27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (4752)

177. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Ég þykist sjá af þeim till., sem hér eru fluttar af hv. þm. Mýr. o. fl. á þskj. 996, að það sé tilgangurinn að koma þessu máli fyrir kattarnef. Tilgangurinn getur enginn annar verið. Og sannleikurinn er sá, að það er óvenjuleg aðferð, sem hér er viðhöfð, kannske ekki að vísu frá hv. þm. Mýr. En það er yfirleitt lítið um það hér á hv. Alþ., að sú aðferð sé viðhöfð, að 2 menn úr landbn, hafi skrifað undir að fylgja frv. með þeim brtt., sem n. flytur sameiginlega, en leggi svo fram brtt. þvert ofan í fyrri gerðir og án þess að hafa orðað það í n. (BÁ: Það er ekki rétt.) Það er víst rétt. Í landbn. höfðu ekki verið sýndar þær till. frá Búnaðarfél. Ísl., sem hv. flm. brtt. gat um áðan. En sú till., sem Búnaðarfél. vildi fá fram, að fella nýbyggingarráð úr frv., náði ekki samkomulagi í landbn. Nú er það svo, að við gætum sjálfsagt allir, sem erum bændur, þegið það út af fyrir sig að fá það fram, sem till. fara fram á. En það er allt annað, hvað menn óska eftir að fá og það, sem hægt er að fá fram. Og þegar samkomulag er fengið, þá er ekki hægt að koma aftan að mönnum og fara fram á, að allt skuli aukið um helming. — Varðandi 4. brtt., þá hef ég fyrir mitt leyti ekkert út á hana að setja og tel víst, að hægt verði að fá samkomulag í landbn. um hana, ef hún væri borin þar fram. — Varðandi 5. brtt., þá var það atriði mikið rætt í n., og varð samkomulag um að hreyfa því ekki. — Varðandi 4. gr. frv., þá skal ég ekki mikið út í það fara. Það eru 3 menn í hv. d., sem eru líka meðlimir nýbyggingarráðs, sem hefur samið þetta frv. Og eins og vitað er, var samkomulag um það þar. Býst ég við, að þeir svari fyrir það, sem fyrir þeim vakti með 4. gr. frv. Að öðru leyti skal ég geta þess, að flm., a. m. k. 2, var það fullkunnugt, að það mundi geta gengið fullerfiðlega að koma þessu máli í gegnum þingið í því formi, sem það var, þótt framlög ríkissjóðs væru ekki hækkuð um helming, en það mundi koma í veg fyrir, ef samþ. yrði, að málið næði fram að ganga.