17.04.1946
Efri deild: 110. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (2894)

31. mál, menntaskólar

Gísli Jónsson:

Við þdm., sem kusum hæstv. forseta, höfðum ekki vænzt þess að verða beittir gerræði af hendi hans. Hann hafði traust hv. þdm., — annars sæti hann nú ekki í forsetastóli, — en í dag hefur mjög brugðið við til hins verra. Eins og engu er líkara en hv. þdm. hafi gert kaup með sér að fylgja málinu fram til sigurs, þá er að hinu leytinu sem hann hafi átt að fá eitthvað á móti fyrir aðstoð sína.

Ég hef talað eftir sannfæringu minni. Mér finnst sitja illa á hv. 7. landsk. að vaða uppi með hótanir hér í hv. d., og ætti hann að „pilla sig“ út úr þessum sal sem fyrst. Er það óþingleg framkoma hjá ungum þm. að gera sig breiða, lýsa því yfir, hvað verða muni, ef hitt eða þetta verði ekki samþ.

Ég óska ekki eftir, þótt e. t. v. kunni einhverjum að vera það hagsmunamál, að neitt sé gert að l. vegna þess eins, að einhver hafi verið kúgaður til að flytja um það frv. Sá hugsunarháttur má ekki viðgangast. Af þeirri ástæðu mætti mín vegna stöðva öll málin á dagskránni.

Ég ber fram brtt. við 16. gr. frv. — Af því að hv. þm. Dal. er kominn, sé ég eigi ástæðu til að ræða málið frekar.