21.12.1945
Sameinað þing: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla að gera hér litla fyrirspurn til hæstv. viðskmrh. Ég ætlaði að reyna að tala við hann áður, en vannst ekki tími til þess. Skal ég hafa þetta mjög stutt:

Það er sjálfsagt flestum kunnugt, að við höfum orðið að búa hér við skort á ýmsum vörum. En það, sem er einna harðast fyrir okkur hér í Reykjavík, er það, að fjöldamörg undanfarin ár hafa mörg heimili orðið að búa við ægilegan smjörskort. Nú sá ég í blöðum bæjarins, að hér hafi flutzt inn allmikið af smjöri, fyrst frá Ameríku og síðan frá Danmörku, en fjöldi heimila situr hér uppi smjörlaus. Nú eru jólin að koma, og við eigum að sitja smjörlausir um jólin, þar á meðal fjöldi barnaheimila, og vil ég því spyrja hæstv. viðskmrh., hvað sé orðið af þessu danska smjöri, því að ekki hefur mitt heimili orðið vart við það.