21.11.1945
Efri deild: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (5060)

89. mál, orlof

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að stofna til mikilla umr. um þetta mál á þessu stigi, fyrr en það hefur verið athugað í n., en út af þeim aths., sem hv. þm. Barð. hefur borið fram, skal ég taka þetta fram.

Hann telur, að það muni orka tvímælis, ef b-liður 1. gr. er felldur niður, hvort hlutarsjómenn komi undir l. Við flm. höfum ekki litið svo á, vegna þess að ef löggjafinn hefði ekki talið, að þessir menn væru undir þeim almennu ákvæðum l., þá hefði ekki verið nein þörf á að setja sérákvæði um að undanskilja þá, eins og gert er í b-lið. En ef þetta þykir vafasamt, þá er sjálfsagt að athuga það í n., og við flm. höfum að sjálfsögðu ekkert á móti því, að þetta sé sett ótvírætt, ef það þykir leika á tveim tungum.

Viðvíkjandi hinu atriðinu þá held ég, að það sé ekki rétt, að þetta raski þeim fyrirætlunum l., að þessar greiðslur kæmu aðeins til þeirra, sem tækju sumarfrí. Ég held, að þetta hafi engin áhrif á það. Almenna reglan er sú, að launþegar fái greidd orlofsmerki, um leið og þeir fái laun sín greidd, en fái þau síðan innleyst á næta ári, þegar þeir taka orlof sitt. Þetta ákvæði um fyrninguna hefur því einungis áhrif í því sambandi, þegar ágreiningur kemur á milli verkamanns og atvinnurekanda um greiðslu fjárins, sem leiðir síðan til þess, að verkamaðurinn fær ekki þau orlofsmerki, sem hann telur sig eiga að fá, og einmitt slíkur ágreiningur getur leitt til þess, að fyrningarfresturinn, sem nú er ákveðinn, rennur út, áður en verkamaður getur tekið ákvörðun um að fá rétti sínum fullnægt. Mér er kunnugt um, að í nokkrum slíkum tilfellum hefur orðið ágreiningur um, hvort beri að greiða orlofsfé eða ekki, t. d. í sambandi við ákvæðisvinnu og ýmislegt þess háttar, og eins og ég gat um áðan, er verkamönnum ekki tamt að hefja rekstur mála fyrir dómstólum út af tiltölulega lítilli fjárhæð, og þess vegna dregst það oft úr hömlu, og ég tel ekki rétt, að slíkt geti orðið til að menn tapi þeim rétti, sem þeir annars hafa. Og þó að ekki sé um beina launagreiðslu að ræða, þá er það svo skylt, að ég tel fara vel á, að sömu reglur gildi um það og fyrningu vinnulauna. Annars verður þetta að sjálfsögðu athugað í n., og verður þá tækifæri til að ræða þetta nánar, ef ástæða er til.