08.03.1946
Sameinað þing: 32. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (4317)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Það er ekkert spursmál um byggingu útvarpshallar í Reykjavík, því að slíkt var samþ. með síðustu fjárl., og er ég síðasta ræðumanni ósammála um það, að slík bygging sé ekki nauðsynleg. Hitt er svo annað mál, hvenær eigi að byrja á þessum framkvæmdum, og geri ég ekki ráð fyrir, að það verði í sumar, en nauðsyn slíkrar framkvæmdar fyrir útvarpið og landsmenn er augljós. Ríkisstj. hefur ákveðið að byggja útvarpshöll í Reykjavík og hv. Alþ. hefur staðfest það með fjárl., því að þar er ákveðið að verja rúml. 1 millj. kr. í þessu skyni og enn fremur gert ráð fyrir þessum afnotagjöldum, og því verður ekki breytt með samþ. neinnar þáltill. Mér er því aðeins mögulegt að framkvæma efni þessarar þáltill., að ég hafi vissu fyrir því, að Alþ. muni veita þetta fé, sem ætlazt er til, að verði náð með hækkuðum afnotagjöldum, sem framlag úr ríkissjóði.