24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (4374)

210. mál, herstöðvamálið

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Það situr sízt á hv. 2. þm. S.-M., þegar hann veit, að margir flokksmenn hans hafa á ný þotið á fundarhöld út um byggðir landsins, að vera hér með stóryrði og halda því svo fram, að ekki sé hægt að fá atkvgr. vegna forfalla þessara þm. og það á allra seinustu dögunum, þegar menn hafa setið hér dag og nótt, og þegar svo það er athugað, að hv. þm. sjálfur hefur gengið um eins og beiningamaður til að fá frestun atkvgr. vegna þessara flokksmanna. Það situr illa á honum að vera með fúkyrði til hæstv. forseta, sem þegar hefur skýrt frá því, hvers vegna þessi till., sem seint er lögð fram, hefur ekki verið tekin til umr. — Það er leitt, að þessi hv. þm. skuli ekki hafa áttað sig á því fyrr en nú, að málið hefur verið í mínum höndum. En það færir hann nú sem afsökun fyrir svikunum. Það hefur ekki runnið upp fyrir honum fyrr, að það færi svona bágborinn maður með málið. Það var gott, að hann vaknaði áður en kosningar fóru fram. Hér sjáum við aðeins Framsfl. undir hinni nýju forustu. Það skiptir litlu máli, hvaða vopnum er beitt, tilgangurinn helgar meðalið. En ég skal lofa hv. þm. því, að áður en lýkur nösum í þessu máli, skal ég víst leiða í ljós, hvernig hann og hans flokkur hefur komið fram í málinu. Og ég er ekki viss um, að hann verði þá eins upplitsdjarfur og hann var áðan, þegar hann talaði um málið af ótrúlega litlum kunnugleika, þar sem hann ruglaði saman í allri ræðu sinni tveim óskyldum atriðum, sem ég skal betur gera grein fyrir áður en lokið er umr. um þetta mál og áður en Alþ. lýkur.