12.03.1946
Neðri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hér hafa farið fram, og brtt. hæstv. samgmrh. vil ég taka það skýrt fram, að ég treysti hæstv. ráðh. til þess að misnota ekki þá heimild, sem í frv. er, og skiptir það ekki miklu máli frá mínu sjónarmiði, hvort hann hafi þessa heimild á sinni hendi eða öll ríkisstj. Eins og ég tók fram áður, þá er hér frá sjónarmiði meiri hl. n. um „princip“mál að ræða, hvort veita eigi svo víðtæka eignarnámsheimild.

Hins vegar varð á fundi hér í gær samkomulag um að fresta umr, í hv. d. um þetta mál, þangað til hæstv. ráðh. og n. hefðu getað átt viðræður um það. Þær viðræður hafa ekki getað farið fram enn þá, og vildi ég því æskja þess, að því verði fram haldið, sem til stóð í gær, unz þær viðræður hafa getað farið fram, sem væntanlega verður nú á næstunni. Má ekki skoða það sem tilraun til þess að tefja málið, því að öll allshn. er sammála um nauðsyn þessa máls og telur enga hættu á því, að þetta verði því til trafala.