28.03.1946
Efri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

2. mál, eignarnám lóðarréttinda og mannvirkja á Siglufirði

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Þegar mál þetta var síðast á dagskrá, var umr. frestað, því að hv. þm. Barð. óskaði þess að geta náð sér í upplýsingar. Ég hef spurt hæstv. atvmrh., hvort þessar upplýsingar væru fyrir hendi, þ. e. a. s. það, sem allshn. hafði hugsað sér um það, hvort samningar hefðu farið fram og hvað hefði á milli borið, áður en gripið var til þess ráðs að gefa út brbl. Hæstv. atvmrh. kvað þær ekki vera fyrir hendi, stjórn síldarverksmiðjanna hefði ekki samið áður en brbl. voru gefin út. En hann sagðist hafa treyst því, að vingjarnlega yrði brugðið við í málinu og þess vegna gefið l. út. Hann taldi ekki ástæðu til að tefja málið með þessu. Upplýsingarnar væru ekki fyrir hendi, enda ekki nauðsynlegar. Það ætti eigi að draga málið svona.

Allshn. hefur lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt, þótt þessar upplýsingar séu ekki fyrir hendi. Ég legg til, að það verði samþ. óbreytt og málið þannig afgreitt.