18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

16. mál, fjárlög 1946

Jónas Jónsson:

Ég á eina brtt. við þessa umr., og hún viðkemur Snorra Sturlusyni. Það er lagt til, að stj. verði gefin heimild til að verja allt að 60 þús. kr. til þess, í samráði við þjóðvinafélagið og menntamálaráð, að gefa út almenna útgáfu af Heimskringlu Snorra Sturlusonar, þannig að hún komi á næsta ári inn á 13000 heimili í landinu, þar, sem þessi bók er ekki til. Rökstuðningurinn fyrir þessu er sá, að aðalbækur Snorra hafa aldrei verið gefnar út á Íslandi fyrr en í fyrra. Þá var þessi bók svo dýr, 200–300 kr., að fólkið gat ekki keypt hana. En það getur ekki verið samræmi í því, að þjóðin miklist af því að eiga Snorra Sturluson, en þessi fræga bók hans sé ekki til á heimilum fólksins í landinu. Nú mundi það vera þýðingarlaust, þó að þessi bók væri gefin út, ef hún kostaði t. d. 100 kr., hún yrði ekki keypt samt af almenningi. Þar sem nú Norðmenn frændur okkar ætla að sýna Snorra þann sóma að reisa honum veglegt minnismerki í Reykholti á næsta sumri, væri leiðinlegt, ef það vitnaðist um leið, að Snorra eigin þjóð hefði ekki hirt meira um hans verk en svo, að þau væru ekki til nema hjá fáum útvöldum mönnum í landinu. Að vísu er ekki alveg rétt að bera þetta fram sem hreina fjárveitingu, vegna þess að þetta yrði að vera samningamál milli ríkisstj. og þess útgáfufyrirtækis, sem sæi um útgáfu verksins, því að sannleikurinn er sá, að ég geri ráð fyrir, að menntamálaráð gæti gefið út bókina með því að kosta 1/3 af henni. Nú er verið að gefa út Egilssögu, og kostnaðurinn er 40 þús. kr. Heimskringla er það miklu stærri, að gera má ráð fyrir, að hún kosti 100 þús. kr. Þess vegna fannst mér það liggja opið fyrir að sjá, hvort þingið vildi ekki líta á þetta svipuðum augum og ég hef gert. Ef þingið eða stj. hefði ekki áhuga á þessu, þá félli þetta niður. En það er ein ástæða til þess að veita þessu eftirtekt nú, og hún er sú, að Norðmenn hafa, eins og menn vita, verið frekir í því að innlima allt, sem hægt var, viðvíkjandi fornum fræðum til sín. Þeir hafa lagt mikla stund á að ná Leifi Eiríkssyni í sína eigu, og um það urðu miklar deilur á sínum tíma. En því máli lauk þannig, að landar okkar vestan hafs sigruðu Norðmenn í þessari deilu 1930, þegar þeir fengu Bandaríkjastjórn til að gefa Leifsstyttuna hingað. Þá var því slegið föstu, að Leifur hefði verið Íslendingur, en ekki Norðmaður. Svo hafa fræðimenn átt í harðri deilu við Norðmenn út af Snorra Sturlusyni, og sú deila var lengi tvísýn, og Norðmenn reyndu að halda fram, að hann hefði verið norskur rithöfundur. Nú hefur þetta breytzt þannig, að með þessari gjöf hingað viðurkenna Norðmenn, að við eigum Snorra. En það væri fráleitt, ef það vitnaðist, að við, sem höfum miklazt af að eiga Snorra og höfum sigrað í þessu kapphlaupi, ættum ekki til, að vissu leyti, þessa merku bók Snorra. Ég hef spurt ýmsa þekkta fræðimenn við háskólann og helztu ritstjóra í bænum, hvenær þeir hafi fyrst lesið Heimskringlu. Kom þá í ljós, að flestir höfðu ekki lesið Heimskringlu fyrr en þeir voru fullorðnir menn og þá helzt norsku útgáfuna. En nú er þetta ekki aðeins metnaðarmál, heldur hitt, að Heimskringla er óefað sú bók, sem æskilegast er, að hefði áhrif á meðferð málsins bæði í ræðu og í stíl. Það er vitað um einn af þeim mönnum núlifandi, sem skrifar einna bezt íslenzkt mál, dr. Helga. Péturss, að hann skrifaði ekki betri íslenzku en hver annar, þegar hann var orðinn kandidat, en svo lagði hann stund á það með því að kynna sér rit Snorra og fleiri merkra rithöfunda og bætti sinn stíl og mál þannig, að það er ekki um deilt, að hann fari þannig með íslenzkt mál nú, að mjög beri af. Ég nefni þetta sem dæmi.

Þetta eru nokkur útgjöld, en þau eru nú mikil hvort sem er. En ég fullyrði, að nú, þegar svo mikið er talað um menntun, þá eigi ekki annað mál meiri rétt á sér en þetta. Það er stórkostlegur þáttur í uppeldi, að unglingarnir eigi aðgang að úrvalsrithöfundum þjóðarinnar, enda mun það svo, að þeir, sem bezt skrifa íslenzku, læra það sem börn.