13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson) :

Ég skal ekki hafa þetta nema stutta aths. Það, sem ég tók fram í ræðu minni áðan, var það, að á eftir þessari víðtæku tryggingalöggjöf hlyti að koma krafan um atvinnutryggingar. Þegar svo væri komið, þá taldi ég líkur til, að tryggingunum yrði ekki haldið uppi nema með víðtækum áætlunarbúskap eða „sósíalíseringu“, en úr þessu verður reynslan að skera. En á það má benda, að höfundur tryggingal. í Englandi lét það fylgja með till. sínum, að skilyrðið fyrir, að þær væru framkvæmanlegar, væri víðtækur áætlunarbúskapur. Það virðist og vera auðsætt mál, að auðskiptingin þarf að vera mjög víðtæk til að standa undir slíkum tryggingum.