16.04.1946
Efri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (3555)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Ingvar Pálmason:

Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. á þskj. nr. 846, við 3. gr. frv. Efni hennar er aðallega það að setja í stafliði þau fyrirtæki, sem stofnlánadeildin lánaði til gegn 1. veðrétti. Og með því meina ég það, að það sé ábending — að vísu ekki nema ábending — um það, í hvaða röð þessi fyrirtæki eiga að ganga að lánadeildinni.

Þá er einnig hér í þessari brtt. lögð áherzla á það, að forgangsrétt að lánum úr þessari lánadeild hafi þau fyrirtæki í hverri grein, sem eru rekin eða stofnuð af félögum útvegsmanna. Og það er alveg í samræmi við það, sem er nú í 3. gr. frv. En ég vildi gera tilraun til að gera þetta víðtækara.

Þá er síðasta málsgr. í brtt., sem lýtur að því, að lán megi ekki veita úr stofnlánadeildinni til annarra framkvæmda en þeirra, sem gerðar eru eftir 1. jan. 1944. Og þessi málsgr. er sett þarna inn í gr. vegna þess, að það er allt útlit fyrir, að það fé, sem stofnlánadeildin ræður yfir, kunni að verða af skornum skammti, það muni tæplega nægja eftirspurninni, og sízt af öllu ef lánveitingarnar ná til fyrirtækja langt aftur í tímann, þ. e. sem fyrir löngu hafa verið stofnuð. Hins vegar tel ég ekki rétt, að fyrirtæki, sem stofnuð eru árið 1944 og síðan, geti ekki notið þessara hlunninda og komizt að í deildinni.

Ég sé ekki ástæðu til að skýra þessar brtt. nánar. Þær skýra sig nokkurn veginn sjálfar. En þar sem sú hugsun virðist hafa náð fyllilega samþykki hv. Nd., að það beri að vinna að því að koma útveginum í hendur samlaga og samlagsfélaga sjómanna og útvegsmanna, þannig a. m. k. að þau gangi fyrir um hlunnindaveitingar, þá virðist það vera álit þeirrar hv. d., að þannig væri málum sjávarútvegsins bezt komið.

Ég skal taka það fram að endingu, að samþykkt eða synjun þessara brtt. hefur ekki það gildi fyrir mér, að ég muni ekki greiða atkv. með frv. fyrir því, þó að þær verði felldar. Hins vegar get ég lýst því yfir, að frv. þetta er á margan hátt öðruvísi en ég hefði kosið, og sé ég enga ástæðu til að fara nánar út í það á þessu stigi málsins, því að ég er alveg sammála þeim, sem um málið hafa fjallað, bæði í hv. Nd. og hér í hv. d., að úr því sem komið er, verði ekki hjá því komizt, að þessi lánsstofnun verði að komast á. Og þó að hún sé eftir frv. ekki að öllu leyti í því horfi og á þann hátt, sem ég eða Framsfl. hefði kosið, þá mun ég samt sem áður fylgja þessu frv., hvernig sem fer um mínar brtt.

Um brtt. hv. minni hl. n. ætla ég ekki að ræða. Ég álít, að það sé hlutverk frsm. meiri hl. n., og vil ég ekki blanda mér inn í þær umr.