28.11.1945
Sameinað þing: 10. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (4632)

48. mál, hlutleysi útvarpsins

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra, hvað menn eru sammála um, að útvarpið eigi að vera hlutlaust. En eins og hæstv. kennslumálaráðherra gat um, þá er eftirlit þessarar stofnunar í höndum tveggja aðila. Segja má, að vald það, sem útvarpsráð hefur, sé í höndum Alþingis, þar sem það er kosið af Alþingi. Nú hefur það komið í ljós, að menn hafa yfirleitt ekkert að setja út á starfsemi útvarpsráðs, heldur hefur starfsemi þess sætt almennri ánægju. Hins vegar hefur nokkur óánægja orðið út af starfsemi fréttastofunnar, en stjórn hennar er í höndum útvarpsstjóra og menntmrh. Þar sem nú hefur komið fram, að fréttastofan og útvarpsstjóri hafa sætt nokkurri gagnrýni, lít ég svo á, að þessum málum væri bezt skipað á þann hátt, að fréttastofan væri einnig lögð undir útvarpsráð. Og þar sem hæstv. menntmrh. hefur með mörgum orðum lýst sínum einlæga og góða vilja í því að leysa þetta mál og tryggja hlutleysi útvarpsins, vil ég beina því til n., hvort ekki væri rétt að fela útvarpsráði stjórn þessarar stofnunar, þar sem það virðist rétt mynd af vilja þjóðarinnar. Vona ég, að hæstv. menntmrh. beiti sér fyrir þessu.