18.02.1946
Neðri deild: 69. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

29. mál, fræðsla barna

Frsm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Menntmn. flytur við þessa umr. tvær smábrtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir, og eru þær prentaðar á þskj. 427. Mun nú verið að útbýta þeim í hv. þd. — Fyrri brtt. er um, að aftan við 9. gr. bætist svo hljóðandi mgr. (með leyfi hæstv. forseta) : „Fræðsluráði er skylt að leita álits hlutaðeigandi skólanefnda um skiptingu fræðsluhéraðs í skólahverfi.“ Er þarna gengið til móts við óskir, sem fram komu við 2. umr. málsins, til þess að tryggja íhlutun skólanefndanna heima fyrir sem mest, áður en skipting í skólahverfi er ákveðin. — Hin brtt. er við 14. gr., um, að eftir orðunum : „samanlagðan tekju- og eignarskatt íbúanna“ bætist: „eftir meðaltali fimm síðustu ára.“ Það hefur komið í ljós við nánari athugun og n. verið bent á það, að það kæmi fyrir, að nokkrar sveiflur yrðu á um útgjöld einstakra sveitarfélaga, t. d. þegar fjársterk hlutafélög fara að skrásetja sig í sveitahéruðum, eins og dæmi eru um, og óeðlilegt er, að slíkar sveiflur hafi áhrif á skiptingu milli sveitanna á framlögum til skólanna. Og þess vegna er gert ráð fyrir því í þessari brtt., að kostnaðarhlutfall hreppa, sem eru saman um skóla, verði reiknað með tilliti til meðaltals síðustu fimm ára um tekju- og eignarskatt íbúanna.

Ég læt þessi orð nægja til skýringar þessum brtt., enda liggja þær ljóst fyrir eins og þær eru prentaðar á þskj.