16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Hæstv. ráðh. vill halda því fram, að hér í þessu frv. sé alveg um hliðstæða eignarnámsheimild að ræða og í vegal. Þetta er mesti misskilningur. Í vegal. eru taldir upp þeir þjóðvegir, sem heimilt er að leggja og leggja skal. Og það er alveg ákveðið, hvar þessir þjóðvegir eigi að vera, á milli þessara og þessara byggðarlaga o. s. frv., og út fyrir það ná ekki eignarnámsheimildir vegal., heldur eingöngu til þess að leggja þessa vegi, sem í vegal. eru upp taldir. Og í þessu sambandi má geta þess, að þegar þurfti að leggja vegi frá atvinnudeildinni að Keldum, þá var sú leið ekki í þjóðvegatölu, og eignarnámsheimildin vegna þeirrar vegalagningar var ákaflega takmörkuð. — Það er því ekki rétt hjá hæstv. samgmrh., að það megi bera þetta saman, sem farið er fram á í þessu frv., sem hliðstæðu við þær almennu eignarnámsheimildir, sem veittar eru í vegal. Og hæstv. ráðh. sagði, að ef ég ætlaði að vera sjálfum mér samkvæmur, ætti ég að leggja til, að í hvert skipti, sem vegur væri lagður, væri fyrst athugað, hvar ætti að leggja veginn, og komið síðan til Alþ. til þess að biðja um eignarnámsheimild. Þegar vegur er lagður, er sá staður, sem hann á að leggjast um, miklu meiri takmörkum bundinn en um er að ræða í þessu frv. um stað fyrir þetta gistihús. Og þess vegna er mikill eðlismunur á þessu tvennu. — Hæstv. samgmrh. segir, að það mundi spara tíma að setja ótakmarkaða eignarnámsheimild í þessi l. — Hvers vegna er þá ekki bezt að setja lög, sem svo hljóðuðu: „Ríkisstjórnin hefur heimild til að taka öll mannvirki eignarnámi, sem hún telur sig þurfa“? Slík lagaheimild væri beint áframhald af ákvæðum 5. gr. þessa frv. — Hæstv. ráðh. lætur í það skína, að allir viðkomandi aðilar þurfi að vera sammála hér. Það er ekki nema hálfur sannleikurinn. Það eru að vísu þeir aðilar, sem kosta bygginguna eða byggingarnar. Náttúrlega á sá aðili, sem fyrir þessu verður, að eignarnám verði tekið, ekki að hafa nokkuð um það að segja.

Ég hirði, ekki að ræða um þetta frekar, en vil alveg slá því föstu, sem ég hef um þetta mál sagt, og bið hæstv. ráðh. að benda á hliðstætt dæmi í íslenzkum l. því, sem hér er stefnt að með 5. gr. frv. Og þó að til séu nokkuð almennar eignarnámsheimildir í vegal., þá er þar um mikil takmörk að ræða, vegna þess að ákveðið er, hvar vegirnir skuli liggja. Tel ég þær eignarnámsheimildir því ekki í flokki með slíkri eignarnámsheimild, sem hér er um að ræða.