29.04.1946
Sameinað þing: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (4388)

210. mál, herstöðvamálið

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil segja það, að úr því að nú hefur verið gefin skýrsla um þetta mál, þá er sjálfsagt, að nú komi afstaða flokkanna í ljós.

Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að margir fundir voru haldnir um þetta mál. Á öllum fundunum óskaði Sósíalistaflokkurinn þess, að svarið yrði afdráttarlaust nei og að það yrði tekið fram, að Íslendingar vildu ekki leigja herstöðvar og þýddi ekki að ræða slíkt á neinn hátt. Þetta var afstaða sósíalista fund eftir fund. Hinir flokkarnir vildu aftur á móti ekki fallast á þetta. Þann 5. nóv. s. l. á fundi leggur svo hæstv. forsrh. fram uppkast að bréfi, svarbréfi, fyrir flokkana og óskar þess, að flokkarnir láti í ljós afstöðu sína. Fyrst talar þá fulltrúi Alþfl., honum var fyrst gefið orðið, og er mér nær að halda vegna þess, að hann, Alþfl., var fyrstur í stafrófsröðinni. Svar Alþfl. var það, að hann féllist á uppkastið sem svar, með þeim skilningi, að neitað væri um herstöðvar til langs tíma. Sósfl. fékk síðar orðið. Fulltrúi flokksins tók fram: Í fyrsta lagi, að með þeim skilningi, sem Alþfl. féllst á bréfuppkastið, þ. e. að í því felist skýlaus neitun við málaleituninni frá 1. okt., þá geti Sósfl. fallizt á það, og svo í öðru lagi, að við tökum það enn einu sinni fram, að við óskuðum eftir því, að það kæmi skýrt fram í svarinu alger neitun um herstöðvar í hvaða mynd sem væri og síðasta málsgr., um viðræður við Bandaríkin um öryggismál, falli burt. Framsfl. fékkst ekki til þess að taka afstöðu til málsins og hafnaði að gera tillögu í málinu, en lýsti sig andvígan því svari, sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um. Það var því ekki hægt að fá samstarfsflokka okkar til þess að fallast á þá kröfu okkar, að svarið yrði blátt áfram nei að Íslendingar væru blátt áfram ekki til viðræðu um slíka hluti. Nú er þetta að vísu þýðingarlaust, og það skiptir ekki svo miklu máli um fortíðina. Vel má vera, að enn þá sé ekki búið að bita úr nálinni, enda þótt Bandaríkin hafi fallizt á að stöðva málið í bili. Því er þetta enn vandasamara, sem hv. alþm. verða að gera upp við sig. Mig stingur afstaða flokkanna í þessu máli, og vil ég, að þeir gefi skýrar yfirlýsingar í þessu máli.

Ég skal ekki og vil ekki deila við hv. 4. þm. Reykv. og Alþfl. En ég vil, að þessi hv. þm. gefi fyrir hönd síns flokks skýra yfirlýsingu um það, hvort hann og flokkur hans vilji leigja hér herstöðvar til lengri eða skemmri tíma eða ekki. Vill hv. 4. þm. Reykv. gefa slíka yfirlýsingu eða ekki ?