26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (2877)

31. mál, menntaskólar

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Menntmn. hefur ekki haft tækifæri til að athuga þessar brtt. á þskj. 632. Ég vil aðeins geta þess, að frá mínu sjónarmiði persónulega tel ég það mjög vel geta komið til mála að taka upp kennslu í esperanto við menntaskólana, eins og fyrri till. fer fram á. Hins vegar er heimild í 9. gr. frv. til frjálsra kennslugreina til handa yfirstjórnum skólanna, og teldi ég því réttara, þar sem þetta mál hefur ekki verið það vel athugað eða rætt, að láta það vera á valdi yfirstjórnar skólanna, hvort þessari kennslugrein skuli bætt við, en ekki að lögfesta hana beinlínis.

Að því er snertir síðari till. legg ég fyrir mitt leyti á móti henni, þ. e. að kennsla í kristnum fræðum falli niður við menntaskólana. Í stjórnarskrá vorri segir, að hina evangelisku lútersku kirkju beri að styðja og vernda, og hefur það undanfarið verið fólgið í því m. a. að halda við kennslu í kristnum fræðum í skólum landsins. Tel ég enga ástæðu til að draga úr þessari kennslu, eins og sakir standa. Hins vegar vil ég taka fram, að ég tala hér ekki fyrir hönd menntmn., því að hún hefur eðlilega ekki haft tækifæri til að athuga þessar till.