04.04.1946
Neðri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (3514)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Hv. 6. landsk. þm. sagði, að ég hefði verið að drepa málinu á dreif. Þetta er ekki rétt, það hafa aðrir gert. Hann sagði, að ríkisstj. væri ekki sek í dýrtíðarmálunum, það væri landbúnaðarvöruverðið, sem skapaði alla dýrtíðina. Hann ætti að athuga, hvað það er, sem ræður verðlaginu á þessum vörum, en það er kaupgjaldið, sem ræður því að 4. Og það ætti hann a. m. k. að viðurkenna, að ef hann og sálufélagar hans hefðu viljað stöðva dýrtíðina, þá hefðu þeir farið öðruvísi að haustið 1944, þegar bændur gáfu eftir hluta af réttmætu verði.

Þá sagði hann, að ég hefði verið með í því að setja skattalöggjöfina og það væri því mér að kenna, ef stríðsgróðinn væri falinn. Þó veit þessi hv. þm., að þetta er vitanlega allt komið undir framkvæmd laganna og að það þarf að setja sérstök ákvæði til að ráða bót á þessu atriði. Hv. 6. landsk. sagði, að mikill áhugi væri fyrir því að byggja upp atvinnulífið. Þetta er rétt. Sem betur fer er ríkisstj. ekki enn þá búin að drepa úr mönnum allan kjark, þótt hún sé á góðri leið með það og geri mönnum stöðugt erfiðara og erfiðara fyrir. — Þá spurði hann að því, af hverju ég væri ekki á móti þessu máli. Ég hef þegar skýrt mína afstöðu, að þótt ég sé óánægður með tekjuöflunarleiðina, álít ég, að þessi l. verði til hagsbóta fyrir útveginn, og Þess vegna fylgi ég frv. Og þótt meiri hl. vilji ekki fara að mínum ráðum, þá tel ég, að frv. sé samt til bóta. Ég vænti, að hv. 6. landsk. skilji þetta og taki það til greina.

Hæstv. fjmrh. vildi ekki skilja muninn á því, hvort þær stofnanir, sem vinna fyrir sjávarútveginn, svo sem dráttarbrautir og vélsmiðjur, starfa í þágu útvegsins eða eru reknar án tillits til þarfa hans. En á þessu tvennu er vitanlega höfuðmunur og þarf ekki að ræða það nánar.

Brtt. frá minni hl. við 7. gr. er ekki eins og ég hefði kosið, og mun ég flytja við hana brtt. En ég vildi mælast til þess við hv. 6. landsk., að hann taki brtt. sína aftur til 3. umr., og mun ég þá gera hið sama. Þá vil ég benda á, að brtt. frá meiri hl. þarf lagfæringar við, en það má einnig athuga síðar. Annars held ég, að hv. sjútvn. ætti að hafa þann hátt að ræða brtt. í n., áður en þær eru bornar fram.