26.11.1945
Efri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (4900)

17. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Það er einnig hægt að vera fáorður um þetta frv. N. fékk það til athugunar, og hefur hún öll orðið ásátt um að mæla með framgangi þess eins og málið horfir við. Hv. þdm. er kunnugt um þá fábreyttu nýskipan, sem á sér stað með frv., heimild til þess að mega reisa fleiri en einn húsmæðraskóla í kaupstöðum landsins. Það skýrir sig sjálft, bæði samkv. framkvæmdinni af hálfu Reykjavíkur og eðli málsins, að það er miðað fyrst og fremst við höfuðborgina. Menn munu vera ásáttir um, að það beri að stefna að því, að sem flestar ungar stúlkur eigi kost á því að nema beinlínis í sérskóla til þess lífsstarfs, sem bíður þeirra, að vera húsmæður. Það er fræðslukerfi landsins stórvægilegt atriði, sem ég veit, að flestir skilja rétt, að húsmæðraskólarnir verði ekki aukaatriði, heldur meginatriði, miðað við, að þeir komi að notum í lífsstarfi, sem bíður fólksins.

N. hefur orðið á einu máli um að mæla með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir.