06.12.1945
Efri deild: 46. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði ekki hirt um að ræða við hv. 1. þm. Reykv. (MJ) um þetta mál, ef n. hefði tekið till. sínar aftur og ekki sett nýjar inn. En nú hafa komið fram nýjar till., sem á engan hátt líkjast útgáfu þeirra, sem fyrir voru, og fyrir það eitt vil ég gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. — Ég held því enn fast fram, að með þessari till. sé komið aftan að hæstv. ríkisstj., og ef hv. form. fjhn. vill fullvissa sig um, hvernig hugur hæstv. ráðh. stendur til hennar, ætti hann að gefa atkvgr. gaum, því að ég er sannfærður um, að hann er till. mótfallinn. Ég hygg, að það séu einsdæmi og mjög óeðlilegt, að þm., sem styðja ríkisstj., skuli leggja svo mikið kapp á að fá till. samþykkta, sem viðkomandi ráðh. er andvígur, eins og hér er gert. Ég hef áður lýst því yfir, að ef þessi till. nær samþykki á þessum fundi, muni ég ekki sjá mér fært að fylgja frv. því, sem hér liggur fyrir. Það er svo á ábyrgð þeirra manna, sem hafa staðið fyrir því að fá málinu breytt í þetta horf, hvort frv. fellur eða ekki. Það veltur ef til vill ekki á mínu atkv., en ég vildi aðeins láta hv. frsm. fjhn. vita um afstöðu mína. Hann hélt því fram, að þegar brbl. voru sett, hafi það ástand verið fyrir hendi, sem þessi till. ræðir um, en þetta er rangt. Ég var viðstaddur á þeim fundi, er umr. fóru fram um þetta, ásamt hv. 1. þm. Reykv., og það var enginn fyrirvari gerður um þetta atriði, sem í till. ræðir um, því að þá hefði ákvæði um það verið sett inn í brbl., ef hann hefði verið gefinn, en brbl. voru ýtarlega rædd, áður en þau voru gefin út og samþ., m. a. af hv. 1. þm. Reykv. Það er því alger fölsun á staðreyndum að halda því fram, að þessi fyrirvari hafi verið gefinn. Ég skal ekkert um það segja, hvaða fyrirvara hv. 3. landsk. eða flokkur hans hafi gefið, en ég mótmæli því, að hv. 1. þm. Reykv. hafi gefið hann, þegar rætt var um það í Sjálfstfl., hvernig þessi l. ættu að vera, áður en þau voru gefin út. — Enn fremur sagði hv. þm., að þessi till. væri óviðkomandi útreikningi vísitölunnar. Ef hann hefði hlustað á ræður hv. 3. landsk. (HG) í þessu máli, þegar hann sagði, að þetta væri sett inn í 1. til þess að afstýra röskun á vísitölunni, gæti hann ekki mótmælt, að þetta væri vísitölunni viðkomandi. (MJ: Það er byggt á tómum misskilningi hjá honum). Ég hygg, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. fjhn. að endurskoða afstöðu sína í heild til þessa máls, til þess að hv. n. geti skilað nál., sem væri byggt á einhverju öðru en eintómum misskilningi. Væri það mjög æskilegt fyrir afstöðu til afgreiðslu málsins í heild.

Hv. þm. sagði einnig, að það væri fölsun á vísitölunni, ef reiknað væri þar með verði á vörum, sem ekki væru til. Í þessu sambandi vil ég spyrja hv. 1. þm. Reykv.: Hvernig er með húsaleiguvísitöluna? Allir vita, að hér er ekki til það magn af húsnæði, sem þarf til þess að uppfylla eftirspurnina. Ég hef ekki enn orðið þess var, að hv. 1. þm. Reykv. bæri fram frv. um það, að nauðsynlegt væri ekki aðeins að setja það magn af húsnæði inn í vísitöluna, sem fólkið þyrfti við, heldur auk þess 25%, og býst ég við, að útkoman á húsaleiguvísitölunni yrði einhver önnur, ef fylgt væri sömu reglum um útreikning á henni og ætlazt er hér til, að fylgt sé um kjöt og aðrar innlendar landbúnaðarafurðir í þessum málum. Það er og kunnugt, að útreikningur vísitölunnar er ekki byggður á hinni raunverulegu neyzlu manna, heldur á ákveðnu magni af vöru, sem tekið er til þess að reikna eftir. Ég vil einnig benda þessum hv. þm. á það, að verð á bíómiðum og strætisvagnagjöld eru tekin með inn í vísitöluna: Honum má því vera það ljóst, að eftir þessum útreikningi eru mönnum greidd laun, sem aldrei geta haft tækifæri til þess að koma í kvikmyndahús eða nota strætisvagna. Vísitalan er reiknuð eftir ákveðnum reglum um verðlag hér í Reykjavík, og meðan liggja fyrir upplýsingar frá þeirri n., sem rannsakaði þetta mál á sínum tíma, sé ég ekki ástæðu til þess að setja inn í frv. þetta ákvæði, sem getur ekki annað en breytt þessum málum, því að það gefur að skilja, að ef ekki er til nákvæmlega það mikið magn af þessari vöru, sem reiknað er með í vísitölunni, fyrir lægra verð, verður að taka eitthvað annað verð en reiknað hefur verið með til þess að uppfylla ákvæðið, eftir að búið er að setja það inn í l. Það er einmitt þetta, sem við viljum fyrirbyggja, sem erum andvígir þessari brtt.Hv. 1. þm. Reykv. sagði og, að það væri fölsun á vísitölunni, ef ekki væri nægilegt til af þessari vöru á þessu verði: En það gæti komið sú tíð, að það væri ef til vill eina ráðið til þess að lækna þessa meinsemd, ef menn gætu komið sér saman um að falsa vísitöluna á Íslandi eins og gert hefur verið í öðrum löndum. Ég er ekki alveg viss um, að það yrði versta ráðið eða þyrfti að koma svo ranglátlega niður á þjóðinni í heild. Hins vegar kemur það ranglátlega niður á þjóðinni, ef á þennan hátt er farið að falsa vísitöluna fyrir sérstaka stétt þjóðfélagsins, án þess að það nái út yfir allar stéttir þjóðfélagsins. En það er það, sem hv. 1. þm. Reykv. og hv. 3. landsk. hafa alltaf barizt fyrir, sem sé, að dreginn sé sem mest fram hagur þeirra manna, sem taka laun sín af opinberu fé, hvort sem það eru embættismenn eða aðrir, án tillits til, hvaða afleiðingar það hefur fyrir ríkissjóð. Þeir leggja aðaláherzluna á að hækka launin annars vegar, stytta vinnutímann hins vegar og sjá um, að dýrtíðin vaxi stöðugt, til þess að þeir geti haft næga peninga milli handa. Þetta hefur sýnt sig í öllum málum hjá þessum hv. þm., og það er þetta, sem ég leyfi mér að ásaka. Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að það er algerlega rangt með farið, sem hann hélt fram hér áðan, að þeir hefðu ekki brugðizt ríkisstj. við afgreiðslu launal. Hv. 1. þm. Reykv. er vel kunnugt um — og ætti að vera óþarfi að rifja það upp fyrir honum, — að því var lýst mjög eindregið yfir af nokkrum hluta hæstv. ríkisstj. við þennan hv. þm., að mjög langt væri komið út fyrir þau takmörk, sem sett höfðu verið, þegar gerðir voru samningar um launal. Ef því hv. 1. þm. Reykv. vill bera saman stjórnarsamninginn annars vegar og afgreiðslu launal. hins vegar, þarf mann með miklu minni dómgreind en hann hefur til þess að sjá, hvernig á þessum málum var haldið af þeim, sem um það fjölluðu, að maður tali nú ekki um þau áhrif, sem þessi l. hafa á allt stjórnarkerfið og afkomu ríkissjóðs. Til þess gefst annar vettvangur, og skal ekki farið frekar út í það hér. Það er hins vegar alveg óskiljanlegt það traust, sem þessi hv. þm. ber til þeirra aðgerða í sambandi við launal., en mér er kunnugt um það, — og það verður ef til vill tekið upp á öðrum vettvangi, — að launal. hafa gengið svo langt, að þau verða a. m. k. mjög erfið í framkvæmdinni, og veit ég, að það hefur bakað þjóðinni stórkostlegt tjón, að ákvæði voru ekki sett inn í l. á sínum tíma um skyldur þeirra manna, sem taka laun samkv. þeim, eins og þá var og bent á. —

Hv. 1. þm. Reykv. minntist hér á það, að það gæti orðið til þess að bjarga þessum málum að miklu leyti, ef flutt yrði inn nægilega mikið af ódýru smjöri eða öðrum vörum til þess að lækka verð í landinu. Vitanlega mundi slíkt hafa stórkostlega breytingu í för með sér á vísitölunni, en ég sé ekki, hvernig hægt væri að halda því fram með nokkurri sanngirni, að það væri réttlátt að leyfa innflutning á landbúnaðarafurðum frá öðrum löndum til þess að lækka markaðsverð bænda hérlendis, eins og komið hefur fram hjá hv. 1. þm. Reykv. og hv. 3. landsk., á sama tíma sem ekki er leyft að flytja inn erlenda verkamenn, sem eru fúsir til þess að vinna fyrir miklu lægri laun en verkamenn hér á landi og mjög mikill skortur er á í landinu, t. d. við landbúnaðarstörf. —

Að lokum vil ég benda hv. 1. þm. Reykv. á, að hv. 3. landsk. lýsti því yfir við 2. umr. þessa máls, eftir að hann hafði hlustað á mín rök, að við mig þyrfti hann ekkert að segja í þessu máli, og viðurkenndi þannig, að það, sem ég hefði haldið fram, væri rétt, og hygg ég, að bezt væri fyrir hv. 1. þm. Reykv. að viðurkenna þetta einnig, en að hætta sér ekki út á þann hála ís að mótmæla rökum mínum.