08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Út af því, sem 2. þm. S.-M. sagði, að stjórn S.R. annaðist nýbyggingar eða hefði gert það hingað til, vil ég taka það fram, að eftir upplýsingum er það aðeins verksmiðjan á Raufarhöfn, sem stjórn S.R. hefur byggt, og ef til vill einhverjar stækkanir. Í stjórn S.R. eru ekki kunnáttumenn, heldur valdir pólitískt. En verksmiðjan, sem nú er í smíðum á Skagaströnd, er byggð af 4 kunnáttumönnum, og álít ég það betur ráðið en láta ófaglærða menn sjá um að reisa slíkt mannvirki.

Rekstur niðursuðuverksmiðju er flókið og vandasamt starf, og er í allt öðrum verkahring en bræðslustöð. Hins vegar er lýsisherzlan, sem nú stendur fyrir dyrum, miklu nær starfi stjórnar S.R. og heppilegt að hafa hana undir stjórn S.R. Það er ekki heppilegt að hlaða stjórn S.R. störfum um of. Með því er hætt við, að hún verði ekki nógu vakandi. Það er mikið verk að stjórna síldarverksmiðjum og kostar að vera vakandi um allar nýjungar, ef vel á að fara.

Það er talað um, að dýrt sé að skipa alltaf nýjar nefndir, en hér er um að ræða að reka nýtt fyrirtæki og það þarf hvort sem er nýtt starfsfólk, því að stjórn S.R. hefur hvorki fagþekkingu á þessu sviði né of margt starfsfólk, sem gæti tekið að sér störf þessi. Okkur er nauðsyn að vera vel á verði um allar nýjungar í síldariðnaðinum og megum því ekki ofhlaða þá, sem á þeim verði standa, því að við vitum, að hraðinn er svo mikill á nýjungum í þessari iðngrein, að þær verksmiðjur, sem reistar voru 1937, eru nú orðnar ónothæfar miðað við nýjar. — Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins er ekki fær um að fylgjast með eins flóknu máli og niðursuðuverksmiðjan er.

Ég vil eindregið mælast til þess, að þessi hv. d. samþykki frv. eins og meiri hl. sjútvn. hefur gengið frá því, en ekki till. hv. 2. þm. S.-M.