22.10.1945
Neðri deild: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (4406)

37. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég hefði nú átt von á því, að það mundu koma fram óskir um breyt. á 1. um tekjuskatt og eignarskatt frá hæstv. ríkisstj. Það er vitað, að þeir ráðh., sem í stj. eru, og þeir flokkar, sem að henni standa, eru óánægðir með ýmis ákvæði í þeim 1. sem hér um ræðir. Ég hafði þess vegna haldið, að einmitt þessi óánægja mundi leiða til þess, að þeir mundu bræða sig saman um frv. um breyt á ýmsu, sem þarf að laga í þessum l. Þetta hefur nú ekki orðið. Þau hafa staðið óbreytt nú um skeið, og eru í þeim ýmis ákvæði, sem menn eru mjög óánægðir með. Eitt af þeim ákvæðum er það, að þeim mönnum sem stunda útgerð, einstaklingum og hlutafélögum, er heimilt að draga frá tekjum sínum 1/3 hluta og leggja, í varasjóð og nýbyggingarsjóð, og þurfa þeir ekki að greiða skatt af þeirri upphæð, sem þannig er lögð til hliðar. Til þess að þetta sé hægt, þurfa þeir að hafa alla reikninga og bókfærslu, í lagi. en ef það er ekki, njóta menn ekki þessara fríðinda. Á sama hátt hefur almennum hlutafélögum verið leyft að leggja 1/5 af tekjum sínum í varasjóð, án þess að borga skatt af þeirri upphæð til þess að tryggja rekstur félagsins, eins og það er kallað. En þetta er einnig bundið því skilyrði, að reikningshaldið sé þannig, að ekki leiki vafi á því, hvernig sjóðurinn standi á hverjum tíma. Þegar þetta var sett í 1., var á sama hátt eðlilegt, að bændum landsins væri leyft að leggja eitthvert fé til hliðar til tryggingar sínum rekstri, en á móti því voru færð þau rök, að þeir gætu ekki eins og hinir aðilarnir lagt fram neina reikninga um sjóði og um tekjur sínar, og vegna þess var ekki þá horfið að því ráði að láta bændur fá þessi sömu fríðindi. Hins vegar líta allir bændur svo á, og allir sanngjarnir menn, að ekki þurfi síður að tryggja rekstur þeirra en ýmissa af hinum almennu hlutafélögum, svo að ekki sé meira sagt, og líklega mundu flestir vera sammála um það, að miklu meiri þörf sé á að tryggja áframhaldandi rekstur bændastéttarinnar í landinu en t. d. hlutafélags, sem á hús hér í Reykjavík og leigir út og fær 1/5 af tekjum sínum skattfrjálsan. En það strandaði á því, að það var ekki talið fært að láta bændur á sama hátt leggja fram löggilda, endurskoðaða reikninga, svo að hægt væri að tryggja, hvað mikið væri í varasjóði, eins og hægt er reikningslega hjá útgerðarfélögum og almennum hlutafélögum. Bændur eru hins vegar óánægðir með þetta, og margir þeirra fá ekki skilið, hvað skattalöggjöfin sá liggja til grundvallar fyrir því, að ekki væri hægt að hafa reikninga í sama lagi hjá þeim og hinum. — Þegar rætt hefur verið um þetta við bændur, hafa þeir stungið upp á því, að í staðinn fyrir að leggja fé til hliðar í sjóð, sem enginn skattur greiðist af, þá sé þeim á sama hátt leyfilegt að verja af hinum árlegu tekjum sínum, sem alltaf liggur fyrir, hvað eru miklar, til umbóta á ábúðarjörð sinni. Bændum ber öllum saman um það, að umbætur á jörðinni sé hin allra bezta trygging, sem hægt er að gera til þess, að búskapur þeirra gangi í framtíðinni, og að það sé í raun og veru betri trygging en þótt þeir leggi fé til hliðar í sjóð, því að umbætur á jörðinni er sá tryggingarsjóður, sem gefur bæði bornum og óbornum arð. Á móti þessum óskum bænda er nú gengið með þessari breyt. á l., þar sem gert er ráð fyrir því, að þeir fái að leggja til hliðar skattfrjálsan hluta af tekjum sínum, til umbóta á jörð sinni til tryggingar rekstrinum eins og almennu hlutafélögin, sem leggja fé til hliðar í varasjóð til þess að tryggja rekstur sinn.

Hvernig sem á þetta er litið, þá er það sjálfsagt sanngirnismál. Þetta fé er ekki hægt að ávaxta betur en leggja það í umbætur á jörðinni. Séu menn hræddir um, að þetta verði misnotað, þá mætti á margan hátt koma í veg fyrir slíkt. — Ég vil svo óska þess, að málið fari til fjhn., því að þar mun það eiga heima, þótt það sé landbúnaðarmál, og vil ég vænta, að það fái fljóta afgreiðslu.