25.03.1946
Neðri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Páll Zóphóníasson:

Ég skal ekki vera langorður um þetta mál, en ég vildi óska eftir upplýsingum varðandi yfirlýsingu hv. þm. Rang. og síðar hæstv. ráðh. um, að ábyrgðin á afurðum bátaútvegsins sé hættulaus fyrir ríkissjóð. Í Morgunblaðinu í gær segir, að upp úr saltfiskinum fáist ekki það, sem ríkisstj. hafi ábyrgzt. Nú trúi ég að vísu ekki því, sem Morgunblaðið segir. En mig langar þó til að heyra það frá hæstv. stj., hvað satt er í þessu máli, því að ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. geti gefið okkur þm. upplýsingar um það, þar sem það kæmi vitanlega til hans kasta, ef þyrfti að borga mismuninn úr ríkissjóði.

Þá skal ég snúa mér að því, hvernig á því stendur, að ég er á móti niðurgreiðslum úr ríkissjóði og hef alltaf verið harðari og harðari á móti þeim eftir því, sem lengra hefur liðið. Ástæðurnar til þess eru þær, að núverandi hæstv. ríkisstj. hefur notað sér niðurgreiðslurnar til að svíkja bændur um það, sem þeir áttu að fá og lækka þeirra hlut árlega nú þrjú síðustu ár, a. m. k. samanborið við aðrar stéttir þjóðfélagsins. Þess vegna vil ég ekki láta hæstv. stj. hafa þetta með höndum. Ég skal svo nefna dæmi þessu til sönnunar.

Árið 1944 var mjólk á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur lækkuð um 25 aura frá því, sem mjólkurverðlagsn. hafði sagt, og lofað að greiða úr ríkissjóði a. m. k. það af þessum 25 aurum, sem þyrfti til að bændur fengju 1,23 kr. fyrir lítrann. Þetta sveik hæstv. fjmrh. Reikningarnir liggja fyrir prentaðir og sýna svart á hvítu, að það þurfti að borga 18 aura, en hæstv. ráðh. borgaði 14. Hann notaði sér, að til voru l., sem ákváðu niðurgreiðslur til bænda, til að hafa af þeim 800 þús. kr. til að gera þeirra hlut þeim mun verri en verkamanna og hlut ríkissjóðs betri.

Næst notar hæstv. ríkisstj. þessi l. sem skálkaskjól í því máli, sem nú liggur fyrir. Það liggur fyrir, að eftir l. um eftirgjöfina á 9,4% átti að greiða þá hækkun, sem yrði á framleiðslukostnaði hjá bændum. Það kom ákaflega greinilega fram í umr. um málið á Alþingi í fyrra, að þegar talað er um þessa hækkun, þá er átt við hækkað verkakaup, sem hefur áhrif á vísitölu landbúnaðarvara og þar með fyrst og fremst kaup verkamanna, sem vinna hjá bændum. Hæstv. ríkisstj. er ekki enn farin að greiða þetta og trassaði að athuga, hvað mikið þetta væri, eins lengi og hún mögulega gat. Aftur notaði hún sér, að niðurgreiðslurnar voru til og reyndi að hafa af bændum samanborið við aðrar stéttir, það sem þeim ber að l., og enn notaði hún sér það, þegar hún í haust lét verðlagsn. og búnaðarráð ákveða verð á landbúnaðarvörum. Hæstv. ráðh. heldur því fram, að það hafi verið ákveðið eftir landbúnaðarvísitölunni og hækkað um 9,7%, og það má kannske segja það, þegar árinu á undan er sleppt, en á árinu á undan er hæstv. stj. búin að borga yfir 6 milljónir í uppbætur á útflutt kjöt og gærur frá árinu 1944, en ullin er eftir. En þó að maður gangi fram hjá því, þá er upplýst, að hæstv. ráðh. lét mikinn hluta af hækkuninni á kjötinu ganga beint til kaupmanna, en ekki til bænda. Hann hækkaði kaupið til kaupmanna meira að tiltölu en það, sem bændur fengu. Nokkrum hluta af þessum 9,7% stakk hann beint í vasa kaupmanna með því að leyfa þeim meiri álagningu og um leið hærra verð. Þess vegna er ekki einu sinni svo vel, að hann hafi látið þessa hækkun koma til bænda, því að nokkuð af henni fór til kaupmanna, enda vita það allir í þessari hv. d. og flestir landsmenn, að þessi hæstv. stj. ber fyrst og fremst hag heildsala og kaupmanna fyrir brjósti, sbr. heildsaladómana o. fl. Því er það, að þeim mun meiri möguleika sem hæstv. stj. hefur til að greiða eftir þessum l., þeim mun meira hefur hún af bændum. Þess vegna vil ég ekki, að hún hafi þessa möguleika nema sem allra stytzt.