20.12.1945
Sameinað þing: 21. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (4024)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Forsrh. (Ólafur Thors):

Mér láðist að taka fram áðan, að það er á misskilningi byggt hjá hv. þm. Str., að dómsmrh. hafi hótað að segja sig úr stj. út af þessari till. Ég vil aðeins endurtaka, að mér hefur skilizt á hv. 1. flm., að ef till. þessi verður samþ. í kvöld, yrði afleiðingin sú, að fram ætti að fara rannsókn í þessu máli, væntanlega af dómsmrh., eins og þetta er í pottinn búið, nema því aðeins að meiningin sé, að fleiri menn aðstoði hann, eins og mætti álykta af þáltill., sem hv. þm. Str. hefur lagt fram hér í dag. (HermJ: Rannsókn á þessum mönnum liggur fyrir úti í Englandi. Þarf ekki annað en skoða hana. Þá er það eitthvað dálítið meira en ég veit um málið. Því að eftir því, sem mér er tjáð, eru hér einhverjar skýrslur og kannske einhverjar fleiri væntanlegar, sem eru talin gögn í málinu. Og undir öllum kringumstæðum, þó að till. verði samþ., verður málið að sjálfsögðu í höndum dómsmrh. þangað til Alþ. kemur saman eftir þingfrestun. Ég held þess vegna, hvernig sem á þetta mál er litið, að það sé rétt hjá mér varðandi sjálfan kjarna málsins, að gatan sé ekki greidd nú með því að fara í einhverjar harðsvíraðar deilur, heldur með hinu fremur að láta umr. falla niður í trausti þess, að málinu verði eitthvað lengra komið þegar við hittumst 1. febr. eða fyrr. Af því að ég vil reyna að vinna að því, að þeir af þessum mönnum, sem ekkert hafa til saka unnið annað en það að vera Þjóðverjar, fái að dvelja hér aftur, þá segir mín tilfinning mér það, að þetta séu skynsamlegustu vinnubrögðin. Af þeim ástæðum er ég samþykkur ákvörðun hæstv. forseta, sem við fengum fregn af meðan við vorum að bera saman bækurnar, hvort við ættum að koma fram rökst. dagskrá eða kalla saman flokksfund til að ræða málið og afgreiðslu þess. Ég er algerlega ánægður með úrskurð hæstv. forseta og rök hans.