23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

31. mál, menntaskólar

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég lýsti því yfir við 2. umr., að ég óskaði að heyra álit hæstv., menntmrh. um það, hvar reisa ætti hinn nýja menntaskóla hér í bæ. Ég leiddi þá rök að því, að óheppilegt væri að ætla skólanum stað annars staðar en þar, sem hann hefur verið síðastliðin 100 ár. Ég fékk fyrir þetta ákúrur hjá hv. frsm., og sagði hann, að ekki þýddi að hreyfa þessu máli, það væri þegar ákveðið, hvar skólinn skyldi standa. Ég vil ekki taka þetta sem dóm hæstv. ráðh. og vildi vita, hvort hann er mér ekki sammála í þessu efni. Nú hef ég heyrt, að keypt hafi verið eign hér innan við bæinn og þar sé skólanum ætlaður staður. Þótt mér þyki sá staður fallegur og ætla megi, að þar fari vel um skólann, þá er ég sannfærður um, að gamli staðurinn er heppilegri, auk þess sem þessi staður er einn af fáum hér á landi, sem varðveitir sögulega hefð. Í þessu skólahúsi hafa gerzt sögulega merkir atburðir, sem hugir Íslendinga eru tengdir við. Enn fremur hefur skólinn hlotið vissa helgi í hugum þeirra, sem í honum hafa dvalið. — En það eru ekki einungis þessar ástæður, sem eru tilfinningalegs eðlis, sem mæla með því, að skólinn sé á hinum gamla stað. Satt að segja hygg ég, að vandfundinn muni staður bæjarmegin við Elliðaár, sem er meira út úr en þessi staður, og þar af leiðandi óþægilegt fyrir unglinga. að sækja þangað skóla: Fyrirsjáanlegt er, að stórfelld byggð getur ekki orðið í nágrenni skólans á þessum stað. Þar sem þetta er á nesi, getur ekki orðið byggð nema á einn veg, og þar munu einkum verða smáhús, auk þess sem ætlað er stórt svæði undir íþróttasvið. Hins vegar má ganga út frá, að meginbyggðin verður hér í gamla bænum og eykst suður um melana, út á Seltjarnarnes og jafnvel suður í Fossvog. Þannig er augljóst, að meginbærinn verður langt frá skólastaðnum, svo langt, að hverfandi lítill hluti nemenda mundi geta farið gangandi í skólann, og yrði þá að sjá fyrir farartækjum, sem án efa kæmu til með að kosta stórfé. Ég þori að fullyrða, að hagkvæmara væri að verja fé til að kaupa land í viðbót við það, sem skólinn á nú, og reisa hann á sama stað. Hvernig sem bærinn vex, er augljóst, að núverandi skólastaður verður í framtíðinni nærri miðdepli bæjarins, og verður tiltölulega auðvelt að sækja hann úr öllum hverfum bæjarins, og er það út af fyrir sig stórkostlegt fjárhagsatriði.

Því hefur verið haldið fram, að óheppilegt væri að hafa skólann á gamla staðnum vegna umferðarinnar. En þeir, sem víða hafa farið, munu vita, að algengt er, að slíkir skólar séu í miðjum borgum, og varðandi útlit og framtíðarskipulag bæjarins, þá hafa færustu byggingarmeistarar sagt í mín eyru, að engin vandkvæði væru að hafa skólann á þessum stað af þeim ástæðum. Að vísu mun þurfa að kaupa eitthvað af lóðum, en það ætti að mega takast. Er mér kunnugt um, að uppi er hreyfing meðal gamalla nemenda skólans í þá átt, auk þess sem ég ætla, að takast mætti að ná samþykki um lóð, sem bæjarsjóður á nú í nágrenni skólans. — Þá hefur það verið tilfært, að skólinn þyrfti að hafa leikvang nærri sér, en ég hygg, að nægilegt sé að hafa leikvanga í úthverfum bæjarins, þar sem þeir eru nú áformaðir.

Ég vil leyfa mér að flytja skriflega brtt. um þetta atriði og vænti, að hv. deild taki þessu vel.