02.04.1946
Efri deild: 97. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

29. mál, fræðsla barna

Frsm. meiri hl. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að gera nokkrar aths. við ræður hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Barð. Ég ætla að snúa mér að því, sem hv. 6. þm. Reykv. hafði að athuga við það, er ég mótmælti brtt. hans. Ég vil benda á, að ef brtt. á þskj. 674 verður samþ., felur hún í sér samþykkt á 1. brtt. hv. 6. þm. Reykv., svo og samþykkt á því ákvæði í 2. brtt., að umráðarétturinn sé í höndum bæjarstjórnar, en úti á landi skuli hann vera í höndum skólanefnda. Í 3. lagi felst í þessu samþykkt á a-lið 3. brtt. um, að umráðarétturinn sé í höndum skólanefnda. Ég vil segja, að hér sé gengið á móti hv. 6. þm. Reykv. Þótt ég flytji ekki fleiri brtt., er ekki þar með sagt, að ég hafi ekki verið til viðtals, ef bara hv. 6. þm. Reykv. hefði verið til viðtals á nokkru sviði, einkum er um það er að ræða, sem flestir eru sammála um, að skólahúsin séu í höndum sveitarstjórna. Hann taldi, að ég vildi með þessu draga umráðin úr höndum sveitarstjórnanna. Fræðslumálin eru í höndum ríkisins. Hvernig er hægt að mæla með, að ríkið hafi minni ítök en að það skipi 1 mann af 5, sem hafa framkvæmdir í þessu máli, þar sem það greiðir ½ byggingarkostnaðar heimangönguskóla og 3/4 hluta heimavistarskóla svo og laun kennara?

Það er og stórt atriði, og ég lít svo á og skólamenn þeir, sem samið hafa þetta frv., að hlutverk yfirkennara væri að hafa náið samstarf við skólastjóra. Hv. 6. þm. Reykv. lítur svo á, að yfirkennarinn eigi að vera fulltrúi bæjarstjórnar. En þeir, sem gegnt hafa yfirkennarastöðu, hafa litið á starf sitt eins og ég álít rétt vera. Hver maður sér, hvernig færi, ef farin yrði sú leið, sem hv. nm. sagði, að skólastjóri réði, hvað hann ynni með yfirkennara. En sé svo, þá er ekki hægt að ganga út frá því, að yfirkennarinn tæki við af skólastjóra, ef hann forfallaðist. Hv. þm. sagði, að einu sinni hefði fallið dómur um, að bæjarstjórnin ætti að skipa yfirkennara. Ég held þó, að ekki eigi að fella þetta atriði úr frv., því að þeir, sem samið hafa það, hafa viljað, að starf yfirkennara eigi að vera þannig, að hann sé aðstoðarmaður skólastjóra, en ekki fulltrúi bæjarstjórnar.

Svo vildi ég svara hv. þm. Barð. Hann spyr, hvort menntamálanefnd hefði alls eigi athugað þetta frv. eða myndað sér skoðun um, hvort skólaskylda ætti að ná til 13 eða 14 ára aldurs. Þetta hefur nefndin vissulega gert. Það er meira að segja ekki langt síðan nefndin athugaði brtt. frá þessum hv. þm. um að börn skyldu aðeins vera skólaskyld frá 7–14 ára. Hv. þm. þarf tæplega að vænta þess, að nefndin hlaupi frá áliti sínu með því að fylgja öðru, sem fer í þveröfuga átt, og kippi grunninum undan öllu skólakerfinu. Menntmn. er samþykk þessu frv., og mun hún ekki samþ. till., sem fara í þveröfuga átt. — Þá talaði hv. þm. um brtt. við 17. gr. frv., um að fella burt ákvæði um, að hverju skólahúsi skuli fylgja íbúð fyrir skólastjóra. Ég vil benda hv. þm. Barð. á, að reynslan sýnir, að vandræði hafa verið um húsnæði fyrir skólastjóra og kennara, og er þetta því knýjandi ákvæði. Ég man ekki betur en þessi hv. þm. hafi nýlega greitt atkv. með frv. um bústaði fyrir héraðsdómara, og er það sízt nauðsynlegra en þetta. Hv. þm. talaði einnig um 18. gr. frv., um að kennslustundir skyldu vera 40 mínútur hver. Hann sagði, að hér væri farið fram á styttingu vinnutímans og að kennarar færu fram á og vildu hafa það rólegt og hugsuðu um það eitt að græða peninga fyrir litla vinnu. Ég vil nú leiðrétta hér nokkuð. Í gömlu lögunum er gert ráð fyrir, að kennslustundir séu 50 mín. hver, en í þessum lögum er gert ráð fyrir að fækka þeim í 40 mín., en fjölga aftur kennslustundum um eina stund á dag. Fyrir flestum kennurum er það svo, að þeir búa sig undir hverja kennslustund, og er það meira verk að búa sig undir 6 stundir en 5. Ég vil svo benda á, að starfstími kennara er mjög áþekkur starfstíma skrifstofufólks í Reykjavík, nema þeir þurfa þar að auki að búa sig undir tímana. Þessi fullyrðing hv. þm. Barð. er því dauð, eins og aðrar fullyrðingar hans, sem hann getur eigi staðið við, og verð ég að draga í efa, að það sé í þökk flokksbræðra hans.

Þá er enn ein aths., sem greinir á um, það, hvort stofna eigi yfirlæknisembætti. Í sambandi við tryggingar hefur verið settur tryggingayfirlæknir. Sá háttur hefur verið tekinn upp í nágrannalöndum okkar, og heilbrigðiseftirlitið í þessum málum hefur verið hér alls ófullnægjandi.