22.03.1946
Neðri deild: 93. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (2872)

31. mál, menntaskólar

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Frv. til l. um menntaskóla er samið af mþn. í skólamálum. Eftir 1. umr. hefur menntmn. tekið málið til athugunar og rætt það allýtarlega, meðal annars við fræðslumálastjóra, rektor menntaskólans og Kristin Ármannsson yfirkennara, sem sæti átti í mþn. og hefur mjög fjallað um málið. Auk þess óskaði n., að skólameistari Akureyrarskólans kæmi til viðræðna, en hann gat ekki komið vegna veikinda.

Nefndin leggur til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem eru á þskj. 582. Eins og hv. þm. er kunnugt, starfar Menntaskólinn á Akureyri samkvæmt lögum, sem sett voru um hann 1930, en Menntaskólinn í Reykjavík hefur aftur á móti aldrei starfað eftir l., heldur eftir reglugerð. En þessi l., sem hér er um að ræða, er ætlazt til, að nái til beggja.

Fyrsta spurningin, sem kom til athugunar, var sú, hvort ætti að ákveða, að menntaskólarnir væru tveir, eins og verið hefði, eða veita heimild til þess að fjölga þeim. Í frv. er gert ráð fyrir að lögfesta tvo, en heimild verði til fyrir ríkisstj. að ákveða fleiri menntaskóla þegar veitt verði fé í fjárl. til þess. N. þótti rétt að binda þetta fastari tökum, þannig að það væri skýrt tekið fram, hvað margir þeir skuli verða fram yfir þá, sem nú eru, og enn fremur þótti n. það rétt vegna þess, hversu háværar raddir hafa verið um það að stofna menntaskóla í sveit, að setja inn ákvæði í 1. gr., sem verður þá á þá leið : Menntaskólar eru tveir, annar í Reykjavík, hinn á Akureyri. Stofna skal hinn þriðja í sveit, þegar fé er veitt til þess í fjárl. Hins vegar er það ætlun n., ef stofna á fleiri menntaskóla en þessa tvo, að fyrir þá, sem kunna að verða stofnaðir samkv. fjárlagaákvæðum, þurfi til þess líka lagaákvæði. Og í sambandi við þá skóla, sem hafa fengið heimild til þess að útskrifa stúdenta, eins og Verzlunarskólinn, þá er ætlazt til þess, að þessi l. haggi ekki þeim réttindum, sem hann hefur fengið til þess að brautskrá stúdenta, og kemur það skýrt fram í 7. brtt. n.

2. brtt. er við 3. gr. og felur aðeins í sér skýrari ákvæði, meðal annars það, að til þess að fjölga megi deildum umfram máladeild og stærðfræðideild þurfi samþykki hlutaðeigandi skólastjórnar.

3. brtt. er um það, að 6. gr. falli niður.

4. brtt. er um inntökuskilyrði, að í staðinn fyrir 15 ára komi 16 ára, en jafnframt sé skólastjórn heimilt að veita undanþágu frá þessu aldurstakmarki.

5. brtt. er við 10. gr. Þar er rætt um kennslugreinar skólanna, og er þar bætt við: íslenzk fræði. — Við 11. gr. er brtt., sem er fyrst og fremst orðalagsbreyting. — 7. brtt. er við 12. gr., en ekki við 2. gr., eins og stendur á þskj. 582. Er það prentvilla, og vil ég biðja hv. þm. að leiðrétta það. Þar segir, að stúdentspróf veiti rétt til inngöngu inn í háskóla, en menntaskólar einir hafi rétt til að burtskrá stúdenta. Hingað til hafa ráðherrar haft heimild til að veita skólum rétt til að brautskrá stúdenta. Hér eftir er ráðgert, að lagaheimild komi til. Hins vegar raskar 2. málsgr. í engu þeim rétti, er einstakir skólar hafa nú. — 8. brtt., við 13. gr., felur í sér ákvæði um prófdómendur. Skulu þeir skipaðir af yfirstjórn skólanna að fengnum tillögum o. s. frv. — í stað : samkv. tillögum. — 9. brtt., við 15. gr., tekur bæði yfir 15. gr. og 17. gr., þar sem efnið er svo nátengt. Þar er tekið fram, að skólastjórar og fastir kennarar taki laun skv. launalögum. Í 15. gr. frv. var tala fastra kennara ákveðin tólf hið fæsta, en réttara þótti, að fastur kennari kæmi að jafnaði á hverja bekksögn. Í samræmi við þetta er lagt til, að 17. gr. falli brott. Brtt. við 18. gr. er í samræmi við frv. um gagnfræðanám. 12. og 13. brtt. er í rauninni ekki efnisbreyting, heldur er 20. og 21. gr. frv. felldar saman. 14. brtt. kveður svo á, að þrem köflum, VII., VIII. og IX., er steypt saman í einn undir fyrirsögninni: Ýmis ákvæði. Um sum atriði þessa kafla er ætlazt til, að ákveðið verði í reglugerð. Um 15. brtt. er ekki ástæða til að ræða. Sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um brtt., en vænti, að hv. deild fallist á þær.