12.03.1946
Neðri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (2949)

194. mál, útflutningur á afurðum bátaútvegsins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. upplýsti það í framsöguræðu sinni fyrir þessu máli, að ráð væri gert fyrir því, að ríkisstj. keypti, að því er mér skildist, allverulegan hluta af saltfiskframleiðslunni eða kringum 5 þús. tonn. Nú veit ég ekki betur en enn þá liggi í landinu töluvert af saltfiskframleiðslu síðasta árs og þeir útgerðarmenn og fiskimenn, sem þann fisk eiga, fái ekkert út á hann enn þá. Nú langar mig í þessu sambandi að fá upplýsingar um það, hvernig í þessu liggur. Mig minnir, að þegar þessi mál voru rædd hér í fyrra, hafi verið ætlazt til þess, að fiskimálan. skyldi sjá um að senda skip til hinna ýmsu hafna til þess að kaupa fiskinn og flytja hann ísaðan út, en þar sem það var ekki mögulegt, var ætlazt til að veita heimild til þess að greiða styrk til þess að flytja fiskinn milli smáhafnanna, svo að hann gæti komizt í skip til útflutnings. Nú hefur hvorugt þetta gerzt, a. m. k. ekki það ég veit. Á Bakkafirði og Borgarfirði eystra er saltfiskur frá fyrra ári enn ófarinn þaðan og óseldur. Mér skildist það þá, að þar, sem nauðsynlegt yrði að salta fiskinn, væri tryggt, að sá fiskur seldist samkvæmt þeim samningi, sem við gerðum þá við Englendinga. Þess vegna er mér það hulin ráðgáta, hvernig á því stendur, að smáhafnirnar, t. d. Bakkafjörður og Borgarfjörður, gátu yfirleitt ekki fengið skip eða styrk til þess að flytja þaðan fiskinn inn á aðrar hafnir, þar sem skip voru til þess að flytja hann út. Þeir, sem áttu þennan fisk, urðu því að salta hann og fá hann ekki borgaðan. Um þetta langar mig til að fá upplýsingar í sambandi við þetta mál í framtíðinni, því að það þýðir lítið að heimta af ríkisstj., að hún kaupi fisk og veiti heimild til þess að borga fiskflutninga milli smáhafna, ef ekkert er síðan gert í málinu, heimildin ekki notuð og fiskurinn liggur á, þessum stöðum, þannig að eigendurnir fá ekkert út á hann, en þannig var þetta í fyrra. Afstaða mín til þessa frv. markast þess vegna af því, hvort ég fæ tryggingu fyrir því, að betri trygging fáist fyrir aðgerðum í þessum málum en raunin varð á í fyrra.