27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (4254)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Flestar stjórnir, sem myndaðar hafa verið á Íslandi, hafa verið flokksstjórnir, eða því sem næst. Einn flokkur eða tveir með skyldar stefnuskrár hafa tekið völdin og stjórnað í harðri baráttu við andstæðinga, sem byggt hafa á gerólíkri stjórnmálastefnu. Myndun núv. ríkisstj. var með allt öðrum hætti. Stjórnin er ekki flokksstjórn, hún er ekki vinstri flokka stjórn og ekki hægri flokka stjórn. Hér tóku menn höndum saman með hin sundurleitustu sjónarmið um þjóðskipulagið. En í samstarfinu hefur sjónarmiðið verið eitt: Alhliða endurreisn og nýsköpun atvinnulífsins, með því markmiði að skapa hér betra þjóðfélag. Stjórnarmyndunin var sameiginlegt átak þjóðfélagsaflanna, frá hægri og vinstri, frá öllum stéttum, stærsta átak til að tryggja velmegun Íslendinga, sem saga okkar greinir frá.

Um þetta samstarf hafði Sjálfstfl. forgöngu sem stærsti flokkur þings og þjóðar, á grundvelli þeirrar ályktunar, sem landsfundur sjálfstæðismanna 1943 gerði, — að flokkurinn beiti sér fyrir sem víðtækastri stjórnmálasamvinnu og myndun þingræðisstjórnar. Þessi stórmerka stjórnarmyndun var fyrst og fremst að þakka lagni og ötulleik hæstv. núv. forsrh.

Við hefðum helzt kosið, að allir þingflokkar hefðu staðið að þessu samstarfi, en Framsfl. valdi sér það hlutskipti að skipa sér í stjórnarandstöðu og hefur rekið hana með óskiljanlegri heift. En sú stjórnarandstaða er allt annars eðlis en stjórnarandstaða hefur áður verið. Nú er hún ekki fólgin í djúptækum ágreiningi um þjóðskipulagið. Það er ekki deilt um þjóðnýtingu, ríkisrekstur, einstaklingsrekstur eða samvinnurekstur. Hv. þm. Str., Hermann Jónasson, vildi jafnvel halda því fram í gær, að um endurnýjun framleiðslunnar væri ekki heldur neinn ágreiningur. En í hverju er þá stjórnarandstaðan fólgin? Hún er ekki stefna. Hún er nart og aðfinningar út af sérhverju því, sem vonsviknir menn, er misst hafa af strætisvagninum, geta í önuglyndi sínu fundið upp til að setja út á. Þetta kom greinilega fram í ræðu hv. þm. Str. í gær, og sannaðist átakanlega í ræðu síðasta ræðumanns, Skúla Guðmundssonar.

Þm. Str. rökstuddi vantraustið með því, að Alþ. sæti svo lengi að störfum, — að hæstv. forseti hefði ekki tekið einhverja till. hans á dagskrá, að formaður í einhverri nefnd hefði dregið að skila áliti um eitthvert frv., — að bæjarstjórn Reykjavíkur hefði látið braskara fá lóðir, — að sérfræðingur í stjórnarskrárnefnd hafi ekki afhent skýrslu, — að það hafi gerzt, sem var óþekkt fyrirbrigði í stjórnartíð hv. þm. Str., að stofnaðar hefðu verið nýjar nefndir og stöður, — að togararnir væru of dýrir, — að þessi nýsköpun væri þegar orðin úrelt, eins og hann komst að orði, —að hæstv. landbrh. Pétur Magnússon, og hæstv. forseti, Jón Pálmason, séu svo vondir við bændur, — og svo kom höfuðsyndin, þegar þm. Mýr. fyrir hönd Framsfl. sagði með heilagri vandlætingu, að stjórnarflokkarnir væru að rægja milli landbúnaðar og sjávarútvegs!

Ég hygg, að leitun sé meðal mennskra manna að jafninnantómri og botnlausri stjórnarandstöðu sem þeirri, er Framsfl. heldur uppi. Engin heilsteypt stefna, aðeins andúð gegn framfaramálunum, — ábyrgðarlaus yfirboð. Ef kjötverðið er ákveðið kr. 10,85, þá heimta þeir 12 til 13 kr. Ef ríkisábyrgð fyrir samvinnubyggingarfélög er hækkuð upp í allt að 75%, þá heimta framsóknarmenn 85%. Og svo nart og nudd. Í sveitunum gera framsóknarmenn sér mestar vonir með því að nudda sér utan í nokkra þm. Sjálfstfl., sem ekki styðja stjórnina. Nú virðast framsóknarmenn hafa ákaflega mikið traust á hv. þm. Borgf., Pétri Ottesen, og á þm. Skagf., Jóni á Reynistað. Ég held, að álit þeirra á forsprökkum Framsfl. hafi nú ekki alltaf verið að sama skapi. Ég leyfi mér að lesa hér upp lýsingu hins merka þm. Borgf., Péturs Ottesens, á öðrum formanni Framsfl., Eysteini Jónssyni, lýsingu, sem er prentuð í þingtíðindunum og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, Pétur Ottesen segir um Eystein :

„Það er ekki meira gagns að vænta af honum til að ráða fram úr þeim erfiðleikum, sem að þjóðinni steðja nú, en maðksmognum rekadrumb, sem skolar á land norður á Hornströndum og liggur þar síðan sandorpinn að eilífu nóni.“

Hv. þm. Str. minntist í gær á endurskoðun stjskr. Stjórnarflokkarnir sömdu um að hefja endurskoðun stjskr. í þeim tilgangi að treysta sem bezt lýðræðið og hið nýstofnaða lýðveldi, og að tryggja borgurunum ýmis mannréttindi í samræmi við kröfur nútímans. Þetta starf var hafið og hefur þegar borið mikinn ávöxt. Það hafa verið þýddar á íslenzka tungu margar erlendar stjórnarskrár og aflað þýðingarmikilla gagna og upplýsinga um stjórnskipun ýmissa merkustu lýðræðisríkja. Stjórnarflokkarnir hafa því staðið við það heit að undirbúa þetta mál. Hitt er ekkert aðalatriði, hvort ný stjórnlög eru sett árinu fyrr eða seinna. Og vegna mikilla anna við hin stórfelldu mál, sem þetta þing hefur haft til meðferðar, og til að vanda sem allra bezt til hinnar nýju stjskr., ákváðu stjórnarflokkarnir að flaustra málinu ekki af fyrir þessar kosningar.

Hv. þm. Str. sagði, að ég hefði ekki gefið skýrslu. Ég hef sem ráðunautur n. þegar látið henni í té miklar upplýsingar. Um utanför mína gaf ég ýtarlega, munnlega frumskýrslu í n., og mun að sjálfsögðu gefa frekari skýrslur þar, þegar starfið verður hafið á ný. En þegar stjórnarsamningurinn var gerður, fluttu framsóknarmenn þær fréttir út um allt land, að stjórnarflokkarnir hefðu samið um að breyta stjskr. nú við þessar kosningar, til að gera landið að einu kjördæmi. Náttúrlega var þetta uppspuni. En furðulegt er að heyra þá sömu menn, sem héldu því fram, ráðast nú á stjórnarflokkana fyrir að hraða ekki stjórnarskrárbreytingunni.

Vegna ummæla þm. Str. að öðru leyti verð ég að taka það fram, að hinar hæpnu till. framsóknarmanna um sérstakt stjórnlagaþing hafa mjög tafið störf stjórnarskrárnefndanna.

Þessi sami þm. minntist hér í gær á saltleysi í landinu, sem stj. væri að kenna. Útvarpsfréttir í kvöld, sem komu rétt áður en þessar umræður hófust, afsönnuðu þetta. Þar var upplýst, með skýrslu frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, að um áramót hefðu verið 8 þús. tonn í landinu. Síðan hefði ekki verið nema um helmingur þess notaður, og er nú von á næstunni á 4 þús. tonnum. Í landinu hefur því verið nægilegt af salti. Hitt er svo annað mál, að komið hefur fyrir, vegna flutningsörðugleika, að einstaka sjávarþorp hefur um stund vantað salt.

Þm. sagði, að togararnir hefðu verið keyptir með tvöföldu verði. Og hv. þm. V.-Húnv. sagði nú áðan, að þarna hefði milljónatugum verið eytt að óþörfu. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að hin nýju tilboð, sem aflað hefur verið um 10 togara til viðbótar, sýna það, að nú hefði þessi togarasmíði orðið upp undir 50% dýrari en sú, sem samið var um.

Menn munu hafa veitt því athygli, að hæstv. forsrh. talaði hér í gær fyrir hönd stj. sem stjórnarforseti, en ekki sérstaklega fyrir Sjálfstfl. En því brá við hjá sumum öðrum úr stjórnarflokkunum, að þeir vildu eigna sér tiltekin mál. Þetta skiptir ekki neinu aðalmáli, heldur hitt, að það er sameiginlegt átak allra stjórnarflokkanna að hafa hrundið fram þessum stórmálum, og þá ætti vitaskuld ekki að gleyma hlut stærsta flokksins. Ég vil nú leyfa mér út af þessu að drepa hér á tvö mál.

Hæstv. dómsmrh. minntist á það, að Sjálfstfl. hefði krafizt þess, að útgjöld til trygginganna væru lækkuð um 3–4 millj. og ábyrgð ríkisins takmörkuð. Þetta er rétt. Hann sagði, að afleiðingin af þessu hefði orðið sú, að útfararstyrkur hefði verið felldur niður, ekknastyrkur lækkaður og fellt niður framlag til Atvinnustofnunar ríkisins. Það voru ekki till. Sjálfstfl. fremur en annarra flokka, að þetta væri gert. Eftir að Sjálfstfl. hafði sett sín sérstöku takmörk á því, hversu langt hann vildi ganga í útgjöldum ríkissjóðs, þá var tveim sérfróðum mönnum falið að gefa ábendingu um, hversu þessu yrði fullnægt. Þeir gerðu þær ábendingar, og eftir þeim var farið.

Um byggingarmálin vil ég taka það fram, að þau hafa fengið ágæta afgreiðslu nú. En minna má á það, að þótt Alþfl. hafi á sínum tíma beitt sér fyrir hinni merku löggjöf um verkamannabústaði, þá voru þau lög orðin úrelt. Á þingi 1942 fluttum við hv. þm. N.-Ísf., Sigurður Bjarnason, till. um endurskoðun laganna og vöktum aftur máls á því 1944. Hv. 6. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, flutti svo till. um þetta í fyrra. Vænti ég, að þetta hafi haft nokkur áhrif á gang þessara mála.

Hv. þm. Mýr., Bjarni Ásgeirsson, sagði í gær, að landbúnaðurinn væri olnbogabarnið hjá stjórnarflokkunum. Við skulum líta á staðreyndirnar. Hvað hefur verið gert fyrir landbúnaðinn, honum til hagsbóta á því eina og hálfa ári, sem stjórnarsamstarfið hefur staðið? Hæstv. fjmrh. gerði því svo glögg skil í ræðu sinni, að ég þarf aðeins fáu við að bæta.

Raforkumálin hafa lengi verið eitt stærsta hagsmuna- og hjartans mál fólksins í sveitum og við sjó. Sjálfstfl. hreyfði því 1929, undir forustu Jóns Þorlákssonar, að hefja undirbúning að rafveitum til almenningsþarfa um land allt. Framsóknarmenn svæfðu það mál. Sjálfstæðismenn beittu sér fyrir virkjun Sogsins, bæði fyrir Reykjavík og sveitirnar á Suðvesturlandi, og var beðið um ríkisábyrgð 1931. Framsóknarmenn rufu þá þingið og tilfærðu þetta sem eina af ástæðunum. Á þingi 1942 fluttum við fjórir þm. Sjálfstfl. frv. um raforkusjóð. Það var samþ., og í sjóðnum ætla ég, að sé nú um 13 millj. kr. Nú hefur Alþ. sett almenn raforkulög, sem skapa möguleika til að koma raforku um land allt og er stórkostlega þýðingarmikið, bæði fyrir sveitir, kauptún og kaupstaði.

Samgöngumálin eru jafnan eitt helzta áhugamál sveitanna. Aldrei hafa verið jafnstórfelldar framkvæmdir og verið veitt jafnmikið fé til vega, brúa og síma og nú.

Til þess að landbúnaðurinn geti dafnað og blómgazt og skilað meiri arði, er stóraukin tækni og vélanotkun nauðsynleg. Hvað hafa stjórnarflokkarnir gert í því máli? Síðan stjórnin tók við, hafa verið keyptar og pantaðar með atbeina nýbyggingarráðs landbúnaðarvélar fyrir 12 millj. 670 þús. kr. Er það fjöldi tegunda búskaparvéla. Enn fremur jeppabílar og vörubifreiðar fyrir rúmar 4 millj. og alls konar vélar og tæki önnur, svo að samtals hefur þetta á þessum stutta tíma numið milli 20 og 30 millj. Hv. þm. Mýr. sagði í gær: „Grundvallarskilyrði landbúnaðarins er aukin tækni.“ Sami maður segir, þegar hann veit um þessa stórkostlegu vélaútvegun fyrir landbúnaðinn : „Landbúnaðurinn er olnbogabarn stjórnarflokkanna.“ Nei, hér hafa bændur sjálfir og búnaðarfélögin svarað, með þátttöku sinni í þessari nýsköpun.

Á lögin um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum hefur hæstv. ráðh. minnzt, og þarf ég ekki að tala um það frekar. Um jarðræktarlögin, jarðræktarstyrkinn og Ræktunarsjóð get ég einnig vísað til ræðu hæstv. ráðh. Sjálfstæðismenn hafa háð látlausa baráttu í 10 ár fyrir því að afnema hina illræmdu 17. gr. jarðræktarlaganna. Er nú loks sigur unninn. Þetta þing felldi 17. gr. úr lögum.

Frv. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar er nú orðið að lögum, og samkv. þeim skal verja 60–70 millj. kr. á næstu 10 árum úr ríkissjóði til ræktunar og bygginga í sveitum og lána þetta með 2% vöxtum til 42 ára.

Um þessi landbúnaðarmál sagði hv. þm. V.-Húnv., Skúli Guðmundsson, — allt þetta, öll þessi framfaramál eru byggð á till. framsóknarmanna. En má mér leyfast að spyrja: Hví í ósköpunum hefur þá Framsfl. ekki komið öllum þessum umbóta- og hugsjónamálum sínum í framkvæmd meðan hann var stærsti flokkur þingsins og hafði ráðin í hendi sinni? Þessi sami hv. þm. talaði um smala, sem ekkert væri nema grobbið og týndi fénu. Hann sagði, að slíkir smalar væru hjá hverjum góðum bónda reknir úr vistinni. Þetta er hárrétt. Það er búið fyrir hálfu öðru ári að reka Framsfl. úr vistinni.

Með skólafrv., sem samþykkt hafa verið, er stórlega létt undir með sveitunum að byggja skóla. Ríkið greiðir samkv. þeim til bygginga barnaskóla helming kostnaðar við heimangönguskóla í stað 1/3 áður, og ¾ við heimavistarskóla í stað helmings áður. — Ný lög hafa verið sett um húsmæðrafræðslu, sem auðvelda mjög héruðum að koma upp húsmæðraskólum.

En það má ekki skiljast svo við hagsmunamál landbúnaðarins, að ekki sé minnzt á hina stórfelldu eflingu skipastóls og sjávarútvegs, því að fyrir landbúnaðinn, sem hefur jafnan bezta markað sinn innanlands, er það hið mesta hagsmunamál, að fólkið við sjóinn, kaupendur landbúnaðarvaranna, fái aukna atvinnu og kaupgetu.

Þegar litið er yfir það, hvað stjórnarflokkarnir hafa gert í landbúnaðarmálunum á þessum stutta tíma, þá er ljóst, að það þarf talsverða skáldskapargáfu til að lýsa þessum aðgerðum svo, að landbúnaðurinn hafi verið olnbogabarnið, enda er hv. þm. Mýr., sem viðhafði þessi orð, skáld gott, eins og ræða hans í gær bar vatt um.

Ég skal nú víkja að nokkrum helztu ádeiluefnum framsóknarmanna á stjórnarflokkana varðandi landbúnaðinn. — Um kjötverðið læt ég nægja að segja þetta : Það verður kannske ekki lengi í minnum haft, flest það, er hv. þm. Mýr. sagði í ræðu sinni í gær. En einu held ég, að seint verði gleymt af bændastéttinni. Hann, formaður Búnaðarfélags Íslands, réðst að hv. 2. þm. Rang., Ingólfi Jónssyni, fyrir það, að hann hefði sett kjötverðið of hátt haustið 1942. Framsóknarmönnum verður tíðrætt um, að bændur hafi með búnaðarráðslögunum verið sviptir réttinum til að verðleggja sjálfir vöru sína. Ég vil spyrja: Hvenær síðan 1934, þegar afurðasölulögin voru fyrst sett, hvenær hafa fulltrúar kosnir af sjálfri bændastéttinni ákveðið verð á kjöti, mjólk og öðrum landbúnaðarvörum? Aldrei í þau 10 ár, sem framsóknarmenn fóru með landbúnaðarmálin, frá 1934–1944. Það voru þrjár nefndir, sem ákváðu verðlagið. Og hvernig voru þær skipaðar? Kjötverðlagsnefndin: S. Í. S. tilnefndi einn, Sláturfélag Suðurlands og Kaupfélag Borgfirðinga einn, Landssamband iðnaðarmanna einn, Alþýðusambandið einn, oddamaðurinn, sá fimmti, skipaður af ráðherra. Mjólkurverðlagsnefnd : Tveir úr stjórn hlutaðeigandi mjólkurbús, tveir tilnefndir af bæjarstjórnum eða hreppsnefndum, sá fimmti skipaður af ríkisstj. Verðlagsnefnd garðávaxta: Einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, annar af Alþýðusambandinu og sá þriðji af Grænmetisverzlun ríkisins, sem er ríkisfyrirtæki.

1942 voru sett lög um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum, sem Framsfl. hefur mjög stært sig af. Þeim gerðardómi og síðar dómnefnd var m. a. falið að ákveða til fullnaðar um verð á landbúnaðarvörum. Var þessi gerðardómur kosinn af bændastéttinni? Í honum áttu sæti 5 menn, allir skipaðir af ríkisstj. án tilnefningar.

Nei, alla valdatíð framsóknarmanna höfðu bændurnir, bændasamtökin, ekki verðlagsvaldið, og fulltrúarnir, sem taldir voru fyrir bændurna, voru alltaf í minni hluta í hverri einustu nefnd. Og á þessum tíma var það aldrei orðað af framsóknarmönnum, að stéttarsamtök bænda skyldu fá þetta vald í hendur. Þetta vígorð þeirra um, að nú eigi stéttarsamtök bændanna að fá þetta verðlagsvald í sínar hendur, þetta vígorð er fundið upp eftir að framsóknarmenn hrökkluðust frá völdum, til þess að reyna að sá óánægju meðal bændanna og espa þá gegn stjórn viðreisnarinnar.

Þá er það búnaðarmálasjóðurinn. „Engin stétt hefur verið beitt öðru eins ofbeldi og bændastéttin í þessu máli,“ segja þeir. Hneykslunin hófst, þegar Alþ. lögfesti þennan skatt, sem ríkisvaldið sér um innheimtu á, eins og öðrum sköttum, og ákvað, að landbrh. þyrfti að samþykkja fjárveitingar úr sjóðnum. Út af því ætluðu framsóknarmenn að ærast. Og ekki síður nú, þegar lögfest var, m. a. eftir ósk stærsta búnaðarsambands landsins, að sjóðnum skyldi varið til framkvæmda búnaðarsambandanna sjálfra. Framsóknarmenn eru oft furðu gleymnir á sína eigin fortíð, og þeir treysta um of, að fólkið gleymi verkum þeirra. Saga Framsfl. í tvo áratugi hefur verið óslitin keðja af lögþvinguðum afskiptum af Búnaðarfélagi Íslands og árásum á sjálfstæði þess. Ég skal rifja upp þá sögu, fyrst minnið virðist gengið úr vistinni hjá þessum herrum.

Búnaðarfélagið hefur lengi notið styrks úr ríkissjóði á fjárl. Fram til 1928 var ekkert skilyrði sett, en þá, á fyrsta þingi, sem framsóknarmenn réðu, settu þeir inn í fjárl. það skilyrði, að ríkisstj. yrði að samþykkja fjárhagsáætlun félagsins. Þessu skilyrði héldu þeir alla tíð síðan, og það stendur enn, og enginn hneykslast á Árið 1936 vildu framsóknarmenn jafnvel færa sig upp á skaftið og fluttu till. um, að stj. þyrfti að samþykkja ráðningu allra starfsmanna Búnaðarfélagsins. Í jarðræktarlögunum gömlu var ákvæði, sem bændunum var mikill þyrnir í augum, að ríkisstj. skipaði meiri hluta í stjórn Búnaðarfélagsins. Hvernig stóðu framsóknarmenn þá um sjálfstæði Búnaðarfélagsins? Þeir fluttu aldrei till. um að breyta þessu. Það voru sjálfstæðismenn, sem börðust fyrir því. Árið 1935 var þetta ákvæði afnumið, og Búnaðarfélaginu leyft að kjósa sjálft alla stjórn sína. Hver flutti það frv. ? Það var núverandi hæstv. forseti sameinaðs þings, Jón Pálmason, sem flutti það, og það fékkst samþykkt. En framsóknarmenn ýmsir grétu þetta ákvæði eins og horfinn ástvin. Og þeir hófu strax nýja herferð. Þeir fluttu breytingu á jarðræktarlögunum árið eftir, þar sem sagði m. a., að Búnaðarfélagið mætti ekki einu sinni ráða sér búnaðarmálastjóra, nema ráðherra samþykkti val hans. Hvar stóð núverandi formaður Búnaðarfélagsins, Bjarni Ásgeirsson, þá? Hann var hvorki meira né minna eri frsm. þessa máls. Og þetta var tekið í lög, en fyrir óhvikula baráttu sjálfstæðismanna var það afnumið nokkru síðar. Hvernig getur það nú hvarflað að framsóknarmönnum, að þeir séu teknir alvarlega, þegar þeir með þessa fortíð telja það hið mesta ofbeldi, sem nokkurri stétt hafi verið sýnt, að Alþ. leyfir sér að ákveða, að búnaðarsambönd landsins skuli fá fé búnaðarmálasjóðs til jarðræktarframkvæmda? Nei, afstöðu framsóknarmanna er fljótlýst. Meðan þeir hafa völdin á Alþ., þá á þing og stjórn að ráða og stjórna Búnaðarfélaginu. Þegar framsóknarmenn hafa meiri hluta í Búnaðarfélaginu, gengur það glæpi næst, að Alþ. komi nærri nokkru máli þess. Meðan framsóknarmenn eru við stjórn, þá eru það stjórnskipaðar nefndir, en ekki bændur, sem eiga að ákveða verð á landbúnaðarvörum. Þegar framsóknarmenn eru ekki í stjórn, þá er það árás á helgasta rétt bænda, að stéttarsamtök þeirra skuli ekki ákveða verðið.

Nei, góðir hlustendur. Barátta Framsfl. mótast ekki af hagsmunum bænda, heldur af eigin valdastreitu hans og engu öðru. Starf hans er neikvætt. hað er andóf gegn framfaramálunum. Og hann hefur valið sér það illa hlutskipti að reyna að espa bændur gegn nýsköpuninni. Samlíking hv. þm. Mýr. frá í gær getur átt ákaflega vel við Framsfl. nú. Framsfl. er eins og afskorin jurt, sem lifað getur í vatnsglasi um stund, en ekki lengi. Og jafnvel gróðurhúsahlýjan frá Reykjum mun ekki megna að vekja þá plöntu til lífs á ný.