18.10.1945
Neðri deild: 10. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (4306)

25. mál, lendingarbætur í Höfn í Bakkafirði

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Ég þarf ekki langan tíma til þess að gera grein fyrir þessu máli. Frv. þetta er líkt mörgum öðrum frv. um sama efni, sem áður hafa verið flutt. Frv. er flutt til þess að stuðla að hafnargerð í Bakkafirði, sem er mikil nauðsyn, eins og mörgum mun ljóst vera. Út af Bakkafirði eru hin beztu fiskimið, og í vor og í sumar stunduðu þar 10 aðkomubátar veiðar. Auk þess er Bakkafjörður nokkurt þorp, og munu íbúar þess eiga 7 eða 8 báta, sem gerðir voru út í sumar.

Það, sem hér er farið fram á, er það, að ríkið leggi fram helming á móti heimamönnum. Í fyrra voru veittar 30000 kr. til þessa verks, en það er of lítið til svo mikilla framkvæmda, því að meðal annars þarf að loka allmiklu sundi með garði úr steinsteypu. Árið 1932 var Sigurður Thoroddsen fenginn til þess að mæla fyrir lendingarbótum á Bakkafirði, og gerði hann um það ákveðnar tillögur. Síðan þótti rétt að athuga málið betur, og var þá Jón Ísleifsson fenginn til þess að gera frekari mælingar. Vitamálastjóri hefur nú á mælingum þeirra Sigurðar Thoroddsens og Jóns gert sínar tillögur, sem að mestu byggjast á tillögu Sigurðar.

Til framkvæmdar þessarar er áætlað að þurfi 300000 kr. og farið fram á 150000 kr. framlag úr ríkissjóði og enn fremur að ríkið ábyrgist allverulegt lán handa hreppnum í þessu skyni. Það er eitt atriði, sem mér finnst vanta í almenna frv. um hafnargerð og lendingarbætur, sem ég býst við, að Bakkafjörður verði settur inn í, en það er, að hafnarsjóðum smábæja sé leyfilegt að taka hafnargjöld strax eftir að hafizt er handa um hafnargerðina. Það getur verið mikils virði að fá einhverjar tekjur, þó að höfnin sé ekki fullgerð, því að víðast verður að taka slíkar framkvæmdir í mörgum áföngum. Þetta vil ég biðja sjútvn. að athuga.

Ég óska, að málinu verið vísað til 2. umr. og sjútvn. að þessari umr. lokinni.