26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (4497)

50. mál, ríkisborgararéttur

Bjarni Benediktsson:

Hann er ekki sterkur málstaðurinn hjá hæstv. forseta. Varð vart hjá honum bæði rökskekkja og mótsagna. Málið liggur svo fyrir, að sumt fólkið á eigi annarra kosta völ en annaðhvort að hverfa aftur til heimalands síns ellegar vera hér áfram um kyrrt. Hins vegar sagði hæstv. forseti, að hendi væri næst, ef yfirlýsingar lægju fyrir um, að einhverjir ætluðu ekki að nota ríkisborgararétt sinn á eðlilegan hátt, heldur til þess að komast utan, að neita þeim hinum sömu þá um hann. En einn umsækjanda kom einmitt til mín í fyrra, af því að ég var þá form. allshn., og lýsti þessu beinlínis yfir við mig, enda kom ekki í öðrum erindagerðum. Hæstv. forseti hlustaði á þetta samtal, og þykir mér fjandi hart aðgöngu, ef hann vænir mig um að fara með rangt mál. Hann tók einmitt téðan aðila upp í brtt. sínar, og kom ekki fram hjá honum, að hann teldi það nokkru máli skipta, hvernig háttað væri afstöðu aðilanna til veitingarinnar almennt séð. — Hæstv. forseti lítur á málið frá allt öðru sjónarmiði en ég.