23.11.1945
Efri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf. hélt fram í sambandi við brtt., sem hann flytur á þskj. 187, að það væri í raun og veru alveg sama, hvort sú brtt. væri samþ. eða brtt. nr. 1 á þskj. 167, því að ef vísitölumagnið væri hækkað um 25%, þá þýddi það hið sama og að fella gr. burt. Mig furðar ákaflega á þessum fullyrðingum. Hv. þm. veit, enda kom það greinilega fram í ræðu hæstv. ráðh., að vara sú, sem fyrst og fremst er höfð í huga, er smjörið. Og það smjörmagn, sem tekið er til greina í útreikningi vísitölunnar, er mjög takmarkað, ég held, að það sé eitthvað innan við hálft kg. á mann fyrir 5 manna fjölskyldu. Það er því alveg augljóst mál, að hæfilegt magn af þessari vöru er í raun og veru alls ekki hægt að ákveða minna en þetta. Og það er að mínu áliti alveg jafnrétt og eðlilegt, að sama gildi um smjörið eins og um kjötið, að niðurgreiðsla skuli hafa farið fram á hæfilegu neyzlumagni vörunnar og ekki undir því magni, sem reiknað er með í vísitölunni, að viðbættum 25%, ef vísitalan á eingöngu að miðast við lægra verðið.

Ég verð að segja það, að hagfræðitöluspeki hv. þm. Barð. er mér gersamlega óskiljanleg. Það hélt ég þó, að honum ætti að vera nokkurn veginn ljóst, að ef allir liðir framfærsluvísitölunnar með sama verði og nú er reiknað með og í sömu hlutföllum um magn væru reiknaðir með 25% meira magni, þá breytti það vísitölunni ekki neitt. En þetta ákvæði um 25% viðbótina um magnið viðkomandi kjötinu er sett inn til þess af afstýra röskun á vísitölunni.

Með þessu, sem ég hef sagt hér, tel ég svarað því, sem hv. 1. þm. Eyf. hélt fram. Því að það er vitað, að neyzla smjörs í landinu er meiri en vísitölumagnið og meiri en það magn, sem gert er ráð fyrir í brtt. n., þ. e. a. s. vísitölumagn að viðbættum 25%. Það er nú ekki ætlazt til þess, að þessi l. gildi nema eitt ár, og það eru engar líkur til þess, að neinir erfiðleikar verði á að selja á því tímabili alla smjörframleiðsluna innanlands, eins og líka kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. Enda virtist mér á ræðu hæstv. fjmrh., að það væri ekki sérstaklega smjörið, sem hann óttaðist í þessu efni, heldur saltfiskurinn, og ekki þá sérstaklega um hag ríkissjóðs, heldur neytendanna, af því að saltfiskurinn vigtaði svo mikið í vísitölunni. (Fjmrh.: Þetta er eintómur misskilningur hjá hv. þm., ég var að sýna, hve abstrakt niðurstöður gætu komið fram með niðurgreiðslum). Ef hæstv. ríkisstj. vill gera hag neytenda sem verstan, þá getur hún það með þessu, af því að vísitölumagnið af þessari vöru er meira en neyzlumagnið. En neyzlumagn þessarar vöru er svo lítið, að ég álít, að það megi í útreikningi vísitölunnar alveg ganga fram hjá því. Ég verð að segja það, hvað snertir orðalagið í 1. gr. frv., þar sem sett hefur verið inn „og niðurgreiðsla hefur farið fram á hæfilegu neyzlumagni vörunnar, að dómi ríkisstjórnar“, að það hafi verið gert óviljandi. Það veit enginn, hvaða stjórn fer með völd meðan þessi l. kunna að gilda, ef frv. verður að l., og ef þetta á að vera eftir mati ríkisstj. á hverjum tíma, þá er verið að gefa ríkisstj. vald til þess að brengla vísitöluna eins og hún vill.

Ég verð að taka undir það, sem hv. form. fjhn. sagði hér áðan, að mér er afstaða hæstv. fjmrh. vonbrigði. Ég átti alls ekki von á því, að hann tæki till. n. eins og hann gerði. Hann sagði að vísu, að hann legði ekki mikið upp úr, hvað ofan á yrði í þessu, en mér skildist niðurstaða hans vera sú, að hann væri á móti brtt. Ég legg hins vegar mjög mikla áherzlu á brtt. fjhn. og fæ ekki betur séð en að þær séu til mikillar lagfæringar á frv., bæði frá sjónarmiði hæstv. ríkisstj. og almennings. Það er upplýst, að þessi brbl. hafi í raun og veru verið framkvæmd alveg eins og hér er gert ráð fyrir að því er snertir kjöt og kartöflur og alveg eins og yfirlýst var af hæstv. ríkisstj., að hún mundi sjá um, að nægilegt magn væri á boðstólum af þessum vörum frá fyrra ári og með lægra verðinu, og á þessu var útgáfa l. beinlínis byggð.

Hv. 1. þm. Eyf. heldur því fram, að eftir orðalaginu í síðari brtt. fjhn., þá sé skylt að hafa til á boðstólum nýtt kjöt, sem slátrað sé eftir 1. ágúst, og kartöflur, sem teknar eru upp eftir þann tíma, til þess að gefa lagagr. gildi. Ég held, að þetta sé hinn mesti misskilningur, og ég á erfitt með að gera mér grein fyrir því, hvernig hv. þm. hefur komizt að þessari niðurstöðu. Vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa brtt. upp.

„Verðlag á kjöti af sauðfé, sem slátrað er til sölu á tímabilinu frá 1. ágúst til 1. september 1946, og á kartöflum, sem teknar eru upp og seldar á sama tíma, skal eigi hafa áhrif á vísitöluna, enda sé á boðstólum nægilegt magn af þessum vörum með því verði, sem reiknað er með í vísitölunni.“

Þessar vörur eru kjöt og kartöflur, og það, sem tekið er upp eða slátrað er á þessum tíma, skal ekki hafa áhrif á vísitöluna, ef af þessum vörum er til nægilegt magn á boðstólum á sama tíma með vísitöluverði. Blandast nokkrum manni hugur um, að þetta sé ekki alveg rétt? Þessar vörur eru kjöt og kartöflur, en undantekið er það, sem tekið er upp eða slátrað á því tímabili, sem að framan greinir. Ef ekki stendur á öðru en orðalaginu, þá er sjálfsagt að breyta því þannig í brtt., að jafnvel hv. þm. sé fullnægt í þessu efni, en mér finnst orðalagið fullkomlega skýrt:

Að því er snertir efnisbreyt, sjálfa, þá er nákvæmlega fylgt þeirri framkvæmd, sem var á l. í haust, eins og hv. form. n. tók fram, og eins og hann tók sömuleiðis fram, þá er auðvelt fyrir hæstv. ríkisstj., án nokkurs verulegs kostnaðar, að sjá um, að þessu verði framfylgt, og efast ég ekki um, að þetta sé hægt, ef hún ætlar sér það. Ef það hins vegar er ekki gert, þá er vísitalan á þessu tímabili stórkostlega fölsuð, og því er ekki að leyna, að megintilgangurinn með till., n. er sá að gera það skýrt, að ekki sé verið að rjála við vísitöluna að öðru leyti en því, að sá tími, þar sem gert er ráð fyrir, að ekki sé tekið til greina hærra verðið, hann er lengdur upp í 51 dag, en þó því aðeins, eins og tekið er fram í till., að hæfilegt magn sé til af þessum vörum á boðstólum með lægra verðinu.

Hæstv. ráðh. tók svo til orða: „Hvaða vit er í því, þótt hundrað dilkum sé slátrað, að það hækki vísitöluna um svo og svo mörg stig?“ Ég er hæstv. ráðh. algerlega sammála og álít það skyldu hverrar ríkisstj. að koma í veg fyrir slíkt, og er ekkert auðveldara: Annaðhvort er til nægilegt magn af þessum vörum frá fyrra árs forða eða ef það er ekki til, þá má slátra og skammta það kjöt og borga niður.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að mér voru það vonbrigði, hvernig hæstv. ráðh. tók þessum brtt. n., en hann sagðist ekkert leggja upp úr því, hvort þær yrðu samþ. eða felldar. Ég vil hins vegar láta það í ljós hér í hv. d. og í áheyrn hæstv. fjmrh., að ég legg mikla áherzlu á að þær verði samþ. Við hv. þm. Barð. hef ég ekkert að segja frekar en það, sem ég hef áður sagt.