19.02.1946
Neðri deild: 70. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (3633)

12. mál, fiskimálasjóður o.fl.

Frsm. minni hl. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. frsm. meiri hl. hefur bent á, að það væri ekki gert ráð fyrir neinum verkefnum fyrir fiskimálasjóð í frv., og lagði á það mikla áherzlu, skildist mér, að af þeirri ástæðu aðallega væri ekki brýn nauðsyn að samþ. frv. Þetta er nú að því leyti rétt hjá hv. þm., að í núgildandi l. er mjög víðtæk almenn heimild til þess að efla sjóði til eflingar sjávarútveginum. En hitt er þó aðalatriðið, að í þessu frv. hér er berum orðum kveðið á um eitt hlutverk sjóðnum til handa, sem hann hefur ekki haft með höndum undanfarið neitt að ráði og ekki er beinlínis kveðið á um í núgildandi l., og það er einmitt þetta, að stjórn sjóðsins er hér heimilað að veita lán til eflingar bátasmíða og bátakaupa á þeim útgerðarstöðum í landinu, þar sem tilfinnanlegur skortur er á fé til slíkra framkvæmda. Þetta er alveg nýtt hlutverk, sem sjóðnum er ætlað. Og þó að segja megi, að hægt sé að teygja þannig núgildandi l., að það geti ekki talizt lagabrot að gera það, þá er þetta hlutverk ekki tiltekið beinlínis í núgildandi l., heldur aðeins óákveðið, að fiskimálasjóður eigi að styðja framfarir í sjávarútveginum. Auk þessa er hér nú fleira tiltekið nýtt, sem beinlínis er gert ráð fyrir að styðja, en það er ekki aðalatriði, og skal ekki farið út í það. Ef lögleidd yrði hin stórfellda efling sjóðsins, sem farið er fram á í frv., mundu tekjur sjóðsins fjórfaldast frá því, sem nú er. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þetta gerði nú ekki svo mikið til, þar sem fyrirhugað væri að setja l. um stórfellda eflingu fiskveiðasjóðs. Þetta er að nokkru leyti rétt, að eitthvað mundi létta á fiskimálasjóði við stórfellda aukningu fiskveiðasjóðs, en með tilliti til þeirra mörgu og margvíslegu verkefna, sem framundan eru í sjávarútveginum á næstu árum, er augljóst, að tekjur fiskimálasjóðs mundu hrökkva skammt til allra framkvæmda, svo að það er tæplega frambærilegt að halda því fram, að það eigi að vísa þessu máli frá, því að það sé ekki þörf fyrir þessa aukningu fiskimálasjóðs.

Varðandi önnur atriði málsins, t. d. hvort rétt sé að fela ráðh. áfram að fara með stjórn sjóðsins, þá vil ég undirstrika það, sem ég sagði áður, að það er ekki heppilegt, að ráðh. einn hafi úrslitavald um fjárveitingar úr sjóðnum, þar sem um er að ræða upphæðir, sem skipta millj. króna. Það er ekki að marka, þótt ekki séu mörg tilfelli, að ráðh. hafi farið öðruvísi að en n. lagði til. Annars er ég ekkert að deila á þá, sem með þessi mál hafa farið, en hins vegar tel ég að ekki sé ráðlegt, að svo mikið fjárveitingavald sé í höndum ráðherra. Ef umsókn kemur frá félagi útvegsmanna og sjómanna, getur verið, að hún yrði tekin til greina, en hitt er víst, að ekkert er í þessu, sem tryggir, að þannig sé farið að. Mér finnst það mikilvægt atriði, að félög gangi fyrir einstaklingum um fé úr sjóðnum, en til þess hefur ekkert verið gert. Ég vil ekki leggja neinar hömlur á einstaklinga um framkvæmdir, en ég tel hitt heppilegri þróun, ef menn geta stofnað samvinnufélög. Mér finnst frsm. eiga erfitt með að skilja það, að til þess að hægt sé að færa upp lánsheimildina úr fiskveiðasjóði þarf að efla sjóðina. — Ég læt þetta nægja, en vil þó aðeins minnast á það, sem þm. sagði um afstöðu mína við flutning málsins. Við, sem að þessu frv. stöndum, höfum áhuga á að efla fiskimálasjóð og leggjum þess vegna til, að tekjur hans verði auknar stórlega, en það er okkar skoðun, að um leið og sjóðurinn er efldur að fjármagni sé nauðsyn að bæta úr þeim göllum, sem við teljum vera á skipulagi hans, og að sömuleiðis sé áríðandi að vanda sérstaklega til stjórnar sjóðsins, þar sem gert er ráð fyrir því, að stjórn sjóðsins sjái um allar lánveitingar úr sjóðnum. Ég segi líka, að ef það væri meining meiri hl. sjútvn. að efla sjóðinn að fjármagni, þá væri opin leið fyrir þá að leggja til, að skipulagsbreytingar sjóðsins yrðu felldar úr frv., en samþ. svo frv. að öðru leyti. Þetta var auðvelt fyrir þá, sem litu þannig á málið. Ég segi fyrir mig, að ég hefði hiklaust verið með því, að sjóðurinn væri efldur, enda þótt till. okkar um skipulagsbreyt. hefðu verið felldar úr frv., þó að ég telji þær hins vegar mikils virði og mjög nauðsynlegar. Ég tek þetta fram vegna þess, sem fram var að gefa í skyn.