27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var síðast til umr., lýsti ég því yfir, að ég gæti ekki fylgt því, þar sem stjórnin notaði þetta mál til að svíkja af bændum löglegar tekjur. Hæstv. landbrh. var hér þá og er enn. Hann svaraði mér þá eins og strákar svara öðrum strákum. Hann sagði: „Það var ekki betra, þegar þú réðir og hafðir þessi mál til meðferðar.“ Hann hefur framkvæmt þessi l. þannig, að hann hefur látið sína menn ákveða afurðaverðið mun lægra en lög og réttur stóðu til, slíkt átti sér ekki stað meðan ég fór með þessi mál.

Hagstofan hefur verið látin reikna út, hvert verðið hefði átt að vera samkv. áliti 6 manna n. árin næst á undan, og það hefur sýnt sig, að verðið var ákveðið nærri nákvæmlega rétt, nema árið 1942, en þá fór ég ekki með þessi mál. Einnig hefur verið látið reikna út, hvert verðið ætti að vera hin síðustu ár, og eftir samanburði á þessu tvennu liggja rangfærslur hæstv. ráðh. ljóst fyrir. Og nú vil ég spyrja: Hvorum ber frekar að álasa, mér, sem hafði ekki 6 manna álitið til að styðjast við, en ákvað þó verðið því nær alveg rétt, eða honum, sem hefur álit 6 manna n. til að byggja á, en aldrei látið bændur fá það, sem þeim ber? Ef hæstv. ráðh. vill svara aftur eins og strákur, þá hann um það, en vilji hann líta á sannindi þessa máls, þá sér hann, að bændur hafa ekki fengið þann hlut, er þeim ber.