05.12.1945
Sameinað þing: 11. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (4638)

48. mál, hlutleysi útvarpsins

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Mér þykir ákaflega leiðinlegt að þurfa að ræða þetta mál við hv. 6. þm. Reykv. (BBen), ákaflega leiðinlegt. Ég veit, að þetta er greindur og gegn maður, en svo talar hann alveg eins og krakki. Maðurinn er í sjúklegu ástandi þegar hann talar um Sovétríkin, enda var það sýnilegt, að hann var í sjúklegu ástandi þegar hann hlustaði á ræðu Björns Franzsonar. Nú skil ég, hvernig á þessum samþykktum stendur, sem þessi hv. þm. hefur staðið fyrir. Mér þykir þetta ákaflega leiðinlegt þessa hv. þm. vegna, sem ég að ýmsu leyti ber mikla virðingu fyrir. Þessi hv. þm. byrjaði ósköp rólega og gagnrýndi nokkur atriði í ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl). Hann sagði, að okkar flokkur, Sósfl., héldi því fram, að í höfuðatriðum væri flokkaskiptingin í öllum löndum hin sama. Þetta er rétt. Við höldum því fram, að flokkaskiptingin fari eftir stéttaskiptingu landsins, en stéttaskiptingin fer eftir þróunarstöðu hvers lands. Þetta er nú einmitt nákvæmlega það sem hv. 2. þm. Reykv. var að segja. En athugasemd hv. 6. þm. Reykv. sýnir í raun og veru ekki annað en það, hvað hv. þm. skilur nauðalítið í þessum málum.

Þá sagði hv. þm., að hann væri ekki á móti fréttum frá Moskva, en taldi, að þær væru gallaðar og skýrðu ekki frá staðreyndum. Þarna kemur ofheyrnin í ljós, þegar Moskva er nefnd, og ber það greinilega vott um móðursýki. Fréttir frá Moskva eru ekkert annað en frásögn frá staðreyndum. En þegar sagt er í brezkum fréttum, að kosningarnar í Búlgaríu hafi ekki verið frjálsar, þá eru það staðreyndir í eyrum hv. þm. Ég veit raunar ekki til, að það hafi verið sagt í brezkum útvarpsfréttum, en það hefur verið sagt í afturhaldssömum blöðum bæði í Bretlandi og Ameríku, en frá sjónarmiði þessa hv. þm. eru það staðreyndir, því að hann vill trúa því, og nú sé ég, að hann trúir því yfirleitt, sem stendur í Morgunblaðinu. Hann trúir því t. d., að fréttaritari geti ekki sent sannar fréttir frá Rússlandi. Ég hélt, að hv. þm. væri ekki . . . (BBen: Ekki sagði ég þetta, en hitt sagði ég, að þeir fengju ekki að fara um Rússland frjálsir). Ég hef tekið eftir því, að þetta stendur líka í Morgunblaðinu, en þetta er þó mikil fjarstæða, en ég heyri, að hv. þm. trúir því samt. (BBen: Hvað segir hv. 2. þm. Reykv. um það? — EOl: Hvort menn megi fara frjálsir ferða sinna? Við máttum fara frjálsir ferða okkar og bróðir hv. þm. líka).

Hvað meinar hv. þm. með hlutleysi, t. d. um Rússland? Maður heyrir á ræðum hans, að hann meinar ekkert annað en að frásagnir frá Rússlandi eigi að vera í Morgunblaðsstíl. — Hann rangfærir orð mín er hann segir, að ég hafi sagt, að enginn hafi gert annað en hlæja að ádeilunum á Björn Franzson. Þeir voru því miður margir, sem deildu á Björn, og það er skiljanlegt, því að þeir eru margir, sem eru blindaðir af áróðri Morgunblaðsins. En hitt sagði ég, að það hafi ekki verið nema einn meðlimur í útvarpsráði, sem hafði brjóstheilindi í sér til að halda því fram, að í fyrra erindi Björns hafi verið hlutdrægni, og það er rétt. Hvaða sakir hefur svo hv. þm. á Björn? Engar. Þær „sakir“ voru á hann bornar, að hann hafi vitnað í rússneskan blaðamann, sem er mjög þekktur og skrifar oft í blaðið Nýir tímar, sem mjög mikið er vitnað til í öðrum blöðum víðs vegar um heim. Og enn fremur er því haldið fram af hv. þm., að hann hafi talað frá eigin brjósti um Ráðstjórnarríkin. Hann hafði sem sagt leyft sér það, sem mönnum getur stundum orðið á, að tala frá eigin brjósti. Hvað var það svo, sem Björn Franzson hafði í ræðu sinni talað frá eigin brjósti? Jú, hann skýrði nokkur atriði í stjórnarskrá Sovétríkjanna. Nú, og þar með heldur hv. þm. því fram, að Björn hafi sagt í þessu erindi sínu, að enginn mætti tala, enginn mætti skrifa og enginn mætti halda fund í Ráðstjórnarríkjunum, nema kommúnistar. „Það kann að vera, að hann hafi ekki notað þessi orð, en hann skýrði frá þessu,“ sagði hv. þm. Ef Björn hefði sagt þetta, þá ætti hann ekki skilið að vera látinn flytja þessi erindi frá útlöndum. Ef hann hefði borið fram slíka fjarstæðu, hefði slíkt verið alveg ófyrirgefanlegt, en hann sagði ekkert því líkt, — fjarri því. Það hafa allir málfrelsi í Rússlandi, undantekningarlaust, og miklu meira fundafrelsi en hér í Reykjavík. (BBen: Þjóðviljinn segir hið gagnstæða). Það er ekki satt. Það er ekki aðeins, að þm. þjáist af ofheyrn, heldur sér hann líka ofsjónir. Það er ekki nóg, að hann geti ekki hlustað á útvarp, heldur er hann líka blindaður þegar hann tekur Þjóðviljann og les grein um Ráðstjórnarríkin. Það hefur aldrei staðið í Þjóðviljanum, að enginn mætti tala eða halda fundi í Ráðstjórnarríkjunum nema kommúnistar. Það er alveg þvert á móti. Það er meira fundafrelsi í Ráðstjórnarríkjunum en hér í Reykjavík, á Íslandi, eins og þar er meira og fullkomnara lýðræði en hér, þó að Ísland sé að ýmsu leyti í fremstu röð borgaralegra ríkja hvað það snertir. Það felst meðal annars í því, að menn hafa jafnan möguleika til að fá fundahús, meiri möguleika en hér. T. d. er Sjálfstfl. nú að gera ráðstafanir til þess, að Sósfl. geti ekki fengið húsnæði við bæjarstjórnarkosningarnár. Þetta mætti bera saman við lýðræðið í Búlgaríu, en hv. þm. heldur því fram, að þar hafi kosningarnar ekki verið frjálsar, þar sem ríkisstj. hafði gert ráðstafanir til þess, að allir flokkar gætu haft jöfn afnot af húsnæði. (BBen: Hvers vegna er ekki nema einn flokkur í Ráðstjórnarríkjunum ?) Það getur hver sem er, hvaða hópur manna sem er boðið fram í Ráðstjórnarríkjunum, en það er ekki rúm fyrir skoðanabræður hv. þm., vegna þess, að ef þeir færu að bjóða fram, þá væri það alveg vonlaust. (BBen: Af hverju má ekki reyna það?) Af því að það eru ekki til þeir menn í Ráðstjórnarríkjunum, sem kysu þann flokk, og þess vegna hefur starfsemi þeirra af eðlilegum ástæðum verið í því fólgin að vinna skemmdarverk, svo sem að sprengja upp járnbrautir. (BBen: Gera þeir það hér?) Hver er að tala um ástandið á Íslandi? (BBen: Eru þetta ekki flokksbræður mínir? Er það þessi flokkur, sem þessi hv. þm. ber fyrir brjósti? (BBen: Hvaða flokkur er það þá? Er þetta ekki borgaralegur flokkur, flokkur auðvaldsins í Ráðstjórnarríkjunum? Hvaða flokkur er það þá?) Jú, þessi flokkur hefur gerzt samsærisflokkur. Það eru menn, sem hafa ekki notað sömu aðferðir og lýðræðisflokkar, heldur hafa þeir skipulagt sig sem samsærisflokk. Þeir hafa ekkert fylgi innan Ráðstjórnarríkjanna og geta því ekki boðið fram. (BBen: Það má reyna). Þeirra starf er fólgið í skemmdarverkastarfsemi. Þeir hafa skipulagt morð, eyðilagt vélar og verksmiðjur og eitrað matvæli. (BBen: Kommúnistar gera þetta við félaga sína). Skilur ekki hv. þm., að þetta er bannað. Önnur flokkastarfsemi er ekki bönnuð, en innan Ráðstjórnarríkjanna er ekki til grundvöllur fyrir þessa flokka lengur. Hins vegar hafa öll samtök, sem starfa á löglegum grundvelli, frelsi til hvaða athafna sem vera skal. Þau hafa fullt málfrelsi, prentfrelsi og fullt frelsi til að hafa menn í kjöri. (BBen: Allir nema flokksbræður mínir). Ég veit ekki, hvaða menn hv. þm. á við, sem hann kvartar um, að hafi ekki frelsi. Eða telur hann t. d. þá menn flokksbræður sína, sem ég gat um, — að væru í samsærisflokkum? Ef Sjálfstfl. einhvern tíma tekur upp sömu starfsaðferð og þeir flokkar í Rússlandi, sem hv. þm. ber svo mjög fyrir brjósti, þá verður hann líka bannaður, ef valdið er raunverulega í höndum íslenzku þjóðarinnar. Það er sýnilegt, að hv. þm. er haldinn ofheyrn þegar hann hlustar á frásögn um Rússland. Maðurinn er ekki andlega heilbrigður þegar hann er í þessu ástandi, það er eina skýringin á þessu tali. Hann er haldinn þeim sjúkdómi, sem virðist nokkuð algengur hjá íslenzku borgaraflokkunum, miklu algengari en í flestum öðrum löndum og er ein tegund af móðursýki. (BBen: Það er þá meiri hluti íslenzku þjóðarinnar, sem er sjúkur). Ég skil ekki, að meiri hluti íslenzku þjóðarinnar hafi sömu skoðun og þessi hv. þm. eða geti orðið sér eins til skammar og hann. (JJ: Hann er þó nógu mikið með stjórninni.) Ef annars ætti að prófa sálarástand íslenzku þjóðarinnar t. d. með því að láta menn halda erindi um þessi mál, þá þætti mér ólíklegt, að það mundi ekki vera meiri hluti íslenzku þjóðarinnar, sem stæðist prófið betur en þessi hv. þm. Þeir eru t. d., sem betur fer, ekki ákaflega margir meðal forustumanna Sjálfstfl., sem eru jafnilla haldnir og hann, þessi hv. þm., í þessu efni.

Það er kannske rétt að koma ofurlítið inn á það, sem um þetta mál var rætt hér síðast. Hv. 6. þm. Reykv. var þá að grípa fram í fyrir mér og sagði, að ég hafi haldið því fram, að Finnlandsæsingin hafi verið orsök þeirra uppsagna, sem urðu hjá útvarpinu á árunum 1939 og 1940. Ég hef aldrei haldið því fram, að þessar uppsagnir hafi verið afleiðingar af æsingunum í Finnlandsstríðinu, en ég tók það fram, að fyrstu tildrögin að þessum aðgerðum hafi verið kröfur hv. þm. S.-Þ. (JJ), sem höfðu verið bornar fram af miklu offorsi eftir að þjóðstjórnin var mynduð árið 1939. Síðan rak hver aðgerðin aðra af hálfu stjórnarvaldanna, ríkisstj. og Alþ., þar á meðal uppsagnir starfsmanna 1939 og aftur 1940. Það skiptir ekki höfuðmáli, í hvaða röð þessir atburðir gerðust, því að allar þessar aðgerðir stöfuðu af sameiginlegri ástæðu og höfðu einn og sama tilgang, að gera útvarpið að áróðurstæki þeirrar stjórnarstefnu, sem þá var, gegn stjórnarandstöðunni. Hámarki náði þessi misnotkun útvarpsins í Finnagaldrinum, hinni fáránlegu áróðursherferð, bæði á erlendum og innlendum vettvangi, sem lengi mun minnzt verða. En tilefni hennar var finnsk-rússneska stríðið. Og af því að þetta allt er nokkuð fróðlegt, þykir mér rétt að rekja atburðina nokkru nánar. (BBen: Bara að það verði réttara en síðast). Það verður nákvæmlega jafnrétt og síðast. (JJ: Það var tvímælalaust allt vitlaust.) Hvað var rangt? (BBen: Um dagsetninguna þegar uppsögnin fór fram). Það fór fram uppsögn bæði 1939 og 1940. Hv. þm. (BBen) var alltaf að grípa fram í fyrir mér, og hafði ég nefnt skakkt ártal — síðara ártalið, 1940 — af því að ég vissi ekki vel, hvað þm. átti við, en ég leiðrétti það undir eins og ég vissi, hvað um var spurt, svo að það fór ekki á milli mála. (BBen: Þetta er hallur málstaður). Það er hallur málstaður, þegar menn eru svo langt leiddir, að þeir reyna að nota gegn andstæðingnum, að honum hafi orðið mismæli eða misskilið framítöku, en leiðrétt þó samstundis. Ég sagði hv. þm. rétt til um ártalið, og ég held líka, að ég hafi nefnt mánaðardaginn, þegar þessi uppsögn fór fram, sem hann átti við. En annars er þessi bardagaaðferð þessa hv. þm. nokkuð algeng hér á landi, þegar menn hafa hallan málstað. Hann byrjar á því að snúa út úr. Og á þessum útúrsnúningi byggir hann svo ræðu sína, dregur sínar ályktanir og svo fellur allt um sjálft sig, þegar það er leiðrétt.

Kunnur íslenzkur rithöfundur hefur haldið því fram, að slíkur ritháttur tíðkist mjög meðal sumra íslenzkra blaðamanna. Hann lýsir því á þessa leið : Fyrst er snúið út úr. Síðan eru andstæðingarnir á grundvelli þess útúrsnúnings kallaðir idjótar eða hundar. — Þetta telur rithöfundur, að stafi af því, að menn með barnalegt sálarlíf veljist að blöðunum. Og eftir tilvitnunum í orð hv. þm. væri hægt að ímynda sér, að menn með barnalegt sálarlíf veldust einkum til setu á Alþ.

Þá vildi ég segja nokkur orð um það, sem er aðaltill. hv. 6. þm. Reykv., sem er á þá leið að setja fréttastofuna undir stjórn útvarpsráðs. Hv. þm. hlýtur að vera það ljóst, að með því væri samningur stjórnarflokkanna rofinn hvað starfssvið og verkaskiptingu ráðh. snertir. Honum hlýtur að hafa verið það ljóst, þegar hann bar þetta síðast fram, að ef slíkur háttur yrði upp tekinn, þá gæti hvaða flokkur sem er tekið ákveðna starfsgrein undan ráðh. samstarfsflokksins, ef hann hefur atkvæðamagn með stjórnarandstöðunni til þess að fá l. samþ. á Alþ. um það. Það er auðskilið, að með því væri allt samkomulag stjórnarinnar gert að engu. En svo er hitt ekki minna atriði, að slíkt fyrirkomulag er undir öllum kringumstæðum óhæft. Það yrðu skrýtin vinnubrögð, ef 5 manna n., skipuð fulltrúum andstæðra pólitískra flokka, ætti að skipta sér af daglegri fréttastarfsemi útvarpsins. Slík till. hefur raunar áður verið sýnd á Alþ. Það var árið 1937, og till. var flutt af þm. Sjálfstfl. En það er fróðlegt að heyra skoðanir þm.

Framsfl. og Alþfl. um málið þá. Þá sagði t. d. HG: „Ég álít ekki rétt, að útvarpsráðið ráði fréttaflutningnum. Hv. flm. talar um, að óánægja ríki með fréttaflutninginn, en mér er ekki kunnugt um það. Það hefur að vísu verið reynt að vekja slíka óánægju, en það hefur aftur fallið niður jafnharðan. Ég hef engar kvartanir fengið, og væri það ólíklegt, ef almenn óánægja ríkti, að ég hefði engar umkvartanir fengið.“ Þá sagði hv. 2. þm. S-M. (EystJ) : „Ég vil loks benda á, að enn hefur ekki verið minnzt neitt á aðalatriði þessa máls, hvernig hv. meðmælendur frv. hugsa sér að fá betri fréttaflutning með því að leggja hann undir útvarpsráð heldur en með því fyrirkomulagi, sem nú er. Þetta sýnir bezt, að það er rétt, sem ég sagði áðan, að frv. er borið fram í þeim tilgangi að fá tækifæri til þess að leysa frá skjóðunni. Ég hef ekki trú á, að það sé bót að því að leggja þetta undir útvarpsráð. Einstakur maður eins og útvarpsstjóri, sem ekki þarf að taka þátt í opinberum deilum, stendur miklu betur að vígi til þess að standa að hlutlausum fréttaflutningi, þar sem hann þarf ekki að taka tillit til neinna sérstakra umbjóðenda.“ Og enn fremur segir hv. þm.: „Gagnrýni hefur eingöngu verið beitt gegn útvarpserindunum, sem heyra undir útvarpsráð, sömu stofnunina sem frv. vill láta taka við umsjón fréttastarfseminnar. Gagnrýnendurnir hafa ekkert dæmi getað fært fram til stuðnings þeirri skoðun, að fréttaflutningur útvarpsins eins og hann er sé pólitískur. Samt vilja þeir koma fréttaflutningnum undir útvarpsráð, sem þeir leggja mest kapp á að sýna, að starfi pólitískt. Kennir hér óneitanlega nokkurrar mótsagnar.“ — Þessi rök eru enn í fullu gildi, en það, sem er aðalatriðið í þessu, er það, að þetta er óframkvæmanlegt. Hins vegar skal ég játa, að það getur komið til mála að skipa fréttastofustjóra, sem um leið væri dagskrárstjóri, er starfaði eftir fyrirmælum útvarpsstjóra og útvarpsráðs, eftir því sem lög standa til. Um slíka hluti sem þetta mætti ræða.

Þá kem ég að ræðu hv. þm. S.-Þ. (JJ). Þetta er einhver sú veikasta ræða frá sjónarmiði rökfræðinnar, sem ég hef heyrt. Allt, sem hv. ræðumaður staðhæfði í fyrri hluta ræðu sinnar, hrakti hann sjálfur í seinni partinum. Hann byrjar á því, að hann hafi aldrei skipt sér af ráðningu starfsmanna útvarpsins, en síðar harmar hann mjög, að útvarpsstjóri fór ekki að hans ráðum um mannaval, en hafi þess í stað ráðið kommúnista að útvarpinu. Hann kallar alla menn kommúnista, sem ekki eru á sömu skoðun og hann, og telur sýnilega, að ef t. d. er minnzt á Stalín í útvarpinu, eigi að taka það fram, að hann sé blóðhundur. (JJ: Ég vona, að honum líði vel í fríinu). Já, það vona ég líka. Það er auðheyrt á ræðu hv. þm., hvernig hann hugsar sér, að hlutleysis útvarpsins sé gætt. Þar er hv. þm. alveg á sama máli og hv. 6. þm. Reykv. Það á að vera eins og það var á Finnagaldurstímanum, það er það, sem þeir kalla hlutleysi. Hv. þm. S.-Þ. lýsti þessu nákvæmlega. Það á að vera þannig, að ef minnzt er á Ráðstjórnarríkin, þá á að segja: Þar er einræði og kúgun, þar er undirokun, stjórnendur þeirra eru blóðhundar. — Það var nákvæmlega þetta, sem hv. þm. sagði í ræðu sinni. Og hv. 6. þm. Reykv. sagði : Þar má enginn tala og enginn halda fundi, enginn skrifa í blöð nema hann sé kommúnisti. Svona á að skýra frá Ráðstjórnarríkjunum í útvarpinu, það er hlutleysi. En ég get sagt hv. þm. það, að meðan ég er yfirmaður stofnunarinnar mun ég gera það, sem ég get til þess að sjá um, að slíkt hlutleysi sé ekki iðkað í þeirri stofnun. Með öðrum orðum, þeir vilja að við högum okkur eins og við værum í styrjöld við Ráðstjórnarríkin. Ég skal ekki fara út í þessar hlutleysisskýringar hv. þm., þær eru ekki nema til skemmtunar. Það var margt broslegt, sem kom fram í ræðu hans, eins og þegar hann kallar það ádeilu af hendi Björns Franzsonar, að hann las upp, athugasemdalaust, ritstjórnargrein úr Alþýðublaðinu í útvarpið. Þetta kallar hv. þm. ádeilu, og er ég ekki frá því, að svo hafi verið, en Björn Franzson verður ekki um það sakaður.

Þá segir hv. þm. enn einu sinni, að hann hafi ekki gert till. um að koma neinum manni að í útvarpinu, þrátt fyrir það, sem hann hafði áður tekið fram í ræðu sinni, að gerður hafi verið um þetta nokkur skali, þar sem hann ber fram alveg ákveðnar till. um mannaráðningar við útvarpið.

Þá talaði hv. þm. um yfirlýsingu útvarpsstjóra í blöðunum, og hv. 6. þm. Reykv. endurtók það allt. Honum fannst þessi merkilega yfirlýsing, sem útvarpsstjóri hefur gefið, í mótsögn við það, sem ég hef hér sagt. Nú sagði ég ekkert hér nema það, sem stendur í útvarpsstjórabréfinu sjálfu. Ég gerði ekkert annað en að lesa upp bréf frá útvarpsstjóra, og ég sagði ekkert, sem brýtur í bága við það, sem hann segir í bréfinu. Þetta er því tóm ímyndun hjá hv. þingmönnum, þar fór ekkert á milli mála. Ég gerði ekkert annað en að lesa upp orð útvarpsstjóra sjálfs og lagði þar engan dóm á. — Þá hélt hv. þm. því fram, að ég mundi hafa kúgað útvarpsstjóra til þess að láta þetta bréf af hendi. Hvernig heldur hv. þm., að mér hafi komið til hugar, að þetta bréf væri til? Ég hefði átt að vita, að þetta bréf var til og hóta honum, að hann skyldi verra af hljóta, ef hann léti mig ekki hafa þetta bréf. Ég hef nú þegar fengið nokkurt svar frá útvarpsstjóra. Útvarpsstjóri hefur afhent mér bréf, sem hann sendi ráðuneytinu á sínum tíma og varðar embætti hans og er því ekkert einkamál. Bréfið var ekki virt svars. Það er því söguleg heimild, sem hver ráðh. útvarpsins á rétt á að kynna sér. Ég get ekki hugsað mér, að nokkur maður geti staðið sig öllu verr fyrir rétti en hv. þm. S.-Þ., og það munu flestir vera mér sammála um það. Hann hefur í ræðu sinni ekki gert annað en að undirstrika, að það sé rétt, sem ég skýrði frá samkvæmt ótvíræðum gögnum, sem fyrir hendi eru. Í öðru orðinu segir hann t. d. að því er þetta snertir, að útvarpsstjóri sé mjög nákominn mér og hálfgerður kommúnisti, en samt sem áður þurfti ég að kúga hann til þess að láta þetta bréf af hendi.

Eitt af því, sem hv. þm. talaði um, var óreglan í útvarpinu, og sem dæmi um það er einhver maður, sem einu sinni hafði verið við útvarpið, en er þar nú ekki lengur, eftir því, sem manni skildist. Hann talaði um dánarbú hans þegar hann fór frá útvarpinu og að í dánarbúinu hefðu verið margar flöskur. Þetta átti að vera til þess að sanna það, að betur væri nú komið starfi útvarpsins, ef farið hefði verið að till. hans um mannahald. Út af þessu hef ég fengið frá útvarpsstjóra bréf, sem hljóðar svo: „Sigurður Einarsson var ráðinn samkvæmt áeggjan Jónasar Jónssonar 1931.“

Ég ætla nú að rekja helztu atburðina í sambandi við útvarpið frá því að þjóðstjórnin var mynduð vorið 1939. Á því þingi var samþ. sú breyt. á útvarpslögunum að fækka í útvarpsráði úr 7 mönnum í 5 og allt ráðið skyldi kosið af Alþ. Þetta var gert til þess að koma 2 mönnum úr ráðinu, sem voru í Alþfl., en gengu í Sósfl. Eftir að þjóðstjórnin var mynduð, var líkast því sem hv. þm. S.-Þ. teldi sig formann í tveim flokkum, Framsfl. og Sjálfstfl. Hann krafðist þess, að það yrði gerð pólitísk tilhreinsun í útvarpinu og að við það yrðu ráðnir tómir framsóknarmenn. Þessar kröfur sótti hann með mesta ofurkappi 1939. 14. júní 1939 segir forsrh. öllum starfsmönnum upp frá ársbyrjun 1940. Um þessa uppsögn segir útvarpsstjóri í bréfi til ráðh., 28. apríl: „Ég vil lýsa því yfir, að ég tel frumorsökina þá, að ég vildi ekki beygja mig fyrir óbilgjörnum kröfum Jónasar Jónssonar. Af því stafaði uppsögn allra starfsmanna útvarpsins og lagabreyt. á aukaþinginu 1939.“ Og í bréfi til Jónasar Jónssonar, dags. 21. febrúar 1941, segir útvarpsstjóri: (Eyða í handriti.) Á haustþinginu 1939 er fyrir atbeina hv. þm. S.-Þ. gerð sú breyt. á útvarpslögunum, að ráðh. var veitt heimild til þess að gera fréttastofuna að sérstakri deild, enn fremur heimild til þess að semja við blöð lýðræðisflokkanna, stjórnarfl., um þátttöku í starfrækslu fréttastofunnar. Þetta er í samræmi við nótu hv. þm. S.-Þ. um það að „laga til“ í stofnuninni, eins og hann orðar það sjálfur. Um þetta segir útvarpsstjóri í bréfi dags. 31. marz 1941: „Um tildrög þessarar lagasetningar nægir mér að vísa til eftirrits af einkabréfi mínu til JJ.“ En það varð aldrei af þessu pólitíska uppgjöri við útvarpið, það var aldrei framkvæmt nema til hálfs. Má segja þáv. forsrh., Hermanni Jónassyni, það til hróss, að hann taldi sér ekki fært að framkvæma fyrirætlun þm. S.-Þ. nema til hálfs, enda sýndi það sig, að það voru til nægir starfskraftar til þess að gera útvarpið að áróðurstæki fyrir stefnu stjórnarvaldanna í hinni pólitísku baráttu. Það er þetta og ekkert annað, sem útvarpsstjóri er að lýsa yfir í hinni stuttu yfirlýsingu í blöðunum, að þáverandi ráðh. framkvæmdi aldrei til fulls þetta pólitíska uppgjör, sem af honum var krafizt og hann byrjaði á að framkvæma með uppsögn starfsfólksins 1939–1940. En það er alveg furðulegt, að hv. þm. S.-Þ. skuli gera tilraun til þess að vefengja það, að hér var verið að gera ráðstöfun til pólitískrar tilhreinsunar við útvarpið af hans völdum. Það liggja fyrir svo ótvíræð gögn í málinu, að þau verða ekki vefengd fyrir neinum rétti. Útvarpsstjóri fullyrðir þetta í einkabréfi til þm. S.-Þ. 1941, og hv. þm. hefur sjálfur staðhæft, að uppsögn starfsmannanna 1939 hafi verið gerð samkvæmt kröfu frá honum og að hann hafi ætlað að láta Alþ. gera ráðstöfun til þess að hreinsa til við útvarpið. Sömuleiðis hefur hv. þm. margsinnis gert þær kröfur, að störfum við útvarpið yrði „haldið til Framsfl.“ Þetta endurtekur útvarpsstjóri í bréfi til ráðun. og ráðh. hvað eftir annað þetta sama ár. Það er beinlínis fáránlegt að láta sér detta í hug, að 1940 hafi útvarpsstjóri skrifað þm. S.-Þ. einkabréf, þar sem hann færi að skrökva því upp, sem þeirra fór á milli. Þetta bréf var ekki ætlazt til, að yrði birt, það var einkabréf, það var skrifað í tilefni af atburðum, sem höfðu gerzt og voru að gerast og átti því aðeins að fara þeirra á milli, og bréfið er þeirra einkamál í 4 ár. Það er svo hlægilegt og fjarstætt að hugsa sér, að útvarpsstjóri hafi ætlað sér með þessu einkabréfi að gera honum upp orðin, að það nær engri átt. Hver var tilgangurinn með slíku? En svo kemur vitnisburður hv. þm. sjálfs og staðfestir þetta enn þá betur. Um haustið 1939 flytur hann frv. það, sem hann hótaði um sumarið að flytja og átti að framkvæma, og hann gerði meira. Hann flutti ásamt þm. úr öðrum flokki till. 1940 um það, að enginn sósíalisti megi vera í trúnaðarstöðu, en auðvitað til þess að gera lýðræðið sem allra fullkomnast. Með bréfi frá 29/11 1939, undirskrifuðu af Jónasi Jónssyni, Pétri Ottesen og Bjarna Bjarnasyni, átti fjvn. frumkvæðið að uppsögnum við útvarpið. Hún lagði enn fremur áherzlu á, að löggjöfin þyrfti að tryggja það, að ríkisstj. gæti haft meira eftirlit en verið hefði um mannahald og störf í útvarpinu. Síðan bera þeir fram ákveðna till. um ráðningu aðalmanns við fréttastofuna. Eins og kunnugt er, var þessi umrædda löggjöf sett að tilhlutun hv. þm. S.-Þ. og að hans fyrirmælum. Fjvn. og hv. þm. er því í þessu tilfelli það sama, eins og má ráða af nöfnum þeim sem undir bréfinu standa, og á sparnað er ekki minnzt í þessu sambandi, heldur aðeins á afskipti ríkisstj. og Alþ. af mannahaldi og vald þeirra yfir útvarpinu. Hvað sparnaðinn snertir, þá er það úr lausu lofti gripið, að þetta brölt í útvarpinu hafi verið gert í sparnaðarskyni, eins og bezt sést á ummælum útvarpsstjóra. Í bréfi útvarpsstjóra til ráðuneytisins 1941 segir: „Þér er kunnugt um tildrög þessa máls.“ Það getur verið, að það hafi verið í sambandi við falinn sparnað, en það stendur þar ekkert um neina sparnaðarráðstöfun. Það eina í öllum þessum plöggum, sem fram kemur, er það gagnstæða. T. d. skýrir hann frá því, að Jón Eyþórsson hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að koma Birni Franzsyni frá útvarpinu og í bréfi hafi hann lagt til, að Birni yrði vikið frá störfum, og gaf honum að sök grein, sem hann hafði skrifað í Vísi. En Sigurður Einarsson sendi þá umsögn sína um þetta og segir, að hann hafi haldið, að ritdeilur Jóns Eyþórssonar og Björns hafi verið skilmingar gáfnamanna, og gaf Birni þann vitnisburð, að hann hafi reynt hann að því að vera lipran mann til starfa og prúðmenni, og hælir honum á hvert reipi. Það er vissulega skrýtið, þegar á allt er litið, að hv. þm. S.-Þ. og félagar hann skuli enn vera að hrópa um hlutleysi útvarpsins þegar saga þessara manna er rakin. Það er skoplegt. En batnandi mönnum er bezt að lifa, og vissulega væri þetta ánægjulegt, ef hugur fylgdi máli. En því miður hefur þessi umr. sýnt allt annað.