21.11.1945
Neðri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (3838)

96. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Flm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég er mjög hissa á því, að nokkur maður skuli vera á móti því, að þetta frv. gangi sæmilega greiðlega gegnum þingið, og ég tel ekki miklar líkur til þess, að hv. þm. A.-Sk. fái miklar þakkir fyrir það austur í Hornafirði. — Sá hv. þm. byrjaði á því að minnast á það, að þetta frv. væri í tveimur atriðum frábrugðið frv., sem hv. þm. N-Þ. flytur um landshöfn á Þórshöfn, þ. e. a. s., að við flm. þessa frv., tökum fram í þessu frv., að þarna á Hornafirði þurfi að byggja fiskvinnslustöðvar o. fl. auk hafnarmannvirkja, og í hinu atriðinu ólíkt því frv. að því leyti, að frv. þetta væri ekki flutt að tilhlutun hafnarnefndar á viðkomandi stað. En við flm. frv. förum fram á, að reist verði fiskvinnslustöð og fleiri mannvirki auk hafnarinnar, til þess að útgerðarskilyrði batni við það verulega á. þessum stað. Því fiskvinnslustöð er alveg nauðsynlegur liður í þeim framkvæmdum, sem gera þarf til þess að svo megi verða. Það er ekki nægilegt að gera höfn þarna, ef ekki eru síðan til tæki til þess að vinna úr aflanum. Þessa taldi hv. þm. A.-Sk., að hv. þm. þyrftu alveg sérstaklega að taka afstöðu til. Um þetta verður sjálfsagt athugað í sjútvn. — En viðkomandi því, er hv. þm. A-Sk. talaði um, að frv. þetta væri ekki flutt að tilhlutun hafnarnefndar Nesjahrepps, þá var ekki annað að skilja á hv. þm. en að hann meinti, að við flm. mundum fá óþökk þar eystra fyrir að hafa flutt frv. En ég er nú kunnugri því, hvers menn þarna yfirleitt óska, heldur en hann. Það vill nú svo til, að ég þekki hvert mannsbarn þarna í Höfn í Hornafirði, en örlögin hafa hagað því þannig, að hv. þm. A-Sk. á heima í tiltölulega afskekktri sveit langt fyrir vestan Hornafjörð og kemur hv. þm. lítið á Hornafjörð, nema til þingmálafunda. Vegna kunnugleika míns þarna veit ég, að þetta frv. hefur óskipt fylgi þeirra manna, sem hlut eiga að máli. Og ég bori að fullyrða, að það berst til þingsins eitthvað um þetta mál bráðlega.

Hitt er rétt, sem hv. þm. sagði, að á sýslufundi hefði hafnarnefnd Nesjahrepps farið fram á, að sýslunefndin ábyrgðist fyrir hönd sýslunnar lán, sem hreppurinn tæki til þess að hrinda hafnarframkvæmdum af stað, móti framlagi úr ríkissjóði. En þetta var vegna þess, að þessir menn, sem þarna eiga hlut að máli, hafa í hyggju að reyna að komast af stað með það allra nauðsynlegasta, sem þarf að gera til þess að bæta hafnarskilyrði þarna, í trausti þess, að framkvæmdir þær, sem hreppurinn gerði í því efni, verði yfirteknar af ríkinu, ef það sjónarmið verður ofan á í hæstv. Alþ., að þarna skuli gerð landshöfn. Hitt er ljóst, að hreppur, sem ekki telur nema 300 manns, hefur litla möguleika til þess að ráðast í framkvæmdir, sem hljóta að kosta fleiri millj. kr., eins og það mundi kosta að ganga svo vel frá höfn þarna sem gera þarf. En hins vegar verður það afkoma útgerðarinnar allrar á Austurlandi, sem bíður tjón við það að láta ógert í þessum efnum það, sem þarf að gera til þess að bæta útgerðarskilyrði þarna, og svo mun fara, ef ríkið tekur þetta mál ekki í sínar hendur.

Ég vil benda á það líka að hér er algerlega um tvö sjónarmið að ræða, þegar um er að ræða annars vegar landshafnir, en hins vegar hafnir, sem viðkomandi hreppar eiga að gera. Þar sem um það er að ræða, að hreppar vinni þessi verk, þá er gengið út frá því sjónarmiði, að það sé fyrst og fremst mál hreppanna. En um þessa hafnargerð segi ég hiklaust, að hún sé ekki sérstaklega fyrir Hornafjörð, heldur Austfirðingafjórðung allan, og þess vegna er ómögulegt að ætlast til þess, að Hafnarkauptún geri höfn þarna eftir venjulegum reglum um hafnargerðir að öllu leyti, með venjulegum styrk á móti úr ríkissjóði. — Það vakti fyrir okkur flm. frv. að fá það sjónarmið viðurkennt á Alþ., að þau mannvirki, sem þarna þarf að framkvæma til þess að bæta hafnarskilyrði, eigi ríkið að gera, vegna þess að það mundi auka stórkostlega möguleika sjávarútvegsins í heilum landshluta. Enn fremur vil ég benda á það, sem ég gerði í framsöguræðu minni líka, að það eru fleiri en við flm. frv., sem líta svona á málið. Ég minntist á það þá, að samþykktir Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands hnigu algerlega í þessa átt. — Hv. þm. A-Sk. taldi, að ekki væri ástæða til þess að afgreiða þetta mál í skyndi hér á Alþ., án þess að óskir um það lægju fyrir frá hafnarnefnd Hafnarkauptúns. Ég vona þá, að ef þær óskir koma fram, þá. breyti sá hv. þm. fljótt afstöðu sinni í þessu efni. — Ég óska svo, að málinu verði vísað til hv. sjútvn.