28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (4352)

161. mál, samgöngubætur í Barðastrandarsýslu

Gísli Jónsson:

Ég þakka meiri hl. allshn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég get fellt mig við þær breyt., sem meiri hl. leggur til á þskj. 596. Ég sé, að með nál. fylgir bréf frá vegamálastjóra í sambandi við þetta mál. Ég skal ekki nákvæmlega fara út í þetta bréf eða þær tölur, sem þar standa. Í upphafi bréfsins stendur að þjóðvegir séu 225 km að lengd og þar af helmingur akfær. En þetta er ekki rétt. Það eru engir 110 km akfærir vegir í sýslunni. Ég vil ekki eyða tíma til að færa rök fyrir þessu, en vil aðeins benda á, að það eru fáar leiðir, sem hægt er að telja akfærar, þar sem, þegar vegir eru beztir, ekki er hægt að komast eftir þeim nema á sérstökum bílum. Enda er fjvn. kunnugt um það, að þegar rætt var um vegamál í n. á s. l. ári, þá lagði vegamálastjóri fram till. um það, að samgöngumálin í Barðastrandarsýslu skyldu leyst með sérstökum bílum, sem gætu farið yfir þau foræði, sem þar væru. Aðrir bílar komast ekki þær leiðir yfirleitt. Hins vegar gat ég ekki sem þm. sýslunnar fellt mig við úrskurð vegamálastjóra. Ég veit, að hv. meðnm. mínum, sem sitja hér, er kunnugt um, að ég fer með rétt mál. Ef vegamálastjóri telur þetta akfæra bílvegi, fæ ég skilið bréf hans.

Annars skal ég snúa mér að till. minni hl., sem er á þskj. 603, Ég get með engu móti fallizt á þá afgreiðslu málsins, sem þar er lagt til, vegna þess að þau rök, sem fram eru færð í nál. og af hv. þm. N.-M., eru algerlega röng. Það er rangt, að ekki standi sérstaklega á um þessa sýslu. Þetta er a. m. k. sú sýslan, sem stendur langsamlega fjærst því að vera sett í samband við vegakerfi landsins. Hv. þm. veit vel, að Barðastrandarsýsla stendur lengra frá þessu en nokkur önnur sýsla. Um austurhluta sýslunnar er kominn vegur, ef veg skyldi kalla, svo að hún er að nokkru leyti sett í samband við vegakerfi landsins. Það eru 2 hreppar, en 9 hreppar eru algerlega vegasambandslausir. (BÁ: Er ekki eins með N.-Ísafjarðarsýslu?). N.-Ísafjarðarsýsla er að fá vegasamband yfir Þorskafjarðarheiði. En mér er kunnugt um, að hún þarf vegasamband við Ísafjörð, og það er ákveðið. En þetta er líka eina sýslan á landinu. V.-Ísafjarðarsýsla hefur verið sett í samband þannig, að til Ísafjarðar má fara með bíl frá Þingeyri. Og það er ekki sambærilegt, hvað miklu betri verða bílasamgöngur þar en í Barðastrandarsýslu. Auk þess vil ég geta þess, að þarna var tekin upp bryggjugerð í þjóðvegatölu. Ég er ekki að benda á þetta af því, að það sé ranglátt, það sýnir aðeins, hvað Alþ. vildi gera fyrir sýsluna vegna aðstöðu hennar.

Hv. 2. þm. N.-M. viðurkenndi, að Patreksfjörður væri nr. eitt af 6 þorpum, sem ekki væru komin í vegasamband. Það er viðurkennt, að mikil og aðkallandi nauðsyn er á því að koma Patreksfirði í samband við landbúnaðarframleiðsluhéruð. Og það vita vel bæði hv. þm. Mýr. og 2. þm. N.-M., að miklir möguleikar eru á því að reka stórbú á Rauðasandi. En það hefur ekki fengizt enn að setja þennan veg í þjóðvegatölu. Það er viðurkennt af vegamálastjóra, að það er útilokað að komast þarna um, nema með sérstöku tæki. Það er réttara að verja fé til að rannsaka vegarstæði milli Rauðasands og Patreksfjarðar en að kasta fé til að bæta þennan veg. Það er eins með veginn frá Bíldudal og upp Hálfdán, það er ekki hægt að hafa hann fyrir bílveg. Þetta er nú vegagerðin sem gerð hefur verið í þessari sýslu. Hins vegar er enn meir áríðandi að koma Patreksfirði í samband við Brjánslæk, því að það er eina leiðin til að koma Vestur-Barðastrandarsýslu í sambandi við hið almenna vegakerfi landsins. En þá þarf að athuga, hvort heldur skuli fara á ferju yfir Breiðafjörð eða velja aðra leið. Þetta er eitt af því, sem n. á að athuga. Þarna eru tveir möguleikar, annar að kosta til dýrrar ferju frá Brjánslæk tvisvar í viku yfir Breiðafjörð eða fara með veginn í Hjarðarnes og fara svo með ferju yfir á Múlanes, en það er stutt leið, og síðan gegnum byggðina með bílveg. Þetta þarf að rannsaka. Gufudalssveitin og Kollafjörðurinn eru svo blómlegar sveitir, að ekki hefur enn tekizt að leggja þær í eyði. Þótt á Patreksfirði búi ekki nema á níunda hundrað manns, sem hefur miklu meiri útflutning á hvert höfuð en nokkur staður annar á landinu og greiðir því meira í ríkissjóð en aðrir staðir, þá er jafnmikil nauðsyn að afla börnum þess staðar mjólkur og jafnmörgum börnum í Reykjavík. Ég sé ekki, að frekar eigi að ala upp 300–400 börn með beinkröm á Patreksfirði en annars staðar. Og það hvílir ábyrgð á Alþ. að hafa neitað börnum Patreksfjarðar um þessa vöru. Og nú er hv. 2. þm. N.-M. að leggja stein í götu þess, að börnin á Patreksfirði fái sams konar næringu og önnur börn á landinu. Í þessu sambandi vil ég benda á, að ég veit ekki betur en mjög vel akfær sumarvegur sé milli Héraðsins og Seyðisfjarðar. Ég veit ekki betur en búið sé að eyða hundruð þús. kr. til að leggja nýjan veg yfir Fjarðarheiði. En neitað hefur verið að leggja veg yfir Kleifaheiði, svo að hægt væri að leysa þetta mál. Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að Bíldudalur væri í flokki nr. 2 í þessu efni: Ég vildi, að hv. þm. vildi benda á, hvaða þorp standa verr að vígi en Bíldudalur, sem ekki hefur einn einasta akfæran km. út frá sér. Þar býr þó fjöldi manna, sem borga til ríkissjóðs meira en margir aðrir.

Ég vil vænta þess, að hv. þm. láti ekki glepjast af þeim falsrökum, sem koma frá minni hl. í þessu máli. Það mun margborga sig fyrir ríkissjóð, að þessi mál yrðu rannsökuð eins og farið er fram á, að gert sé, og það skipulagt, hvernig eigi að leysa þessi mál. Það er ekki eingöngu vegasambandið, sem þarf að leysa, heldur eigi síður mjólkurspursmálið á þessum stöðum. En það, hvort bændur á þessum slóðum geta unnið þarna og lifað eða eiga að flosna upp, telur hv. 2. þm. N.-M. aukaatriði.

Ég mótmæli því, að þessi n. þurfi að kosta mikið fé. Ég hef rætt við vegamálastjóra um þetta og hann telur, að hann geti látið rannsaka þetta að miklu leyti í skrifstofu sinni í Reykjavík. En svo er það samkomulagsatriði, hvaða leið yrði valin, hvort hér skuli koma upp ferju yfir Breiðafjörð eða fara þá leið, sem ég minntist á. Ég held, að kostnaðurinn þurfi ekki að vaxa neinum í augum.

Hv. þm. minntist á línuritið. Ég skal upplýsa það, að ég hef margspurt um þetta atriði, meðan fyrrv. samgmrh. (Vilhj. Þór) sat í stjórn. Hann marglofaði, að þetta yrði gert. Ég hef einnig spurt núv. samgmrh., og hann hefur einnig lofað, að þetta yrði framkvæmt. En mér skilst það strandi allt á framkvæmd hjá vegamálastjóra. Ég hef margspurt vegamálastjóra, en hann hefur ekki gefið neitt ákveðið svar um þetta. Ég harma það mjög, að þetta línurit skuli ekki liggja á borðinu, því að ég veit, að þá mundi jafnvel ekki hv. 2. þm. N.-M. neita því, að Barðastrandarsýsla er langverst sett í vegamálum af öllum sýslum á landinu, og leyfir hv. þm. sér þó margt og verður ekki flökurt af öllu.

Ég vil þá ljúka máli mínu með því að þakka meiri hl. n. fyrir afgreiðsluna og vona, að hv. þm. afgreiði till. eins og fram kemur í nál. á þskj. 596