13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3977)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég hef leyft mér, ásamt þm. V.-Ísf., að bera fram brtt. á þskj. 335. Þessi brtt. er sumpart til rýmkunar, en að nokkru til þrengingar. Það, sem til rýmkunar er, er það, að aðeins verði miðað við, að hlutaðeigandi hafi verið kvæntur íslenzkri konu, en hins vegar ekki sett það skilyrði, að hann hafi verið búsettur hér fyrir 1939. Vel má vera, að þeir Þjóðverjar, sem kvæntir eru íslenzkum konum, hvar sem þeir hafa búið, hafi ekki verið minna mótfallnir nazistunum og stefnu þeirra en við. Munurinn á þessum mönnum gæti verið sá, að þeir hafi ekki viljað vinna fyrir þýzku stjórnina, því að þeir menn, sem fluttust úr landi, fengu ekki útfararleyfi nema þeir ynnu störf í þágu ríkisins og væru þá um leið umboðsmenn þeirrar stjórnar, sem þá var við völd í Þýzkalandi. Við álitum þess vegna, að ef þeim Þjóðverjum, sem hér voru búsettir fyrir 1939, yrði veitt landsvistarleyfi, þyrfti ekki síður að athuga, hvort ekki sé einnig rétt að veita þeim Þjóðverjum, sem kvæntir eru íslenzkum konum, landsvistarleyfi, þó að þeir hafi ekki búið hér. Till. okkar er að þessu leyti rýmri. En aftur á móti er till. okkar að því leyti meira takmarkandi en frumtill., að við viljum fela dómsmrh. að athuga og rannsaka, hvaða Þjóðverjum sé ástæða til að veita landsvistarleyfi, og að sjálfsögðu sé leyfið ekki veitt nema þeim, er hafa ekki tekið þátt í samsæri gegn landi voru. Ég játa, að sú rannsókn getur verið mörgum örðugleikum bundin, einkum þó að skera úr því, hvort viðkomandi hafi verið neyddur út í einhver óhæfuverk, eins og okkur er nú kunnugt, að mikið var að gert hjá nazistum, eða menn hafi aðhafzt slíkt af frjálsum vilja.

Úr því að ég er staðinn upp, vil ég minnast ofurlítið á þessi umræddu bréf. Mig rekur ekki minni til, að ég hafi lesið þessi bréf, en hins vegar þori ég ekki að fullyrða, hvort þau hefur einhvern .tíma borið á góma. (HermJ: Var þm. ráðh., þegar bréfin bárust?). Ég var ekki ráðh. þegar 1.–3. bréf kom, en þegar 4. bréfið kom, var ég ráðh.

Ég hef aldrei heyrt skýrslu um utanför lögreglustjóra, þó að ég vissi, að honum væri ætlað starf sem lögreglustjóra. Ég hélt því, að hann væri einungis að búa sig undir það. Hitt vissi ég og var undrandi yfir þeirri frekju, að Gerlach sendi skeyti beint frá sér til sendiherrans í Kaupmannahöfn og bað sendiherrann að greiða fyrir því, að núverandi lögreglustjóri kæmist í samband við þýzku lögregluna. Sendiherrann virti þetta skeyti ekki svars, eins og vera bar. Síðar hefur orðið upplýst um Gerlach, að hann var, áður en hann kom hér, sendiherra Þjóðverja í Sviss, en var rekinn þaðan. Hafði hann verið ásakaður um að hafa tælt fólk að landamærunum, þar sem svo Þjóðverjar hefðu tekið það og drepið. Íslendingar hefðu átt að mótmæla að taka við slíkum sendimanni. (EystJ: Það er gaman að heyra, hvað menn eru herskáir nú). Svo lítill var vinskapur þýzka sendiherrans og mín, að hann leitaði aldrei viðtals við mig. Það eina, sem ég hafði kynni af honum, var að hann sendi mér nótu og ásakaði mig fyrir of náin kynni af andnazistum. Ég svaraði, að erlendum sendimanni væri slíkt óviðkomandi. (Forsrh.: Margt hefur nú farið fram hjá mér í ríkisstj.). Svo þrautreynd sem starfsemi nazista er orðin í okkar nágrannalöndum, hljótum við að vera vel á verði gagnvart slíkri starfsemi. Þess vegna tel ég ríka áherzlu til fyrir íslenzku ríkisstj. að athuga vel allar þær upplýsingar, sem hægt er að fá, áður en þessum mönnum er veitt landsvistarleyfi. Þá, sem ekki finnast á neinn hátt sekir, á Ísland að hýsa, ef þeir þarfnast þess, og enginn skyldi mæla með því frekar en ég, að þeir njóti íslenzkrar gistivináttu. Það er vandasamt að rannsaka mál þessara manna, en það verður að gera allt, sem hægt er, til að sú rannsókn gangi greiðlega og sé nákvæm, svo að þeir menn, sem hafa siðferðislegan rétt til að búa hér, fái sem fyrst landsvistarleyfi, en hinum, sem uppvísir verða að því að hafa starfað gegn þjóð vorri, verði ekki hleypt inn í landið.