02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í D-deild Alþingistíðinda. (5279)

185. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er að vísu búið að gera uppástungu um að vísa þessari till. til n., sem ég á sæti í, en ég held, að ef skipa á n. til þess að endurskoða útsvarsl., — og á því tel ég mikla þörf, — eigi verksvið þeirrar n. að vera stærra en hér er gert ráð fyrir. Það orkar ekki tvímælis, að ekki er síður þörf á að endurskoða skattalöggjöfina, en hún hangir að mörgu leyti saman við útsvarslöggjöfina, en þó eru ef til vill óljós ákvæði í báðum þessum l., sem ekki verða lagfærð með endurskoðun. Kemur þetta til af því, að í þessum l. hvorum tveggja eru svo greinilega óljós ákvæðin, sem lúta að heimilisfestu manna. Þeir vita það bezt, sem fjalla um þessi mál, hve oft er erfitt að hafa upp á fólki, því að hér eru hópar manna, sem ekkert lögheimili eiga og hvergi borga neitt, hvorki til ríkis né bæjar- eða sveitarfélags. Get ég nefnt mörg dæmi um slíkt. Af þessum ástæðum tel ég nauðsynlegt að gera störf þessarar n. víðtækari, þannig að hún geti stuðlað að því að færa þetta mál, sem ég drap á, í viðunandi horf.

Nú liggur fyrir hæstv. Alþ. frv. um nýja tryggingalöggjöf, og ef það verður að l., verður þar ákvæði um endurskoðun skattal., þannig að þeim mönnum, sem að þessu máli hafa unnið og samið hafa frv., hefur verið ljóst, hve nauðsynlegt er að endurskoða þau l. og hve erfitt það er að vita um lögheimili manna eða hvar þeir eiga heima.

Það er því mín skoðun, að sú n., sem hér er gert ráð fyrir, að skipuð verði, taki ekki aðeins útsvarsl. til meðferðar og endurskoðunar, heldur og skattalögin og enn fremur, að hún taki til athugunar, hvort ekki væri hægt að koma því fyrir á einhvern hátt, að hver maður fái vegabréf, sem væri áritað einu sinni á ári af viðkomandi yfirvöldum, er sýni lögheimili hans og hvar hann er skattskyldur, til þess að ekki þurfi að vera sú eftirleit, sem nú á sér allt of mikið stað gagnvart því fólki, sem alltaf er að flytja úr einni sveit í aðra, en á ekkert sérstakt lögheimili og er alltaf farið úr þeirri sveit, sem það var í næst á undan, þegar komið er þar að gjalddaga opinberra gjalda. Lögin um heimilisfestu þarf því líka að endurskoða.