23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (2933)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki gert ágreining í þessu máli í sjútvn., en ég vil gera hér nokkrar aths. Í grg. er sagt, að einstaklingar hafi verið tregir til að koma á fót niðursuðuverksmiðjum. Ég vil mótmæla þessu. Einstaklingar hafa ráðizt í slík fyrirtæki á undanförnum árum af miklum dugnaði og atorku, en þeir hafa ekki mætt skilningi á undanförnum árum varðandi þessi mál. Hins vegar virðist mér útreikningurinn um framleiðslukostnað ekki vera réttur, og hef ég látið sérfræðinga mína reikna hann út. — Sagt er um dósaverðið, að það sé 40 aurar hjá hinni nýju verksmiðju. Hér er farið með rangt mál, eða þá að meiningin er, að þessi nýja verksmiðja fái sérstakar tollaívilnanir í sambandi við innflutning efnis. Ég fer ekki út í einstök atriði, en ef útreikningur er allur sem þetta, þá vænti ég annarrar útkomu en frsm. vonar. Annað er það, að ég er samþykkur því, að slík verksmiðja komi upp sem þessi, og ég vona, að hún verði ekki fyrir öðrum verksmiðjum, sem fyrir eru, svo sem S.LF. Ég mun því greiða atkv. með frv.