13.12.1945
Sameinað þing: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (3998)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Vegna þess svars hæstv. forsrh. að Bandaríkin hafi haldið alla samninga við okkur, vil ég spyrjast fyrir um, fyrir hvaða tíma þeir verða farnir með her sinn héðan af landi burt. (Forseti: Þetta er ekki til umræðu). Ég ætla mér ekki að láta hæstv. forseta binda fyrir munninn á mér eða segja mér fyrir, um hvað ég eigi að tala. Það hafa verið gerðir samningar milli Bandamanna og ýmissa þjóða um brottflutning hers Bandamanna úr löndum þeirra þjóða fyrir 2. janúar næstkomandi. Virðist því fyrirspurn mín til hæstv. forsrh. í alla staði tímabær og eiga rétt á sér, jafnmiklir vökumenn og þar eru að verki sem ráðh. eru. (GJ: Hv. þm. V.-Sk. ætti að bera fram skriflega fyrirspurn). Ég býst við, að hv. þm. Barð. geti fylgzt með því, sem fram fer, þótt það sé ekki skrifað fyrir hann, svo næmur hlýtur hann að vera. Annars skal ég skrifa þetta upp fyrir hann á eftir, ef hann vill. Ég vil mælast fastlega til þess að fá því svarað, hvenær herinn á að vera farinn héðan.

Um bréfin viðkomandi njósnamálinu vil ég taka það fram, að vegna okkar framsóknarmanna vil ég, að þau verði prentuð, til þess að það sjáist svart á hvítu, að dylgjur hæstv. dómsmrh. hafa ekki við neitt að styðjast. Mundi þá ljóst sjást, út á hve hálan ís hann er kominn, og væri eigi ólíklegt, að hann kynni þá að óska að hafa farið hægar af stað, enda er það engan veginn víst, að hann geti skautað út af þeim ís, sem hann hefur komizt inn á í þessu máli. (Forsrh.: Hvað eru margar bakteríur í einum teningsmetra af mjólk?).