10.04.1946
Neðri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (3540)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það eru nokkur orð í sambandi við brtt., sem ég hef flutt viðvíkjandi fjárgreiðslu þeirri, sem seðlabankinn á að lána stofnlánadeildinni, um það, að upphæðin verði hækkuð úr 100 millj. í 150 millj. kr.

Við 2. umr. málsins minntist ég á það, að það væri augljóst, að sú fjárhæð, sem stofnlánadeildinni væri ætlað að hafa til útlána, hlyti að verða ónóg, og þó sérstaklega, ef ætti að gera ráð fyrir, að allar framkvæmdir gætu komið til greina með lánveitingar úr sjóðnum. Í þessu sambandi vild! ég rifja upp, hvernig það lítur út viðvíkjandi fjárhagshliðinni.

Það er gert ráð fyrir því, að stofnlánadeildin hafi 100 millj. kr. til útlána, en auk þess er gert ráð fyrir því, að hún geti aflað sér nokkurs fjár með því að gefa út vaxtabréf, en það er nú nokkurn veginn vitað mál, að það muni deildin ekki gera nema að mjög litlu leyti. Það er því ekki varlegt að áætla, að deildin hafi til útlána 100 millj. kr. Það er sýnilegt, að vegna þeirra 30 togara, sem keyptir verða, verður sótt um lán fyrir sem nemur allt að 60 millj. kr., það er sú upphæð, sem kaupendur þeirra togara gætu sótt um samkv. þeim reglum, sem gert er ráð fyrir í frv. Þar að auki liggur fyrir, að keyptir verða fyrir Reykjavíkurbæ 50 bátar frá Svíþjóð og kaupverð þessara báta verður nokkuð yfir 25 millj. kr., og mundi þurfa að lána út á þá báta úr deildinni í kringum 20 millj. kr. Þarna eru komnar 80 millj., sem þyrfti að lána út á togarana og bátana frá Svíþjóð. Auk þess hafa verið keyptir 18 bátar frá Svíþjóð, og lán út á þá báta verða varla undir 5 millj. kr., og svo er búið að efna til smíða á 35 bátum innanlands, og lán út á þá hljóta að verða í kringum 10 millj. Það, sem ég hef hér talið upp, er þá komið upp undir 100 millj. kr., og eru þá eftir lánveitingar til skipasmíðastöðva og dráttarbrauta, sem hér er sótt fast af ýmsum að verði tekið inn í þetta, að maður ekki tali um hraðfrystihúsin, niðursuðuverksmiðjur og mörg önnur fleiri mannvirki. Einnig hafa komið fram kröfur um það að lána út á síldarverksmiðjur og hafnarframkvæmdir. Ég hef hér áður staðið að því að flytja till. um það að takmarka nokkuð ákvæðið í frv. um það, hvaða framkvæmdir það væru, sem kæmu til greina með að fá lán úr þessum sjóði. En þessar till. hafa fengið sáralítið fylgi, að manni virðist, og vegna þess að það virðist hafa fengið heldur daufar undirtektir að gera nokkrar takmarkanir á útlánum, þó að augsýnilegt sé, að upphæðin er of lítil, þá fannst mér rétt að flytja till. um það að hækka þetta fé. Ef hins vegar fæst samkomulag um það að takmarka nokkuð útlánin frá því, sem till. liggja fyrir um, mundi ég vera til viðtals um það að draga þessa till. til baka, vegna þess að ég veit, að á því eru ýmsir örðugleikar að fá þetta fram. En það, sem ég vildi vekja athygli á, er það, að ekki er hægt að gera hvort tveggja í senn, að viðurkenna, að sú upphæð, sem hér er lögð til grundvallar, sé of takmörkuð, og bæta þó sífellt við ýmiss konar mannvirkjum, eins og t. d. síldarverksmiðjum, á þennan takmarkaða sjóð, án þess að verða við þeirri ósk að hækka lánsféð. Ég hef lýst þessu yfir í sjútvn. og óskað eftir því, að þetta fé yrði hækkað, og ég hef flutt um það till. En eins og ég sagði, ef samkomulag fengist um það að öðru leyti, t. d. að skylda nýbyggingarsjóðaeigendur til þess að nota sitt fé áður en þeir tækju fé úr stofnlánadeildinni, og ef það fengist takmörkun á því, hvaða fyrirtæki koma til með að geta fengið lán úr þessum sjóði, þá er ég til viðtals um það að draga till. til baka, annars er óhjákvæmilegt, að hún komi til atkv., svo að úr því fáist skorið, hvort það er meiningin að hækka lánsupphæðina um leið og bætt er við nýjum stofnunum.