27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (3313)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Jörundur Brynjólfsson [frh.) :

Þar sem um jafnmikið fjárhagsatriði er að ræða fyrir hlutaðeigandi hreppa í þeirra viðskiptum, þá skilst mér nauðsynlegt, að skipun dómsins sé sem öruggust og sú niðurstaða, sem hann kemst að, mætti verða óvilhöll. Þess vegna legg ég til, að hæstiréttur skipi þrjá gerðarmenn af fimm, en hlutaðeigandi hreppar, eftir því sem þeir eiga hlut að gerðinni, skipi einn mann hvor, því að jafnan er það svo, að tveir hreppar eiga hlut að gerðinni í hvert einstakt sinn, og tilnefna þeir þá sinn manninn hvor.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þessar brtt. frekar. Þær liggja svo ljóst fyrir, að það er engin ástæða til að tala langt mál um þær.

Ég sé, að heilbr.- og félmn. gerir hér brtt. við mínar till. á þskj. 642. Fyrri liður hennar snertir 4. tölulið b í mínum till. Leggur n. til, að á eftir orðunum „hreppsnefnd Sandvíkurhrepps“ komi „og Selfosshrepps sinn manninn hvor af sinni hálfu til að taka sæti í dómnum“. Þó að þetta geti vel verið þannig, eins og n. leggur til, þá gerist þess ekki þörf. Till. er að því leyti á misskilningi byggð, að áður er Selfosshreppur búinn að skipa mann af sinni hálfu í dóminn. Þegar þess vegna þessi gr. tæki til Sandvíkurhrepps, þá ber honum aðeins að tilnefna mann í dóminn af sinni hálfu, því að fyrir er í dóminum maður frá Selfosshreppi. Gerði ég að sjálfsögðu ráð fyrir, að hann héldi því sæti í skiptum sínum milli þessara hreppa eins og hinna. Ég get látið mér að vísu í léttu rúmi liggja, hvort er, því að það er ekki hægt að segja, að brtt. skemmi, þó að hún sé kannske ekki nauðsynleg og jafnvel óþörf, en ég sem sagt skoða þetta algert aukaatriði. Mér finnst þó að vísu, að það fari heldur verr eftir till. n. og verða heldur til spillis, málspillis, því að annað er það ekki, efnið er alveg það sama en ég legg enga höfuðáherzlu á þetta: En það er það, sem ég veit, að n. sér, undireins og á er bent, að Selfosshreppur átti mann í dóminum, og þurfti þess vegna ekki í skiptum milli Selfosshrepps og Sandvíkurhrepps annað en tilnefna mann í dóminn af hálfu Sandvíkurhrepps.

Þá kemur 2. till. á þskj. 642 af hálfu n., sem er við 5. brtt. mína, að gildistaka l. eigi sér stað 1. júní 1946. Tilvitnunin er reyndar ekki rétt í brtt., því að ég segi „1, jan. 1947“, en ég sé, að í brtt. stendur „1. jan. 1946“, en það er ekki mín brtt. Ég vil geta þess, að þetta er atriði, sem ég hef ekki látið til mín taka svo mjög. Ég hef flutt mína brtt. eftir ósk eftirlitsmanns sveitarfélaga, Jónasar Guðmundssonar. Hann telur, að þeim veiti ekki af tímanum til þess að koma málum sínum í lag, og þess vegna sé ekki rétt, að l. taki gildi fyrr en 1. janúar 1947, og þess vegna er mín till. beinlínis flutt eftir hans tilmælum. Ég veit líka, að Jónas Guðmundsson hefur langsamlega mesta kunnugleika á, hvað þessum málum líður hjá þeim. Þess vegna fannst mér alveg sjálfsagt, að tillit væri tekið til hans. Ég vil þess vegna mega vænta þess, að hv. þdm. fallist á þessa ósk, því að þetta er ekkert atriði vitaskuld í málinu annað en það, að hlutaðeigandi sveitir hafi nægilegt ráðrúm til að koma sínum málum í nauðsynlegt horf. Þess vegna tel ég sjálfsagt að verða við óskum þessa manns, sem mesta hefur kunnugleika á öllum málavöxtum og þar að auki í framtíðinni á að láta þetta mál sig skipta. Ég vil þess vegna ekki grípa fram fyrir hendur hans um þetta atriði. Ég vil því mega vænta þess, að d. fallist á mína brtt., sem er flutt eftir ósk þessa manns, sem bezt þekkir þetta.

Þá er smábrtt. á þskj. 641 frá hv. 11. landsk. og hv. 2. þm. N.-M. um kostnað af gerðardóminum. Hefði ég árætt að bera fram slíka brtt., þá hefði ég gert það. Auðvitað mæli ég hið bezta með henni, að ríkissjóður greiði kostnaðinn af þessum skiptum, og ég tek það svo, að það eigi líka við gagnvart Eyrarbakka, enda er till. orðuð svo.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta.