16.04.1946
Neðri deild: 112. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svar hans, svo langt sem það náði. En mig langar einnig til að fá að vita hjá hæstv. ráðh., hvort það hefur verið samið við þessa verkfræðinga um, að þeir byggi hótelið. Margir íslenzkir verkfræðingar hafa áhuga fyrir þessu máli og telja sig fullfæra um að leysa þetta verk af hendi. En ég vildi gjarnan, að hæstv. ráðh. upplýsti þetta hér. Kannske eigi að hafa hér sömu aðferð og um bátana, að fá menn frá útlöndum til að smíða þá og láta þá verða helmingi dýrari en ef þeir væru keyptir erlendis frá?

Þá langar mig líka til að fá að vita það hjá hæstv. ráðh., hvort ekki er nóg að fá eignarnámsheimildina í haust, þegar staðurinn verður ákveðinn. Ef það er rétt, sem komið hefur fram við fyrri umr., að ekki verði byrjað að byggja í ár, þá finnst mér nóg, að eignarnámsheimildin væri sett inn í haust, þegar þing kemur saman. Annars er það skrýtið, að það skuli vera svo mikil almenningsþörf fyrir hótelbyggingu í Reykjavík, fyrst og fremst fyrir útlendinga, að það er talið sjálfsagt að gefa ótakmarkaða eignarnámsheimild fyrir því, en það er hins vegar svo lítil þörf fyrir hótel í Reykjavík fyrir íslenzka menn, að það er sjálfsagt að banna íslenzkum bændum að byggja hótel fyrir sína eigin peninga.