atriði og felli þessar brtt. Sömuleiðis vil ég einnig, að hv. d. felli alveg sérstaklega 2. brtt. hv. 11. landsk. En eins og ég sagði áður, er fyrri brtt. hans þess eðlis, að erfitt er að greiða atkv. gegn henni, þó að samþykkt hennar yrði sennilega ekki til annars en að hrekja málið á milli deilda. Ég vil þess vegna vænta þess, að þetta frv. geti nú haldið áfram leið sína, annaðhvort óbreytt eða þá svo lítið breytt, að þær breyt. yrðu frv. ekki til tafar, og því fremur sem hér er um málefni að ræða, sem er viðurkennt af öllum nm. í félmn., að sé mjög þýðingarmikið málefni. Og fyrirmæli frv., eins og það liggur fyrir, eru áreiðanlega til stórkostlegrar fyrirgreiðslu, jafnvel þótt við allir hefðum kosið að hafa þau eitthvað fullkomnari. Ég er sannfærður um, að þessi löggjöf verður endurbætt eftir því, sem ár líða, eins og löggjöfin um verkamannabústaðina var stórkostlega endurbætt frá því að hún var sett 1929. Löggjöfin um Byggingarfélag alþýðu hefur líka verið endurbætt frá því að hún var sett 1936. Og þessi löggjöf, sem væntanlega verður afgr. frá þinginu núna alveg á næstunni, verður áreiðanlega endurbætt og aukin á næstu árum. Til þess erum við hér á Alþ. og til þess eru menn að vinna að þjóðfélagsmálum, að endurbæta alltaf, láta ganga áleiðis, en ekki aftur á bak. Með því móti verður, þótt skrefið sé ekki ávallt stigið stórt, komizt æ lengra áleiðis til betra og bætts þjóðfélags, og þess vegna þörf fyrir mikla umbótamenn, allt að því byltingamenn, til þess að breyta því, svo að það verði eins fullkomið og við viljum vera láta.