02.04.1946
Sameinað þing: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (4063)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef ekki ástæðu til að bæta miklu við það, sem ég hef áður sagt í þessu máli. Mér þykir aðeins sem Alþingi hafi verið látið bíða alllengi eftir ekki veigameira innleggi í þetta mál en nú hefur verið sett fram af minni hl. eða a. m. k. hluta af minni hl., þar sem till, minni hl. er sú ein eftir margra mánaða þóf og andspyrnu gegn þessu máli að vísa því frá eða til aðgerða og náðar hæstv. dómsmrh. eins í málinu.

Ég vil um þessa rökst. dagskrá, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur lýst, aðeins segja það, að að sjálfsögðu erum við flm. henni mótfallnir og leggjum til við Alþ., að það felli þessa rökst. dagskrá, en að till. verði í samræmi við nál. meiri hl. utanrmn. samþ. eins og hún liggur fyrir, þó að til athugunar gæti komið og ekki sé óeðlilegt, að samþ. yrði brtt. sú, er hv. þm. Snæf. lýsti yfir og lagði fram, er málið var síðast rætt. Ég hygg, að það sé alger misskilningur hjá hv. 2. þm. Reykv. að túlka þá till. þannig, að með henni sé verið að fleyga þetta mál að nokkru leyti og draga úr áherzlu þeirri, sem flm. hafa viljað leggja á þá leið málsins, sem lagt er til í till. Ég hygg, að það hafi verið yfirlýst af hv. þm. Snæf., er hann svaraði hér orðum eins hv. þm. á síðasta fundi, er þetta var rætt. Ég hygg þannig, að þessi till. sé tvímælalaus áskorun til hæstv. ráðh. í þessu efni, þó að þessi brtt. verði samþ. við hana. Og ég álít, að hæstv. ráðh. beri tvímælalaust að haga sér í samræmi við jafntvímælalausan vilja og kemur fram í þáltill., þó að þessi brtt. verði samþ., og ég leyfi mér að skírskota til þess, sem ég áður hef bent á í umr. um málið, að í bréfi frá hæstv. dómsmrh., dags. 3. des. s l., þar sem hann svarar bréfi og áskorun 30 þm. um þessi efni, er beinlínis gefið í skyn, að hann muni beygja sig fyrir þingvilja í þessum efnum, eða a. m. k. að hann telji það rétt, að þinglegur vilji komi fram um þessi efni. Og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp niðurlag þessa bréfs. Hæstv. dómsmrh. hefur á undan í bréfinu lýst þeim reglum, sem hann hefur farið eftir í þessum efnum, og segir svo um vilja Alþ. í þessum efnum : „Telur ráðuneytið rétt, að sá vilji komi fram á þinglegan hátt, en mun, meðan svo er eigi, ekki breyta uppteknum hætti.“ Ég leyfi mér að líta á þetta niðurlag bréfs hæstv. dómsmrh. þannig, að hann vilji fá þennan þingvilja fram, og muni þá fyrst, er hann er kominn fram, telja sig geta breytt á annan veg en hann hefur gert til þessa í þessum efnum. Ég lít svo á, að þannig hafi hæstv. ráðh. beinlínis óskað eftir því, að vilji hæstv. Alþ. komi fram í þessum efnum, og að beinlínis sé kallað eftir honum með niðurlagi bréfsins, sem ég las.

Ég held svo, að ég hafi ekki miklu við þetta að bæta. Ég sé ekki ástæðu til þess frekar en fyrr að blanda mér inn í þær umr., sem við umr. þessarar þáltill. hafa farið fram milli hæstv. dómsmrh. og hv. meðflm. míns að þessari þáltill., hv. þm. Str., um efni, sem ég tel fjarskyld kjarna þessa máls. Ég hef áður bent á, að ég tel þær umr. mjög fjarri kjarna þessa máls, sem fyrir liggur að ræða um. Og ég hygg, að allir hv. þm. hafi séð, að þær umr. voru ekki hafnar af hálfu okkar flm. þessarar þáltill. og það ber því ekki að sakast um það við okkur, þó að umr. hafi mjög farið utan við kjarna málsins og inn í þær blandað óskyldum atriðum. Eftir þær miklu umr., sem farið hafa fram um mál þetta, liggur það svo ljóst fyrir, að af hálfu okkar flm. þarf ekki að fjölyrða um það frekar. En ég ítreka óskir mínar til hv. þm., að þeir felli þá rökst. dagskrá, sem nú hefur verið lýst og borin er fram af hv. 2. þm. Reykv.